19.05.2016

Vistvottun Urriðaholts undirstrikar metnaðinn í skipulagi hverfisins

Á málþingi um vistvottun Urriðaholts var það samdóma álit frummælenda að Breeam vistvottun hverfisins undirstrikaði þann metnað sem felst í skipulagi og uppbyggingu hverfisins. Á málþinginu afhenti fulltrúi Breeam Communities Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra Garðabæjar, formlega staðfestingu á lokavottun hluta deiliskipulags Urriðaholts. Áður hafði rammaskipulag hverfisins hlotið vistvottun Breeam.

Ítarleg umfjöllun um erindin á málþinginu ásamt vídeóupptökum.


Cary Buchanan, fulltrúi Breeam, sagði að með lokavottun deiliskipulags væri því fylgt eftir að unnið hafi verið að upprunalegu markmiðunum í rammaskipulaginu. Hún sagði að skipulag Urriðaholts endurspeglaði metnaðarfull markmið um sjálfbærni sem mun hafa jákvæð áhrif til langrar framtíðar.

Breeam gefur út vottunarstaðla fyrir byggingar og skipulag. Vottanirnar endurspegla ströngustu kröfur sem gerðar eru til vistvottunar og sjálfbærni, sagði Cary. Hún sagði að Breeam vottunarferlið væri byggt á stöðugum rannsóknum og bestu þekkingu sem til væri hverju sinni. Við leggjum líka mikið upp úr því þegar sótt er um vottun Breeam, að byggingar og skipulag gangi lengra en reglur og lágmarkskröfur segja til, sagði hún.

Sigríður Björk Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Vistbyggðarráðs, sagði á málþinginu að markmiðið með mælikvarða á borð við Breeam vottunina væri að styðjast við ákveðinn mælikvarða til að auka visthæfi hverfa og taka á þeim atriðum sem mestu máli skipta.

Ólöf Kristjánsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá verkfræðistofunni Mannviti, sá um að meta skipulag Urriðaholts samkvæmt umboði Breeam Communities. Hún sagði matskerfið mjög umfangsmikið, 40 kaflar sem spanna mjög vítt svið. Hún sagði að helsti styrkleiki skipulagsins í Urriðaholti væri sú mikla áhersla sem lögð hefur verið í verndun vatnasvæðis Urriðavatns. Það er gert með sjálfbærum ofanvatnslausnum sem eru einstakar á landsvísu að umfangi, ásamt verndun vistkerfisins sem umlykur vatnið, sagði Ólöf. Hún nefndi einnig sem styrkleika það öfluga samráð sem verið hefur um skipulag Urriðaholts allt frá upphafi fyrir 10 árum. Þessi mikla áhersla á samráðsferlið kemur sterkt inn í einkunnina sagði Ólöf, en þess má geta að einkunn lokavottunar deiliskipulagsins var „very good.“

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, sagði að forsvarsmenn skipulagsverkefna hefðu talsvert mikinn sveigjanleika um útfærslu. Vistvottunarkerfi eins og Breeam væri nýtt tæki á alþjóðvísu sem skipulagsfólki gefst kostur á að nýta í vinnu sinni, líkt og í Urriðaholti, sagði hún. Þarna eru komin ný tól henta mjög vel eins og í tilviki Urriðaholts, þar sem lagt er af stað með og haldið áfram af miklum metnaði og haldið áfram með skýra og afdráttarlausa sýn að hverju er stefnt.

Vottunin er staðfesting fyrir samfélagið - fyrir búsetu og atvinnurekstur - um að skipulagið hefur undirgengist og staðist kerfisbundið próf með tilliti til byggðagæða og vistvænna áherslna. Þeim árangri hafa Garðabær og Urriðaholt svo sannarlega náð. Þetta er mikilvægt skref og við færum aðstandendum verkefnisins innilegar hamingjuóskir með þennan áfanga, sagði Ásdís Hlökk að lokum.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, lagði áherslu á hversu miklu skipti að uppbygging Urriðaholts tækist vel. Það er pólitísk stefnumótun okkar að leggja þessa miklu áherslu á skipulagsmál, sagði Gunnar og bætti því við hann hann væri afar stoltur af því hvað mikinn metnaður hefði verið lagður í skipulag Urriðaholts. Gunnar sagði að þar væri ný hugsun að baki, áhersla á gæði byggðar sem ætti eftir að standa næstu 100 árin og því mikilvægt að vanda vel til verka. Hér býr mikill metnaður að baki og ég er stoltur af að hafa átt þátt í þessari uppbyggingu, sagði Gunnar ennfremur.

Gunnar og Cary IMG 0559 edited 2
Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar ásamt Cary Buchanan fulltrúa Breeam Communities.
Breeam vistvottun Urriðaholts allur hópurinn IMG 0597
Hluti af hópnum sem kemur með einum eða öðrum hætti að mótun og uppbyggingu Urriðaholts í Garðabæ var á málþinginu.
Breeam vistvottun Urriðaholts málþing hlustendur IMG 0582
Það var áhugasamur hópur sem sótti málþingið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti.
Asdis Hlökk IMG 0569 edited 1
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar.
Sigríður Víðis IMG 0547
Sigríður Víðis Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Vistbyggðarráðs.
Olöf IMG 0562
Ólöf Kristjánsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá verkfræðistofunni Mannviti.
Breeam vistvottun Cary IMG 0557
Cary Buchanan, fulltrúi Breeam Communities.

Tengt efni