10.07.2020

Nýtt kort af gönguleiðum í nágrenni Urriðaholts

Ítarlegt kort með göngu- og reiðleiðum í nágrenni Urriðaholts er komið út. Ennfremur er á kortinu að finna helstu örnefni á svæðinu.

Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa gefur kortið út, en Urriðaholt og stór hluti af landi í kringum Urriðaholt hefur verið í eigu sjóðsins frá 1957.

Mikið úrval er af gönguleiðum til austurs og suðurs frá Urriðaholti, en samfellt kort af þeim hefur ekki verið til fyrr en nú. Prentuðu kortinu var dreift til allra íbúa í Urriðaholti fyrri hluta júlí og stóð Urriðaholt ehf að prentun og dreifingu þess. Prentútgáfan er fáanleg án endurgjalds í afgreiðslu Náttúrufræðistofnunar Íslands að Urriðaholtsstræti 6-8, svo og í þjónustuveri Garðabæjar og bókasafninu á Garðatorgi. Ennfremur liggur kortið frammi í golfskála Odds á Urriðavelli.

Kortið í símann

Fyrir þá sem kjósa frekar að hafa kortið í símanum býðst afar snjöll lausn í gegnum Avenza appið, sem er fáanlegt bæði fyrir Android og iPhone. Avenza er ókeypis app og í gegnum það er hægt að ná í útivistarkortið rafrænt – að sjálfsögðu án endurgjalds. Best er að finna kortið í kortaverslun Avenza með því að leita eftir heiti kortsins „Örnefni og útivist í upplandi Garðabæjar.“ Með kortinu í símanum sér notandinn hvar hann er staddur hverju sinni (blár depill sýnir stöðuna).

Hægt er að nálgast rafræna útgáfu gönguleiðakortsins með því að smella á hlekkinn neðst í fréttinni eða senda póst á jpg@urridaholt.is og óska eftir að fá það sent.

21.04.2020

Rannsóknir á blágrænum ofanvatnslausnum í Urriðaholti

Hópur vísindamanna frá Háskóla Íslands hefur undanfarin ár unnið að rannsóknarverkefni í Urriðaholti sem kallast „sjálfbær regnvatnsstjórnun í köldu loftlsagi.“ Rannsóknin snýr að sjálfbærum ofanvatnslausnum í Urriðaholti, oft líka kallaðar blágrænar ofanvatnslausnir. Verkefnið hlaut 3 ára styrk frá Rannís árið 2018 og lýkur því á þessu ári.

Stór hluti Urriðaholts er innan vatnasviðs Urriðavatns. Hefðbundnar fráveitulausnir safna ofanvatni frá byggð í fráveitukerfi og beina því þannig almennt til sjávar. Væri slíkum lausnum beitt í Urriðaholti er hætt við að náttúrulegt rennsli til Urriðavatns myndi minnka, með neikvæðum afleiðingum fyrir grunnt vatnið og lífríki þess. Með blágrænum ofanvatnslausnum er stuðlað að því að vatnið skili sér þess í stað niður í jörðina til að viðhalda lífríki Urriðavatns.

Hvernig virka ofanvatnslausnir í köldu loftslagi?

Markmið rannsóknarinnar er að skilja betur snjóbráð og ísig vatns þar sem tíð frost og þýða eru viðvarandi. Niðurstöður munu gegna lykilhlutverki við að tryggja farsæla hönnun og rekstur ofanvatnskerfa í þéttbýli í köldu loftslagi.

Dr. Hrund Ó. Andradóttir, prófessor í umhverfisverkfræði við HÍ er verkefnisstjóri rannsóknarinnar og Tarek Zaqout doktorsnemi í umhverfisverkfræði stýrir vettvangsrannsóknunum í Urriðaholti.

Doktorsneminn Tarek Zaqout við ofanvatnsmælingar í Urriðaholti.

Að sögn Tarek lýkur vettvangsvinnu í Urriðaholti í maí. Þrjár vísindagreinar verða gefnar út um rannsóknina og verður þeirri fyrstu lokið í sumar.

