Áhugaverð erindi á málþingi um vistvottun Urriðaholts

Vistvottun og sjálfbærni var græni þráðurinn í afar áhugaverðum erindum sem flutt voru á málþingi Urriðaholts og Vistbyggðarráðs þann 10. maí 2016 í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti. Við þetta tækifæri afhenti Cary Buchanan, fulltrúi Breeam Communities, Gunnari Einarssyni bæjarstjóra í Garðabæ formlega staðfestingu á Breeam vistvottun Urriðaholts.

Sigríður Björk Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Vistbyggðarráðs, setti málþingið og óskaði Garðabæ og Urriðaholti til hamingju með vistvottunina. Hún sagði að markmiðið með mælikvarða á borð við Breeam vottunina væri ekki endilega að skora sem hæst, heldur að styðjast við ákveðinn mælikvarða til að auka visthæfi hverfa og taka á þeim atriðum sem mestu máli skipta.

Hún sagði að oft væri litlum tíma varið í að meta áhrif á af hönnun og skipulagi á fólk og samfélag. Hún sagði að Urriðaholt hefði byggst upp hratt að undanförnu, um væri að ræða frekar afmarkað svæði með skýrri umhverfisstefnu og með vottuninni væri markmiðum fylgt eftir með formlegum hætti. Hún sagði áhugavert að skoða og mæla viðhorf íbúa bæði nú og í framtíðinni, því þannig gæfist gott tækifæri til að meta hvort þessi metnaðarfulla umhverfisstefna og vistvottun hefði áhrif á daglegt líf fólks sem býr og starfar í Urriðaholti.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, var fundarstjóri á málþinginu og hann lagði áherslu á hversu miklu skipti að þetta verkefni tækist vel. Það er pólitísk stefnumótun okkar að leggja þessa miklu áherslu á skipulagsmál, sagði Gunnar og bætti því við hann hann væri afar stoltur af því hvað mikinn metnaður hefði verið lagður í skipulag Urriðaholts. Gunnar sagði að þar væri ný hugsun að baki, áhersla á gæði byggðar sem ætti eftir að standa næstu 100 árin og því mikilvægt að vanda vel til verka. Hér býr mikill metnaður að baki og ég er stoltur af að hafa átt þátt í þessari uppbyggingu, sagði Gunnar ennfremur.

Cary Buchanan, fulltrúi vottunarsamtakanna Breeam, er tengiliður Mannvits, sem annast vottunarferlið hér á landi. Hún sagði gaman að sjá hversu vel gengi með uppbyggingu Urriðaholts þessa dagana.

Cary hóf mál sitt á því að útskýra skipulag Breeam samtakanna. Að baki þeim stendur Bre sjóðurinn (Bre Trust), sem notar allan hagnað af starfseminni til frekari í rannsókna á sviði umhverfisverndar og vistvænna lausna.

Breeam gefur út vottunarstaðla fyrir byggingar og skipulag. Vottanirnar endurspegla ströngustu kröfur sem gerðar eru til vistvottunar og sjálfbærni, sagði Cary. Hún sagði að Breeam vottunarferlið væri byggt á stöðugum rannsóknum og bestu þekkingu sem til væri hverju sinni. Við leggjum líka mikið upp úr því þegar sótt er um vottun Breeam, að byggingar og skipulag gangi lengra en reglur og lágmarkskröfur segja til, sagði hún.

Upprunalega snerust vottanir Breeam eingöngu um nýbyggingar, en við höfum verið að taka inn endurnýjun bygginga (refurbishing) og svo skipulag, sagði Cary. Skipulag er á miklu stærri mælikvarða og umfangsmeira en einstakar byggingar og í skipulagsvinnunni er hægt að taka ákvarðanir frá byrjun um að fylgja bestu viðmiðum um visthæfni í öllum þáttum, ekki bara einstökum. Breeam vottun skipulagsins snýst um að meta hvernig sjálfbærni hefur verið byggð inn í hönnun skipulagsins og ekki bara bara hvað umhverfið varðar heldur líka það sem snýr að íbúum - félagslegir og hagrænir þættir, sagði Cary.

Hún sagði að vottunarferlið stuðlaði að því að fá alla aðila sem koma að skipulagningu til að vinna betur saman. Þetta gildir hvort sem unnið er að nýju hverfi, endurbyggingu, þéttingu, útvíkkun og hvort sem er í sveit eða borg.

Þegar visthæfni skipulags er metið er blönduð byggð íbúða og vinnustaða talin sjálfbærasta formið að sögn Cary.

