Breeam vistvottun skipulagsins í Urriðaholti

Urriðaholt leggur ríka áherslu á að aðgerðir og áherslur í umhverfis- og skipulagsmálum séu staðfestar og vottaðar af óháðum þriðja aðila. Skipulag Urriðaholts er fyrsta hverfið hér á landi til að hljóta vistvottun samkvæmt vottunarkerfi „BREEAM Communities.“ 

BREEAM kerfið sem er alþjóðlegt vottunarkerfi er eitt hið fremsta heiminum í dag. Kerfið er upphaflega breskt og stendur fyrir British Research Establishment Environmental Assessment Method. Með vottunarferlinu eru tryggð ákveðin gæði í umhverfis- og skipulagsmálum. BREEAM Communities er eitt af BREEAM matskerfunum og snýr að vistvottun skipulags fyrir hverfi/svæði.

Vottunin staðfestir að Urriðaholt uppfyllir skilyrði BREEAM Communities kerfisins um framúrskarandi skipulag, sem unnið hefur verið frá grunni með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi. Grunnhugsunin er að vanda vel alla skipulagsvinnu með öflugri greiningarvinnu, víðtæku samráðsferli og ítarlegum gátlistum. Þannig er lagður grunnur að áhugaverðu samfélagi, skipulagi sem er endingargott, öruggt og aðlaðandi til búsetu og býður uppá góða aðstöðu til útivistar.

Í vottunarkerfi BREEAM er horft til fimm megin efnisflokka sem miða að því að meta og bæta sjálfbærni hverfisins. Flokkarnir eru:

 • Samráð og stjórnun
 • Félagsleg og efnahagsleg velferð
 • Auðlindir og orka
 • Landnotkun og vistfræði
 • Samgöngur og aðgengi
   


En hvaða merkingu hefur það fyrir íbúa í Urriðaholti að skipulag þess hafi hlotið vistvottun BREEAM? Það þýðir að tryggð eru ákveðin gæði í hverfinu sem m.a. felast í eftirfarandi þáttum:

 • Gönguleiðir í skóla og leikskóla eru stuttar og öruggar.
 • Gatnaskipulag gerir ráð fyrir öllum ferðamátum, dregur úr umferðarhraða og gerir götur því öruggari fyrir alla vegfarendur.
 • Fjölbreytt útivistarsvæði fyrir fólk á öllum aldri.
 • Nálægð og góðar tengingar við Urriðavatn og fjölbreytt lífríki þess.
 • Gangandi og hjólandi vegfarendur eru í forgangi fyrir bílum.
 • Stutt í verslun og aðra þjónustu.
 • Gott aðgengi að strætó.
 • Nálægð húsa við gönguleiðir stuðlar að öryggi fyrir vegfarendur – allir eru á vaktinni.
 • Barnvæn leiksvæði.
 • 5-víra kerfi rafmagns í öllu hverfinu til að draga úr rafmengun.
 • Stutt í náttúru og gott aðgengi með góðu stígakerfi.
 • Rými sólrík og skjólsæl.
 • Fjölbreytt framboð húsnæðis, fyrir allt æviskeiðið.
 • Þægileg lýsing utandyra, minni ljósmengun.
 • Fjölbreyttar íbúðastærðir sem stuðla að blandaðri íbúasamsetningu.
 • Blágrænar ofanvatnslausnir til að tryggja gróðurvænt umhverfi og verndun Urriðavatns.
 • Vel hugað að hönnun opinna svæða og val á gróðri með tilliti til vistkerfis svæðisins.


Umhverfisvottun (BREEAM Construction Assessment)

Náttúrufræðistofnun Íslands í Urriðaholti var ein af fyrstu byggingum landsins til að verða umhverfisvottuð og nú er unnið að undirbúningi þess að Urriðaholtsskóli sem nú er að rísa fái sömu vottun.


Svansvottun - tvö verkefni í Urriðaholti

Svansmerkið er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Svansmerkið er án vafa þekktasta umhverfismerkið á Íslandi og er Umhverfisstofnun fulltrúi Svansins hér á landi.

Tvö fasteignaverkefni í Urriðaholti eru í vottunarferli Svansins, þau fyrstu hér á landi. Annars vegar er verið að byggja einbýlishús (sjá nánar á visthus.is) og hins vegar fjölbýlishús með 34 smáíbúðum. Svansvottunin er lausnamiðaðri en aðrar vottanir og tekur betur til aðstæðna hér á landi. Hins vegar eru gerðar mjög stífar kröfur um að orkunotkun húsa fari ekki yfir tilskilin viðmið. Þau eru langt undir því meðaltali sem gengur og gerist hér á landi. Fyrir vikið eru miklar kröfur gerðar til framkvæmdaraðila varðandi einangrun, kuldabrýr, glugga og loftskipti.


Verðlaun og viðurkenningar

Auk þess að hafa undirgengist formlegt vottunarferli hefur skipulag Urriðaholts hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga. Skipulag urriðaholts hlaut verðlaun fyrir áherslur á lífsgæði í borgarskipulagi (International Award for Livable Communities) frá alþjóðlegu samtökunum LivCom. Samtökin njóta stuðnings Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og eru virt á sínu sviði (livcomawards.com). 

Boston Society of Architects (BSA) veitti rammaskipulag Urriðaholts verðlaun vegna áherslna á lífsgæði í byggðinni og smaspil hennar við náttúruna og menningarminjar í nágrenninu. Auk þess var Urriðaholt valið af Nordregio sem dæmi um árangursríkt skipulagsverkefni á Norðurlöndunum.

Einn af mörgum þáttum í vistvottun skipulags Urriðaholts er notkun blágrænna ofanvatnslausna til að tryggja gróðurvænt umhverfi og verndun Urriðavatns.

Vistvottun BREEAM þýðir að tryggð eru ákveðin gæði í hverfinu. Nefna má sem dæmi fjölbreyttar íbúðastærðir, gróðurvænt umhverfi og nálægð húsa við gönguleiðir.