Jákvæðar vísbendingar

„Við höfum aðallega verið að skoða hvernig ofanvatnskerfið virkar að vetrarlagi, hvernig rennslið verður þegar frost er í jörðu, hvort það verða flóð, hvert vatnið af götunum rennur, hvað skilar sér niður í grunnvatnið og þar fram eftir götunum,“ segir Tarik.

„Minna ísig mældist í gróðurrásum að vetrarlagi vegna frostmyndunar. Hins vegar voru rásirnar ekki nálægt því að yfirfyllast og þannig virðast þær hafa gegnt sínu hlutverki við að beina umframvatni úr hverfinu niður í grunnvatn.“

Í vettvangsrannsóknunum hafa verið gerðar mánaðarlegar ísigstilraunir, sem meta getu jarðvegs til að taka við vatni og miðla í grunnvatn. Streymi að Urriðavatni er mælt, gerviflóð mæld í gróðurrásum og mælingar farið fram á snjóþykkt, eðlisþyngd, leiðni, svo og hita- og rakastigi.

Rannsóknarmiðstöðin í Urriðaholti

Garðabær, Urriðaholt ehf., Veðurstofa Íslands og Háskóli Íslands undirrituðu samstarfssamning um uppbyggingu rannsóknarmiðstöðvar á sviði blágrænna regnvatnslausna í Urriðaholti í Garðabæ í maí 2018. Í lok þess árs tók sérstök veðurstöð til starfa í Urriðaholti í þessu skyni. Rannsóknarverkefni HÍ er það fyrsta sem fram fer í þessu skyni og er Urriðaholti ætlað að vera rannsóknarvettvangur fyrir vísindalegar rannsóknir á blágrænum regnvatnslausnum. Niðurstöðum úr þessari vinnu verður miðlað jafnt innan- og utanlands.

Rannsóknarteymið

Eins og getið var um hér á undan hafa þau Hrund Ó. Andradóttir og Tarek Zaqout leitt rannsóknarverkefnið. Auk þeirra hafa eftirtaldir einstaklingar unnið að því:

 • Dr. Johanna Sörensen, póst-doc HÍ/Lund
 • Anna Rut Arnardóttir, MS. Ritgerð hennar fjallar um veður- og yfirborðsaðstæður sem valda flóði í þéttbýli og má nálgast á skemmunni.
 • Bjarni Halldórsson, MS nemi.
 • Vilhjálmur Sigurjónsson, tæknistjóri VoN
 • Ólafur Arnalds, prófessor í LBHÍ

Þá hafa 16 nemendur áhugasamir á umhverfismálum hafa fengið þjálfun í hvernig rannsóknaaðferðum er beitt í þessum rannsóknum. Þannig fengu þeir innsýn í hvernig rannsóknir fara fram á vettvangi, að hversu mörgu þarf að huga og hvernig oft getur verið erfitt að hrinda einfaldri hugmynd í framkvæmd utandyra.

Hluti af rannsóknarhópnum að störfum við snjómælingar í Urriðaholti.

03.02.2020

Bygging að rísa við Urriðaholtsstræti 2-4

Framkvæmdir við nýtt hús að Urriðaholtsstræti 2-4 eru að hefjast. Um er að ræða 2.500 fermetra skrifstofu- og þjónustuhúsnæði á 3-4 hæðum. Á jarðhæð er gert ráð fyrir verslun og þjónustu sem m.a. muni nýtast íbúum í Urriðaholti. Á efri hæðum verða skrifstofur. Byggingin er staðsett í aðkomu hverfisins á mótum Holtsvegar og Urriðaholtsstrætis og er því mikil áhersla lögð á vandaða hönnun hennar og allan frágang lóðar. Listaverkið Táknatréð stóð á lóðinni en hefur nú verið flutt í geymslu tímabundið þar til því verður fundinn annar staður í Urriðaholti.