Meðal þátta sem litið er til eru félagslegar og hagrænar aðstæður, allt frá áhrifum dagsljóss til vinda, flóðahættu og þar fram eftir götunum. Litið er til orkunotkunar, flokkun úrgangs og vatnsnotkun, hvernig land er nýtt og verndað og í samhengi við samfélagið. Flutningaleiðir og ferðafyrirkomulag skiptir miklu máli fyrir vistvottunina, hvaða almenningssamgöngur standa til reiðu, gönguleiðir, hjólaleiðir og svo framvegis.

Cary sagði að Breeam vottun skipulags ætti sér stað í þremur skrefum: Fyrsti liðurinn felst í að votta að heildarhugsun rammaskipulagsins stæðist vottunarkröfurnar. Hvaða stefna væri mörkuð í skipulaginu og heildaráhrif þess fyrir umhverfi og fólk. Í seinni tveimur skrefunum eru nánari atriði í deiliskipulaginu skoðuð og metin, farið betur ofan í útfærsluna. Að því loknu er gefin út lokavottun fyrir viðkomandi deiliskipulag.

Að sögn Cary skiptir máli að geta vottað rammaskipulagið í heild sinni vegna þess að uppbygging eftir því getur tekið langan tíma. Að sama skapi er því fylgt eftir með lokavottun deiliskipulags að unnið hafi verið að upprunalegu markmiðunum.

Hún sagði að því fyrr sem ákveðið væri að taka það skref að stefna að sjálfbærni og vistvottun, þess meiri væri ávinningurinn, en ekki aðeins það heldur reyndist kostnaður við uppbygginguna minni. Því fyrr í ferlinu sem sjálfbærnin kemur til skjalanna, því meira af því sama kemur á eftir.

Breeam býður upp á viðamikinn tékklista til að nota í skipulagsferlinu, en hann hvetur til samstarfs og samþættingar vinnunnar, ekki síst á fyrri stigum.

Cary bætti því við að í Breeam vottunarferlinu væri reynt að hafa sem minnsta skriffinnsku, til að mynda væru öll hefðbundin plön (t.d. mat á umhverfisáhrifum) viðurkennd sem hluti af vottunarferlinu.

Í lok erindisins afhenti Cary Gunnari Einarssyni bæjarstjóra lokastaðfestingu á Breeam vistvottun annars áfanga norðurhluta Urriðaholts. Áður hafði rammaskipulag Urriðaholts verið vottað eftir svokölluðu 2012 viðmiði Breeam Communities og var það fyrsta alþjóðlega vottunin í samræmi við það viðmið. Cary sagði að lokum að skipulag Urriðaholts endurspeglaði metnaðarfull markmið um sjálfbærni sem mun hafa jákvæð áhrif til langrar framtíðar.

Ólöf Kristjánsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá verkfræðistofunni Mannviti, sá um að meta skipulag Urriðaholts, en hún hefur leyfi til að meta skipulag samkvæmt Breeam Communities matskerfinu.

Ólöf sagði að vottunarferlið væri umfangsmikið og lagskipt verkefni. Grunnvottun rammaskipulagsins væri sá grunnur sem síðan nýtist fyrir allt deiliskipulagið. Nú væri deiliskipulag annars áfanga norðurs kominn með lokavottun og einkunnina very good. Byrjað væri að meta næsta áfanga, sem er restin af norðursvæðinu og upp á háholtið.

Ólöf sagði matskerfið mjög umfangsmikið, 40 kaflar sem spanna mjög vítt svið. Töluvert væri þó um að ákveðnir styrkleikar eins og í þessu skipulagi komi fyrir í mörgum köflum og gefi því stig hér og þar. Hún sagði að helsti styrkleiki skipulagsins í Urriðaholti væri sú mikla áhersla sem lögð hefur verið í verndun vatnasvæðis Urriðavatns. Það er gert með sjálfbærum ofanvatnslausnum sem eru einstakar á landsvísu að umfangi, ásamt verndun vistkerfisins sem umlykur vatnið. Ólöf sagði að mikil greiningarvinna á svæðinu legði grunninn að því að verja það.

