28.11.2007

Urriðaholt fær verðlaun á LivCom

Rammaskipulag fyrir Urriðaholt í Garðabæ fékk í vikunni verðlaun fyrir áherslu á lífsgæði í borgarskipulagi, frá alþjóðlegu samtökunum Livcom. Þetta er mikill heiður fyrir það starf sem unnið hefur verið í tengslum við skipulagsvinnu í Urriðaholtinu og þær áherslur sem þar hafa verið lagðar í skipulagi.

Livcom samtökin njóta stuðnings umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og eru virt samtök á þessu sviði (www.livcomawards.com). Samtökin hafa það að markmiði að auka lífsgæði íbúa í borgarsamfélögum, með því að byggja upp lífvæn samfélög (e. liveable communities). Á hverju ári veita samtökin verðlaun þeim sveitarfélögum og verkefnum á sviði skipulags- og samfélagsmála, sem þykja skara framúr á þessum sviðum og eru þetta einu samtökin sem veita verðlaun á þessu sviði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á því sem vel hefur heppnast og getur verið öðrum fordæmi.
Urriðaholt fær verðlaun í flokknum “The Environmentally Sustainable Project Awards” en markmið þeirra er að hvetja þróunaraðila til að leggja sömu áherslu á umhverfis og samfélagsuppbyggingu og sveitarfélög gera í sinni vinnu.

Urriðaholtið fær verðlaunin vegna áherslna á lífsgæði með fjölbreytni í byggð og byggðablöndun, áherslu á samfélagsumgjörð og samspils byggðar við verndun umhverfis.
Verðlaunin eru ennfremur veitt vegna tengsla byggðar og náttúru, aðlaðandi bæjarbrags og umgjarðar um blandaða byggð, þar sem hið byggða umhverfi og náttúra eru tengd saman sem órjúfanleg heild. Markmiðið að skapa áhugavert samfélag, sem öruggt og aðlaðandi er að búa í og býður uppá góða aðstöðu til útivistar. Á myndinni til hægri má sjá aðstandendur Urriðaholts eftir að hafa tekið við verðlaununum. Frá vinstri: Eric Holding hjá John Tompson and Partners, London, Halldóra Hreggviðsdóttir, Alta, Guðmundur Eiríksson, stjórnarmaður í Urriðaholti, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Sigurður Gísli Pálmason, stjórnarmaður í Urriðholti, Jón Pálmi Guðmundsson, framkvæmdarstjóri Urriðaholts og Arinbjörn Vilhjálmsson, skipulagsstjóri Garðabæjar.
Sjá frekari upplýsingar í ítarefni.

Licvom urr

Tengt efni