Urriðaholt ehf. stendur að byggingu hússins og er gert er ráð fyrir að það verði tilbúið sumarið 2021.

22.01.2020

Betri upplýsingar fyrir íbúa í Urriðaholti

Á vefsíðu Urriðaholts ehf hefur verið sett upp síða með fjölbreyttum upplýsingum fyrir íbúa hverfisins. Lengst af hefur vefsíðan verið með almennan fróðleik um skipulag og framkvæmdir í hverfinu. En með vaxandi íbúafjölda hefur þörfin aukist fyrir upplýsingar sem varða þá í daglegu lífi.

Yfirbragð síðunnar er „spurt og svarað“ og í bland er svo ýmis annar gagnlegur fróðleikur. Leitast er við að svara algengum spurningum en listinn er engan veginn tæmandi. Íbúum er velkomið að senda Urriðaholti ehf nýjar spurningar, eða biðja um nánari skýringar við svörum sem þegar hafa verið gefin. Þessi síða verður því nokkuð breytileg og munum við vekja athygli á því þegar nýjar upplýsingar hafa bæst við.

Á síðunni er m.a. fjallað um vetrarsöltun gatna, hámarkshraða, hvers vegna engin biðskyldumerki er að finna í hverfinu, gönguleiðir út í náttúruna, sorpflokkun, fjúkandi rusl og 5-víra dreifikerfi rafmagns.

Hér er síðuna að finna.

21.01.2020

Tillaga að deiliskipulagi norðurhluta 4 (áður austurhluti 2 og viðskiptastræti)

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti þann 19. desember 2019 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir norðurhluta 4 í Urriðaholti. Íbúum Urriðaholts og öðrum hagsmunaaðilum gefst nú tækifæri til að gera formlegar athugasemdir við tillöguna og skal skila þeim inn á bæjarskrifstofur Garðbæjar fyrir 5. mars 2020. Öllum innsendum athugasemdum verður svarað.

Tillagan var forkynnt vorið 2019 og var haldinn sérstakur kynningarfundur þann 7. maí. Tvær ábendingar bárust um tillögudrögin, annarsvegar um hæð atvinnuhúsnæðis og hinsvegar um vernd trjágróðurs innan svæðisins. Brugðist var við ábendingum með því að lækka hæð atvinnuhúsnæðis við Urriðaholtsstræti 9 um eina hæð og láta vinna gróðurgreiningu þar sem áhrif skipulagsins á skógrækt á svæðinu er metin. Dregið var úr því svæði sem fer undir byggð og stærra skógarsvæði haldið óröskuðu. Gróðurgreiningin er fylgiskjal með deiliskipulagstillögunni. 

Tillöguna og ýmis fylgigögn hennar er að finna undir "Ítarefni" á vefsíðu Urriðaholts með eftirfarandi PDF skrár. Fyrir neðan myndina í þessari frétt eru einnig beinar slóðir á hvert og eitt skjal.

Greinargerð
Greinargerð deiliskipulagstillögunnar, þar sem m.a. koma fram upplýsingar um forsendur og ferli skipulagsins, greiningarvinnu, stefnumörkun og skipulagsskilmála. Með greinagerðinni fylgja uppdrættir og snið.

Gróðurgreining
Fylgiskjal með deiliskipulaginu sem segir sögu trjáræktar á svæðinu og metur áhrif skipulagsins á trjágróður á svæðinu fyrir og eftir framkvæmdir. Jafnframt eru þar gerðar tillögur hvernig nýta megi skóginn sem útivistarsvæði fyrir íbúa í Urriðaholti.

Yfirlitsuppdráttur
Uppdráttur sem sýnir norðurhluta 4 í samhengi við heildarskipulag Urriðaholts

Deiliskipulagsuppdráttur
Uppdráttur sem sýnir afmörkun einstakra byggingareita o.fl.

Skýringauppdráttur
Uppdráttur sem sýnir meginlínur skipulagsins, götur, hús, bílastæði, hæðalínur o.fl.

