Fréttir:  

Vistvottað hverfi

Urriðaholt er nýtt hverfi í Garða­bæ með ein­stakt útsýni til allra átta. Urriða­holt byggir á hug­sjón um að íbúa­byggð eigi að hámarka lífs­gæði fólksins sem þar býr í sátt við nátt­úruna í kring og um­hverfið allt. Skipulag Urriðaholts er fyrsta hverfið hér á landi til að hljóta vistvottun samkvæmt vottunarkerfi BREEAM Communities.

Urriða­holt er þétt­býli í náinni tengingu við nokkur helstu úti­vistar­svæði höfuð­borgar­svæðis­ins, ósnortna nátt­úru og góðar sam­göngu­æðar sem stytta leiðir í allar áttir. ​Skamman tíma tekur að fara með strætó til og frá Mjódd, sem er ein stærsta skiptistöðin á höfuðborgarsvæðinu.​

Velkomin í Urriðaholt!

Lifandi byggð

Við hönnun Urriðaholts var lögð mikil áhersla á að byggðin verði að lifandi og sjálf­stæðu sam­félagi þar sem er gott að búa og að ekki þurfi að fara langt til að sækja helstu þjón­ustu.

Urriða­holt er hluti af Garða­bæ og hverfið nýtur allrar þjón­ustu sem Garða­bær hefur upp á að bjóða.

Lögð er áhersla á blöndun íbúða­forma til að stuðla að fjöl­breytni og val­kostum fyrir alla.

Urriða­holts­skóli hefur nú þegar tekið til starfa. Meira um Urriðaholtsskóla

Í Kauptúni er verslunar- og þjón­ustu­kjarni í göngu­færi við íbúa­byggðina í Urriða­holti. Þar eru meðal annars versl­anir IKEA, Costco, Bónus og Vínbúðin.

Efst á Háholti Urriða­holts er gert ráð fyrir bland­aðri byggð íbúða og þjónustu; versl­unum, heilsu­gæslu, skólum og íþrótta­mannvirkjum svo nokkuð sé nefnt. Með því að beina erindum fólks á einn stað myndast þéttara sam­félag og bæjar­bragur.

Í nágrenni við Náttúru­fræði­stofnun Íslands er svo gert ráð fyrir þjónustu­starfsemi og þannig mun fjöldi fólks eiga kost á því að búa og starfa í Urriða­holti í náinni framtíð.

Umhverfið í fyrsta sæti

Urriðavatn og votlendið um­hverfis það er ævintýra­heimur og heim­kynni ótal plantna og dýra. Það er kapps­mál að sam­búðin við náttúr­una sé vel heppnuð og að Urriða­holt sé umhverfis­væn byggð í hæsta gæða­flokki. Áherslum Urriða­holts í umhverfis- og skipu­lags­málum hefur verið fylgt eftir með alþjóð­legu umhverfis- og vist­vott­un­ar­kerfi. Þannig er tryggt að byggingar á svæð­inu hafi sem minnst neikvæð áhrif á um­hverfið og stuðli að mann­vænu og sjálf­bæru sam­félagi.

Urriðaholt er fyrsta hverfið á Íslandi til að fá vist­vottun skipulags (BREEAM Communi­ties) sem ætlað er að tryggja lífsgæði og umhverfis­vernd með vist­vænu skipu­lagi byggðar­innar. Auk þess var húsnæði Náttúru­fræðistofn­unar Íslands ein af fyrstu byggingum hér á landi til að fá umhverfis­vottun (BREEAM Construction Assessment) og í undir­búningi er sambæri­leg vottun Urriða­holts­skóla. Fyrsta einbýlishúsið til að fá Svansvottun hér á landi er í Urriðaholti.
Meira um umhverfisvottanir

Sjálfbærar ofanvatnslausir tryggja hring­rás vatns­ins í hverfinu svo lífríkið í kring raskist ekki og haldi áfram að dafna. Þessar lausnir eru þær fyrstu sinnar teg­undar í íbúa­byggð á landinu.
Meira um sjálfbærar lausnir

Lífsgæðin í fyrirrúmi

Lífsgæði felast ekki síst í því umhverfi sem við búum okkur. Allt skipu­lag byggð­ar­innar í Urriða­holti miðar að því að gera dag­legt líf íbúanna ánægju­ríkt og auðvelt þar sem nátt­úrunni er veitt tækifæri á að njóta sín, bæði á lóðum og í almenn­ings­rými. Opin svæði inni í hverf­inu eru skipu­lögð með úti­veru og tóm­stundir í huga. Hönnun lýs­ingar utan­húss gengur út á að hún sé þægi­leg og að náttúru­leg birta og stjörnu­bjartar nætur fái að njóta sín.

Umferðargötur hverfisins hafa verið hannaðar með auð­veldar sam­göngur að og frá heimili í fyrir­rúmi, en um leið með það í huga að um­hverfið fái að njóta sín og að umferðar­hraði sé hæfilegur. Strætis­vagn gengur um Urriða­holt og frá Kauptúni. Göngu­stíga­net tengir allt hverfið saman og við nálæg útivistar­svæði.

Urriðaholt hefur hlotið viður­kenn­ingar á sviði skipu­lags- og um­hverfis­mála, m.a. “Awards for Livable Communities” um lífs­gæði í borgar­skipu­lagi.
Nánar um LivCom verðlaunin.

Dreifikerfi rafmagns í Urriða­holti er 5-víra kerfi sem trygg­ir betra jarð­sam­band en hefð­bundin dreifi­kerfi og lág­markar raf­mengun.
Nánar um 5-víra kerfið

Bein tenging við náttúruna

Betri staðsetning fyrir náttúru­unnendur og útivistarfólk er vandfundin. Urriðaholt liggur við friðlandið í Heiðmörk sem er stærsta útivistar­svæði höfuðborgar­svæð­is­ins og er tengt beint við það með göngu- og hjólastígum.

Í jaðri hverfis­ins er svo Búrfells­hraunið og sjálft Urriða­vatn þar sem ungir sem aldnir íbúar þorpsins geta uppgötvað fjöl­skrúð­ugt lífríkið við vatnið. Hverfið liggur aflíð­andi í halla sem skapar skjól og einstakt útsýni yfir náttúruna í kring.
Nánar um náttúruna allt um kring

Stutt í allar áttir

Þótt Urriðaholt sé umkringt óspilltri nátt­úru þá er stutt í góðar sam­göngu­æðar sem tengja byggð­ina við aðra hluta höfuð­borg­ar­svæð­is­ins. Auk Kaup­túns er aðeins nokkurra mín­útna akstur í þjón­ustu og verslun í Garða­bæ eða Hafn­ar­firði.

Hverfið er með beina teng­ingu við Reykja­nes­braut, sem trygg­ir greiðar leiðir í allar áttir. Fljótlegt er að fara í Smára­lind eða að gatna­mót­um Miklu­brautar og Reykja­nes­braut­ar við Elliðaár­vog. Strætó fer úr Kauptúni í Mjódd, sem er ein stærsta skiptistöðin á höfuðborgarsvæðinu.​

Nánar um góðar sam­göngur að og frá Urriðaholti