8.05.2009

Samið um uppbyggingu á “5-víra” rafkerfi í Urriðaholti

Fulltrúar Garðabæjar, Urriðaholts og Hitaveitu Suðurnesja undirrituðu í gær samkomulag um að svokallað “5-víra” rafkerfi verði lagt í vesturhluta Urriðaholts. Um er að ræða tilrauna- og þróunarverkefni sem Urriðaholt ehf. styrkir fjárhagslega, en Hitaveita Suðurnesja annast framkvæmdir.

Markmiðið með 5-víra rafdreifikerfinu er að bæta jarðsamband og draga þannig úr líkum á ójöfnu flæði rafmagns. Í því samhengi er oft talað um rafmengun, sem geti orsakað ójafnvægi í umhverfinu og haft neikvæð áhrif á heilsufar manna og dýra. Áralangar rannsóknir og úrbætur sem Brynjólfur Snorrason hjá Orkulausnum hefur staðið að til að auka jarðsamband gefa sterklega til kynna að það geti gefið góða raun – og alls ekki spillt fyrir. Í samræmi við áherslur Urriðaholts ehf. á gæði skipulagsins var ákveðið að stuðla að bættu jarðsambandi rafdreifikerfisins og leggja fjármuni til þess að gera slíkt að veruleika.

amkomulagið undirrituðu Gunnar Einarsson bæjarstjóri, fyrir hönd Garðabæjar, Jón Pálmi Guðmundsson framkvæmdastjóri fyrir hönd Urriðaholts ehf. og Albert Albertsson aðstoðarforstjóri fyrir hönd Hitaveitu Suðurnesja.

Framkvæmdin felur í sér að HS setur niður allt að 80 metra djúp jarðskaut víðsvegar um Urriðaholt. Sérstakur vír, eð leiðari, frá dreifikerfi rafmagns tengist jarðskautunum. Heðfbundin rafdreifikerfi hafa 4 leiðara, en hér bætist enn einn við og því er talað um 5-víra rafdreifikerfi.

Hitaveita Suðurnesja mun mæla árangur af 5-víra kerfinu. Hins vegar mun reynslan ein leiða í ljós hver áhrifin verða.

Framkvæmd þessi er í samræmi áður kynntar fyrirætlanir Urriðaholts á þessu sviði. Þrátt fyrir að lítil hreyfing sé í Urriðaholti um þessar mundir, þá er talið mikilvægt að fylgja eftir öllum áformum skipulagsins, enda muni Urriðaholt standa sterkt að vígi til framtíðar.

Á næstu vikum munum við setja ítarefni á vefinn og senda lóðarhöfum tæknilegar upplýsingar.

Undirritun samnings urridaholt gardabaer og hs 6 mai 021
Sitjandi frá vinstri: Jón Pálmi Guðmundsson framkvæmdastjóri Urriðaholts ehf., Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Albert Albertsson aðstoðarforstjóri HS. Standandi frá vinstri: Egill Sigmundsson forstöðumaður hjá HS, Ingjaldur Ásvaldsson og Sigurður Gísli Pál
Undirritun samnings urridaholt gardabaer og hs 6 mai 010
Skrifað undir samkomulagið. Frá vinstri, Jón Pálmi Guðmundsson framkvæmdastjóri Urriðaholts ehf., Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Albert Albertsson aðstoðarforstjóri Hitaveitu Suðurnesja.