Skýringaruppdráttur – snið
Uppdráttur sem sýnir snið og hæðarsetningar einstakra bygginga í landi m.v. valin snið sem framkoma á skýringaruppdrætti.

28.06.2019

Bílaþvottur í Urriðaholti skaðar vatnið

Í tilefni af umræðum og fyrirspurnum þá er rétt að benda á að sérstakar reglur gilda um bílaþvott í Urriðaholti. Tilgangur þeirra er að vernda umhverfið og lífríki vatnsins. Ofanvatni er veitt niður í jarðveginn í Urriðaholti og áfangastaður vatnsins er Urriðavatn, þess vegna er þvottur á bílaplönum íbúa sérstaklega skaðlegur umhverfinu.

Íbúar eru hvattir til að kynna sér reglurnar og leggjast á eitt um að tryggja viðhald lífríkis Urriðavatns.

14.06.2019

Flogið yfir Urriðaholt - myndband

Einar Þór Einarsson íbúi í Urriðaholti hóf myndatökudróna á loft í byrjun júní til að varpa ljósi á þá miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað í Urriðaholti. En ekki síður til að skoða svæðin sem eru sem óðast að bætast við. Við kunnum Einari Þór bestu þakkir fyrir að leyfa okkur að deila þessari skemmtilegu flugferð. Smellið á ferninginn í hægra horni niðri til að sjá myndina í fullri skjástærð.

06.05.2019

Forkynning á deiliskipulagstillögu fyrir austurhluta 2 og viðskiptastræti

Forkynning á deiliskipulagstillögu fyrir austurhluta 2 og viðskiptastræti í Urriðaholti stendur til 31. maí 2019. Tillöguna og fylgigögn hennar er að finna hér að neðan. Þeir sem telja sig hafa hagsmuna að gæta er gefinn kostur á því að koma með ábendingar sem verða teknar til umfjöllunar við endanlega mótun tillögunnar. Skal þeim skilað í þjónustuver Garðabæjar eða senda með tölvupósti á skipulag@gardabaer.is fyrir 31. maí 2019.

Almennur kynningarfundur

Almennur kynningarfundur um tillöguna var haldinn þriðjudaginn 7. maí í Urriðaholtsskóla. Auk kynningarinnar á deiliskipulagstillögunni var almenn kynning á áherslum hverfisins.

Um 35 manns voru á fundinum, en af þeim voru um 25 gestir úr hverfinu, hitt voru starfsmenn Urriðaholts/Garðabæjar. 

Eftir kynningu á nýja deiliskipulaginu fyrir Urriðaholtsstræti voru tvær almennar kynningar fyrir hverfið, annars vegar um gæði umhverfis og skjólveggi, og hins vegar um græn svæði og leiksvæði í hverfinu. Því miður eru dæmi um það í hverfinu að skjólveggir hafi verið reistir í hverfinu sem hafa ekki verið hannaðir í samræmi við húsin, eru of háir og í ósamræmi við deiliskipulagsskilmála. Fundargestir tóku undir áhyggjur skipulagshönnuða vegna þessa og beindu því til Garðabæjar að setja sig í samband við þá sem ekki eru að fara eftir þeim reglum sem gilda. Slæmar útfærslur hafa neikvæð áhrif á gæði umhverfisins fyrir alla.

Þráinn Hauksson hélt erindi um grænu svæðin í hverfinu og hvernig uppbyggingu þeirra verður háttað. Góðir göngustígar munu liggja um allt hverfið og umhverfis það og tengja það stígum milli fjalls og fjöru. Stutt er í Heiðmörkina og að gönguleið um Urriðavatn, en þar er nýkomin trébrú yfir blautt svæði sem áður var ófært. Verið er að hanna leiksvæði við Lynggötu og styttist í framkvæmdir. 

