16.05.2008

Táknatréð sprettur upp

Listaverkið Táknatréð verður reist efst í Urriðaholti í þessari viku. Táknatréð er fyrsta mannvirkið sem rís í Urriðaholti, en það er samstarfsverkefni Gabríelu Friðriksdóttur og frönsku hönnuðanna/listamannanna Mathias Augustyniak og Michael Amzalag, einu nafni M/M.

Táknatréð er úr bronsi og verður rúmir fimm metrar á hæð. Tréð segir Gabríela að megi kalla minnisvarða um möguleikana, innblásið af gjafmildi góðs samstarfs ólíkra aðila og endurspegli þannig undirstöðu þeirrar byggðar sem rísa eigi í Urriðaholti.

Starfsmenn stærsta bronssteypufyrirtækis í Evrópu vinna nú að uppsetningu verksins í Urriðaholti ásamt listamönnunum. Áformað er að því verði lokið sunnudaginn 18. maí.

Hugmyndina að verkinu segir Gabríela að megi rekja til þess þegar M/M komu hingað til lands í tengslum við frönsku menningarhátíðina Pourqois Pas? snemma árs 2007. Þá hófst hugmyndavinna á bak við Tree of Signs og haldin var sýning á frumteikningum í Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ . Tréð byggist á sömu leturgerð M/M og notuð var fyrir umslagið á plötu Bjarkar, Medúllu, og sem notuð var sem grunnur undir allt prentað efni og þrívíða hluti sem þeir unnu í samstarfi við Gabríelu fyrir Tvíæringinn í Feneyjum. Í Táknatrénu verður leturgerðin hins vegar þrívíð og teikningar Gabríelu mótaðar í lágmyndir sem hanga munu í trénu eins og ávextir eða fræ. „Þegar samstarf við Urriðaholt kom til tals og við hófum að kynna okkur hugmyndafræði þess kom hún heim og saman við hugmyndir okkar. Auk þess hafði okkur alltaf langað að setja tréð upp á óbyggðu svæði,“ segir Gabríela.

„Við hjá Urriðaholti fréttum af M/M í gegnum menningarfulltrúa Garðabæjar og fórum stuttu síðar með þá Mathias og Michael í skoðunarferð upp undir Búrfellsgjána“, segir Sigurður Gísli Pálmason, sem situr í stjórn Urriðaholts ehf. „Það er sjaldgæft að menn komist í tæri við jafn ósnortið land svo skammt frá byggð, enda hrifust þeir af náttúrufegurðinni. Skömmu síðar var ákveðið að tréð yrði fyrsta mannvirkið til að rísa á Urriðaholti. Það er skemmtilega táknrænt og gefur áþreifanleg skilaboð um gróanda og vöxt í Urriðaholti“.

Gabríela segir það besta við Táknatréð að það sé svo að segja stallalaust, ólíkt flestum listaverkum í opinberu rými. „Í slíkum rýmum finnst mér vera unnið á móti listinni með því að búa til fyrirfram ákveðinn ramma utan um allt, en þannig nær verkið sjaldan að þróast eðlilega og samsvara sér umhverfinu,“ segir Gabríela. Hún segir þetta einnig speglast í því að leturgerðin sem notuð er í verkinu rammi ekki inn heldur skapi möguleika. „Hin formræna heimspeki og heimspekin á bak við Urriðaholt eiga vel saman. Það er að segja að vinna með möguleikum náttúrunnar og rekast ekki á hana, heldur að nota mjúk form sem mynda meira samspil”.

Tree news
Tree Of Signs2008 IMGL9506
Tree Of Signs2008 IMGL9372 2
Tree Of Signs2008 IMGL9407
Tree Of Signs2008 IMGL9463
Tree Of Signs MM
Tree Of Signs Th Vil
Tree Of Signs2008 IMGL9556