Annar styrkleiki sem Ólöf nefndi er það öfluga samráð sem verið hefur um skipulag Urriðaholts allt frá upphafi fyrir 10 árum. Þessi mikla áhersla á samráðsferlið kemur sterkt inn í einkunnina sagði Ólöf. Blönduð byggð skiptir líka miklu máli benti hún á, svo og áhersla á græn svæði, græna geira sem þjóna bæði sem útivistarsvæði og ofanvatnslausnir. Þá mætti nefna göngu- og hjólaleiðir innan og utan hverfisins, öryggi gangandi, hraðatakmarkandi hönnun gatna, 30 km götur og hönnun með tilliti til sólar og vinda.

Ólöf sagði ennfremur að á vefsíðu Breeam væri búið að birta svokallaða tilviksrannsókn (case study) um skipulagsáherslur og skipulagsferlið í Urriðaholti. Þar væru dregnar helstu staðreyndir og fjallað um styrkleika og áherslur úr matinu. Þar væru líka praktísktar upplýsingar, svo sem um stærð og staðsetningu. Gert væri ráð fyrir að í Urriðaholti byggju og störfuðu 7-9 þúsund manns þegar hverfið yrði fullbyggt. Umhverfismál, þar á meðal grunnskóli með sérstakar áherslu á þau, undirstrikaði þann græna þráð sem gengi í gegnum alla hönnunina frá upphafi og svo yrði áfram. Til að koma upplýsingum áfram hefðu verið gefnar út umhverfisleiðbeiningar fyrir hönnuði, verktaka og íbúa, svo og ýmsar upplýsingar um val á byggingarefnum, umgengni og fleira.

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, sagði að með réttu mætti tala um hátíðisdag fyrir skipulagsgerð og þá sérstaklega í Urriðaholti.

Hún sagði að í erindi sínu ætlaði hún að setja verkefnið í samhengi við skipulagsumgjörð og stefnumörkun í skipulagsmálum hér á landi, íslenska skipulagsgerð og umhverfi fyrir vistvæntar áherslur, svo og hvað aðferðir standa helst til boða til að vinna að slíkum áherslum.

Í næstum tvo áratugi hafi íslensk skipulagslögggjöf mælt fyrir um að við skipulagsgerð skyldu leiðarstefin vera sjálfbær þróun, efnahagslegar- félagslegar og menningarleg þarfir, lýðheilsa og vernd náttúru og menningarverðmæta. Þessi markmið hefðu skýra samsvörun við vistvottun Urriðaholts.

Ásdís Hlökk sagði að löggjöfin tilgreindi ekki mikið hvernig best væri að ná fram þessum markmiðum, hvernig skipuleggja ætti byggð til að vinna að þessum markmiðum. Löggjöfin segði ennþá minna um hverskonar samsetning byggðar - blöndun, ætti að vera til að ná þessum markmiðum.

Hún sagði að þetta væri reyndar nokkur einföldun, löggjöfin segði tvennt: að nota eigi umhverfismat til að vega og meta ólíkar tillögur þegar unnið er að skipulagi og nota það mat til að móta endanlega og draga úr neikvæðum áhrifum og magna upp þau jákvæðu. Ennfremur að stunda ætti samráð og samtal við skipulagsgerðina. En eftir stæði spurningin hvernig eigum við að standa að þessu. Niðurstaðan væri sú að við hefðum í raun frjálsar hendur í einstökum skipulagsverkefnum.

En hverskonar byggð stuðlar að þessum góðu markmiðum, spurði Ásdís Hlökk? Lengst af hefur vantað stefnu stjórnvalda, engar leiðbeiningar verið til um hverskonar útfærsla vinnur að þessum markmiðum. Á því varð þó breyting í mars síðastliðnum en þá samþykkti Alþingi í fyrsta sinn landsskipulagsstefnu og þar er vikið að ýmsum áhersluatriðum sem varða útfærslu á vistvænni byggð.

Sú stefna hvílir á fjórum meginstoðum sagði Ásdís Hlökk, en þær eru sjálfbær þróun, seigla og viðbragðsþróttur, lífsgæði og samkeppnishæfni. Ennfremur eru sett fram markmið um fjögur landfræðilega tengd þemu, en þau eru miðhálendið, dreifbýli, haf- og strandsvæði og svo búsetumynstur og dreifing byggðar. Í síðastnefnda þemanu er afgerandi áhersla á vistvæna byggð.

Ásdís Hlökk sagði að þessi áhersla birtist m.a. annars í því að þróun þéttbýlis og fyrirkomulag byggðar stuðli að sjálfbærni með áhrslu á gæði í hinu byggða umhverfi og markvissu og samþættu skipulagi byggðar og samgangna.

Helstu dæmi þar sem vikið er að þessum þáttum í landsskipulaginu eru þessi að sögn Ásdísar.