Erindi tóku um 30 mínútur og eftir það gafst góður tími til fyrirspurna í 30 mínútur. Á fundinum voru góðar umræður. Íbúar lýstu yfir ánægju sinni með að búa í hverfinu og komu með margar gagnlegar ábendingar um þætti sem betur mega fara. Dæmi: Umferð er of hröð, vantar leiðbeiningar til íbúa um hverfið, óskað eftir gámum fyrir lífrænan úrgang, óskað eftir strætó í hverfið og ábendingar komu um staðbundnar útfærslur á stígum og nýjum tengingum svo eitthvað sé nefnt. 

Gunnar Einarsson lokaði fundinum og óskaði íbúum til hamingju með gott hverfi þar sem vandað hefði verið til verka. Um leið þakkaði hann þeim fyrir þolinmæðina því óhjákvæmilega verða íbúar fyrir ónæði á meðan hverfið er í uppbyggingu. Fundurinn var sendur út á facebook síðu Garðabæjar. 

27.03.2019

Fyrsta Svansvottaða fjölbýlishúsið á Íslandi er í Urriðaholti

Urriðaholtsstræti 10-12 er fyrsta fjölbýlishúsið sem fær Svansvottun Umhverfisstofnunar hér á landi. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhenti viðurkenningarskjal þess efnis föstudaginn 22. mars. Eigendur hússins, bræðurnir Jón Pálmason og Sigurður Gísli Pálmason, tóku við viðurkenningunni úr hendi umhverfisráðherra.

Vistvænar áherslur hafa verið leiðarstefið í uppbyggingu Urriðaholts frá fyrsta degi.

Það á því vel við að fyrsta Svansvottaða fjölbýlishúsið skuli rísa þar. Urriðaholt er fyrsta og eina hverfið á Íslandi til að fá vistvottun skipulags (BREEAM Communities) og fyrsta Svansvottaða einbýlishúsið hér á landi er einnig í Urriðaholti, en það fékk Svansvottun í lok árs 2017.

Guðmundur Ingi og Sigurður Gísli skoða eina af smáíbúðunum ásamt Áslaugu Huldur Jónsdóttur bæjarfulltrúa.

Jón Pálmi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Urriðaholts ehf. hefur stýrt verkefninu og leitt bygginguna að Urriðaholtsstræti 10-12.  Um er að ræða smáíbúðahús með 34 íbúðum á stærðarbilinu 25-65 fermetrar. Helmingur íbúðanna er leigður til starfsmanna Ikea í Kauptúni og hinar eru á almennum leigumarkaði.

Jón Pálmi segir að það sé engin tilviljun að fyrsta Svansvottaða fjölbýlishúsið á Íslandi hafi risið í Urriðaholti í ljósi þeirrar ríku áherslu sem lögð hefur verið frá fyrsta degi á umhverfis- og samfélagsmál í hverfinu. Hann segir að liður í því sé að afla formlegra viðurkenninga á því sem verið er að gera í hverfinu. Hús Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem er við hliðina á Urriðaholtsstræti 10-12 var fyrst til að hljóta svokallaða Breeam umhverfisvottun hér á landi. Allir skipulagsáfangar í Urriðaholti hafa fengið vistvottun Breeam Communities, sem er alþjóðlegt vistvottunarkerfi.

Eigendur smáíbúðahússins að Urriðaholtsstræti 10-12, þeir Jón Pálmason og Sigurður Gísli Pálmason, tóku við viðurkenningarskjalinu um Svansvottun hússins úr hendi Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra.

En hvað felst í því að fá vottun norræna umhverfismerkisins Svansins fyrir fjölbýlishús? Hjá Umhverfisstofnun kemur fram að Svansmerkið byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferilsins. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum.  Viðmið Svansins fyrir nýbyggingar taka til margra ólíkra þátta sem eiga að stuðla að betri gæðum fyrir umhverfi og heilsu þeirra sem nota bygginguna. Það eru því strangar kröfur varðandi efnanotkun, val á byggingarefni og innivist. Til að uppfylla kröfurnar þarf að ná lámarksfjölda stiga og var stigum náð m.a. með því að við hönnun hússins að Urriðaholtsstræti var áhersla lögð á að stuðla að betri hljóðvist og þar af leiðandi að betri innivist fyrir íbúa. Tekin voru skref til að minnka þörfina fyrir steypu, en framleiðsla sements hefur mikil umhverfisáhrif í för með sér. Einnig voru notaðar vistvænar lausnir fyrir íbúa, þar má nefna handbók fyrir húsið þar sem vistvænum áherslum í rekstri byggingarinnar er komið á framfæri við íbúa hússins og þeir hvattir til þess að taka þátt. Áhersla var lögð á vistvænar samgöngur og settur upp viðgerðarstandur fyrir hjólreiðafólk og verða hleðslustöðvar fyrir rafbíla á bílastæði.

Jón Pálmi segir að ferlið til að fá Svansvottunina hafi verið langt og lærdómsríkt. ,,Við þurftum að gæta að í hverju skrefi með aðferðir og efnisval og ósjaldan heyrði maður tautað hér og þar að verið væri að gera hlutina öðruvísi en hefðbundið er.”

Nokkrir gestanna við athöfnina.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar afhenti umhverfisráðherra sögu Garðabæjar við þetta tilefni.

Jón Pálmi segir ennfremur að strax og þetta verkefni hafi kom til tals þá hafi verið ákveðið að húsið yrði Svansvottað til samræmis við áherslur í hverfinu.  „Það er mikil metnaður af hálfu eigenda Urriðaholts ehf. að standa vel að allri uppbyggingu í hverfinu og þetta var gott tækifæri til að fylgja því eftir.“

Aðspurður um aukakostnað segir Jón Pálmi að hann sé einungis örfá prósent af byggingakostnaði, en óneitanlega fylgi lærdómsferlinu alltaf einhver óbeinn kostnaður. Hann bætir því við að um sé að ræða mjög vandað húsnæði á góðum stað þar sem fólki mun líða vel. Vissulega megi finna ódýrara húsnæði annarstaðar, en það sé í fæstum tilfellum sambærilegt.

Við afhendingu Svansvottunarinnar kom fram í máli Gunnars Einarssonar bæjarstjóra að Garðabær hafi stutt byggingu smáíbúðahússins með ráðum og dáð frá fyrsta degi. Sveitarfélagið réðst í nauðsynlegar breytingar á skipulagsskilmálum til að heimilt yrði að byggja jafn litlar íbúðir og hér um ræðir. Hvergi var þó slakað á kröfum byggingareglugerðar t.d. varðandi salerni og eldunaraðstöðu. Gunnar sagði að bærinn liti til þess að áherslur í umhverfis- og skipulagsmálum gætu orðið fordæmi fyrir komandi verkefni í Garðabæ.

Gunnar bætti því við að mikill metnaður hafi verið lagður í bygginguna og í raun allt Urriðaholtshverfið með tilliti til umhverfisgæða. Hann sagði að það kæmi vel til greina að setja skilyrði í nýjum hverfum í Garðabæ að skipulag og byggingar væru vottuð. Gunnar sagði einnig að Urriðaholt ehf og IKEA hafi í gegnum tíðina sýnt mikla samfélagslega ábyrgð með margvíslegum stuðningi við samfélagið Garðabæ. ,,Í því samhengi er vert að nefna að IKEA greiddi laun kennsluráðgjafa í hönnun í nokkur ár og að vel er tekið í að aðstoða við móttöku flóttamanna bæði hvað varðar húsnæði og vinnu,” sagði Gunnar við afhendingu Svansvottunarinnar.

11.09.2018

Ábendingar varðandi skjólveggi og girðingar í Urriðaholti

Að gefnu tilefni vilja Garðabær og Urriðaholt ehf. ítreka ákvæði deiliskipulags um skjólveggi og girðingar í Urriðaholti og skýra þau sjónarmið sem þar liggja að baki. Nokkur dæmi hafa komið fram þar sem útfærsla er ekki í samræmi við deiliskipulag.