  • Þétt, samfelld byggð, endurskipulagning vannýttra svæða og efling nærsamfélags.
  • Áhersla á blöndun atvinnustarfsemi, verslunar og þjónustu, tengt íbúðarbyggð, hugsað í þágu sjálfbærni í daglegu lífi.
  • Gæði í hinu byggða umhverfi. Yfirbragð og mælikvarði nýrrar byggðar falli að bæjarmynd sem fyrir er.
  • Heilnæmt umhverfi sem veitir góð skilyrði til búsetu og möguleika til fjölbreyttrar útiveru.
  • Almenningsrými og útivistarsvæði sem hvetja til útiveru og hreyfingar, matjurtaræktunar og náttúruupplifunar og auðvitað varðveita verðmæt náttúrusvæði.
  • Umhverfisvænar lausnir, á borð við sjálfbærar ofanvatnslausnir ásamt möguleikum til flokkunar og endurvinnslu og aukinnar nýtni við auðlindanotkun.
  • Göngu- og hjólavænt umhverfi. Tvinna saman almenningssamgöngur og byggðarskipulag. Gatnaskipulag og gatnahönnun miði að því markviss að skapi í senn vönduð bæjarrými og örugg umferðarrými, algjört lykilatriði. Götur eru afskaplega mikilvæg bæjarrými - ekki bara umferðarrými
  • Og að sjálfsögðu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með skipulagsaðgerðum.

Ásdís Hlökk sagði að fjölgmargt í þessum atriðum ættu sér samsvörun í skipulagi Urriðaholts. En það væri heilmikið rými til útfærslu skipulagshugynda þar sem sleppir formlegu stefnunni, um hvernig eigi að útfæra góða byggð.

Hún sagði að forsvarsmenn skipulagsverkefna hefðu talsvert mikinn sveigjanleika um það hvernig að þeim væri staðið. Við getum notað vistvottunarkerfi eins og Breeam í Urriðaholti sagði Ásdís Hlökk - þetta er nýtt tæki á alþjóðvísu sem skipulagsfólki gefst kostur á að nýta í vinnu sinni. Lengst af voru þessi alþjóðlegu vottunarkerfi einkum fyrir einstaka byggingar, en síðustu misseri og ár hafa þau verið að þróa leiðir og aðferðir til að votta skipulag hverfa eða hverfishluta. Þarmeð eru komin ný tól sem við skipulagsfólk höfum ekki haft tiltæk áður. Þetta hentar mjög vel eins og í tilviki Urriðaholts, þar sem lagt er af stað með og haldið áfram af miklum metnaði og haldið áfram með skýra og afdráttarlausa sýn að hverju er stefnt.

Forstjóri Skipulagsstofnunar sagði ýmis önnur viðmið tiltæk, t.d. væri hægt að nota viðurkenndar og viðteknar aðferðir við umhverfismat áætlana, hægt væri að nota norrænan vegvísi um vistvæna þróun þéttbýlis, til væri hógvær lítill bæklingur sem Vistbyggðarráð, Arkís, Skipulagsstofnun og HR hefðu gefið út um vistvænt skipulag þéttbýlis. Þennan bækling væri hægt að nota sem hugmyndabrunn og áminningu og til að halda sér við efnið. Þetta væru bara fáein dæmi um hvað hægt er að nota af formlegum sem minna formlegum aðferðum til að halda fókus. Við þurfum að velja fókus sem hentar hverju verkefni og eftir aðstæðum, sagði Ásdís Hlökk.

Þá sagði hún að sjá mætti ótvíræða kosti við nálgunina í skipulagi Urriðaholts. Þó væri ekki víst að vistvottun skipulags verði regla í skipulagsferli þéttbýlis hér á landi. Án efa væri það góð viðbót við þau tól og tæki sem við höfum til að auka gæði og visthæfi byggðar. Vottun felur í sér staðfestingu á þeim metnaði sem forsvarsmenn skipulagsverkefnisins hafa lagt í við skipulagið. Vottunin er staðfesting fyrir samfélagið - fyrir búsetu og atvinnurekstur - um að skipulagið hefur undirgengist og staðist kerfisbundið próf með tilliti til byggðagæða og vistvænna áherslna. Þeim árangri hafa Garðabær og Urriðaholt svo sannarlega náð. Þetta er mikilvægt skref og við færum aðstandendum verkefnisins innilegar hamingjuóskir með þennan áfanga, sagði Ásdís Hlökk að lokum.

Tengt efni