Um framkvæmdina

Vakin er athygli á að skjólveggir og girðingar skulu koma fram á aðaluppdráttum sem skilað hefur verið inn til byggingarfulltrúa, áður en hafist er handa við framkvæmdir.  Þegar byggingarverktaki skilar húsum af sér skulu girðingar og skjólveggir vera skv. teikningum og er tilhögun þeirra staðfest í lokaúttekt byggingarfulltrúa. Ef íbúðareigendur/húsfélög reisa girðingu eða skjólveggi eftir þann tíma, sem ekki eru í samræmi við aðaluppdrætti þá þarf að sækja um leyfi fyrir því til Garðabæjar og leggja inn nýja aðaluppdrætti ásamt samþykki nágranna eftir því sem við á. Gott er að leita ráðgjafar hjá byggingaryfirvöldum strax við undirbúning framkvæmda. Við hvetjum fólk til að ráðfæra sig við hönnuð  hússins og/eða skipulagshönnuði um mögulegar útfærslur til að skapa jákvæða lausn fyrir íbúa og umhverfið. Samspil við gróður, uppbrot veggja og efnisáferðir, heildaútlit húsa og litir eru mikilvægir þættir í heildar ásýnd hverfisins. Starfsmenn Garðabæjar geta veitt upplýsingar um hverjir hönnuðir húsa eru.

Við bendum ennfremur á að gefnir hafa verið út tveir Staðarvísar fyrir Urriðaholt sem eru leiðarljós í umhverfishönnun og eiga að nýtast bæði bæjarvöldum með frágang opinna svæða og lóðarhöfum um frágang lóða. Gögnin eru aðgengileg á heimasíðu Urriðaholts undir ítarefni. Hvetjum við alla til að kynna sér það sem þar kemur fram. 

Helstu ákvæði og reglur varðandi gerð skjólveggja í Urriðaholti.

Hvers vegna eru sérstök ákvæði um skjólveggi og girðingar?

Alveg frá upphafi skipulagsvinnu í Urriðaholti hefur verið lögð áhersla á að skapa þar aðlaðandi götumynd og öruggt umhverfi í þeim tilgangi að stuðla að betri upplifun og vellíðan fólks í hverfinu. Þessar forsendur voru fyrst mótaðar í almennum orðum í rammaskipulaginu, m.a. í umfjöllun um staðaranda „placemaking“ og einkenni byggðar (sjá heimasíðu Urriðaholts, Rammaskipulag bls. 20-25) og hafa svo verið útfærðar nánar í deiliskipulagi. Þessi stefna helst svo í hendur við aðrar áherslur í hverfinu m.a. um uppbrot bygginga, dreifingu umferðar og að göturými eru umfangsminni og betur umlykjandi en almennt tíðkast.

Öll þekkjum við dæmi þar sem lóðir eru girtar af með litlum metnaði og neikvæðum áhrifum fyrir þá sem næst búa og þá sem eiga leið um.

Á þessari skýringarmynd má sjá hvernig skjólveggir geta haft neikvæð áhrif á ásýnd og búið til óáhugavert umhverfi.

Til að ýta undir aðlaðandi umhverfi og stuðla að öryggi vegfarenda ættu framhliðar húsa (ekki þó gluggalausir veggir, girðingar, skjólveggir eða bakhliðar bílskúra) að vera sýnilegar frá stærstum hluta götunnar fremur en faldar á bak við háar girðingar.

Með opnum svæðum með góðum sjónlínum tryggjum við öruggari svæði með gagnkvæmu aðhaldi og eftirliti. Á þessari mynd er m.a. bent á þá þætti sem skipta máli þegar kemur að öryggi vegfarenda.

27.08.2018

Allt að gerast í Urriðaholti

Hin árlega loftmyndataka af uppbyggingu Urriðaholts fór fram fyrir skömmu. Framkvæmdir eiga sér stað víða í hverfinu eins og sjá má af myndunum og jarðvegsframkvæmdir eru hafnar við næsta áfanga í uppbyggingu sem er austan við Urriðaholtsskóla. Tillaga að deiliskipulagi austurhluta var auglýst fyrr á þessu ári og má sjá hana undir „Ítarefni“ hér á síðunni.

Fyrstu grunnskólabörnin byrjuð í Urriðaholtsskóla

Svo sannarlega má segja að mörg fyrstu skref séu stigin í Urriðaholti þessa dagana.  Fyrsta skólasetning grunnskólabarna var í Urriðaholtsskóla 22. ágúst. Veðrið lék við börn og foreldra þegar þau mættu í skólann.  Það er ekki á hverjum degi að nýr grunnskóli tekur til starfa og á heimasíðu hans segir að spennan hafi verið mikil, bæði hjá nemendur og starfsfólki. Á heimasíðu Urriðaholtsskóla kemur einnig fram að vel hafi gengið að manna allar stöður.

Þorgerður Anna Arnardóttir skólastjóri upplýsir að í vetur er grunnskólastarf fyrir börn í 1.-4. bekk og er 21 grunnskólabarn innritað. Samkennsla er á milli árganga. Fyrsti og annar bekkur vinna saman og 3.og 4. bekkur. Mikil teymisvinna er á milli starfsmanna og í upphafi skólaárs er farið yfir stöðu hvers og eins og í framhaldi fá allir markmið til að vinna eftir inn í veturinn.

Allir dagar grunnskólabarna hefjast á hreystikennslu og í framhaldi tekur við íslenskukennsla. Þorgerður Anna segir að hópurinn aðlagist vel nýjum aðstæðum. Þá er vert að geta þess að yfir 70 leikskólabörn eru komin í leikskólann. Aðlögun yngstu barna er í fullum gangi og þegar líður á veturinn mun fjölga í þeim hópi. Hópastarf leikskólabarna er að falla í fastar skorður, jógakennsla er fyrir öll yngstu börnin og njóta þau hennar til hins ítrasta. Þá eru allir virkir í að nota útisvæðið við leik og störf.

13.05.2018

Veðurmælingastöð rís í Urriðaholti

Stór stund rann upp í Urriðaholtsskóla 11. maí sl. þegar Urriðaholt ehf, Garðabær, Veðurstofa Íslands og Háskóli Íslands undirrituðu samstarf um uppbyggingu veðurmælingastöðvar og rannsóknarmiðstöðvar á sviði sjálfbærra (blágrænna) regnvatnslausna. Ólafur Helgi Ólafsson, stjórnarformaður Urriðaholts ehf undirritaði samninginn fyrir hönd þess, Gunnar Einarsson bæjarstjóri fyrir hönd Garðabæjar, Jón Atli Benediktsson rektor fyrir hönd Háskóla Íslands og Árni Snorrason forstjóri fyrir hönd Veðurstofu Íslands. 

Fullkomin veðurmælingastöð verður reist í Urriðaholti, sunnanmegin í holtinu á opnu svæði vestan við Kauptún. Stöðin og búnaður henni tengdri skapar einstakt tækifæri til rannsókna og tilrauna á landsvísu. Þar verða m.a. sérhæfð og afar nákvæm tæki til mælinga vegna sjálfbærra regnvatnslausna, svo og úrkomu á einnar mínútu fresti, í fyrsta sinn á Íslandi.  

Sjálfbærum regnvatnslausnunum er beitt í Urriðaholti til að draga úr álagi á fráveitukerfi og viðhalda um leið heilbrigðum og sjálfbærum vatnsbúskap Urriðavatns. Til að koma í veg fyrir að vatnasvæði þess raskist vegna byggðarinnar er allt ofanvatn af þökum, götum og görðum (regn og snjór) látið renna niður í jarðveginn til að líkja eftir ferlum náttúrunnar. Þannig sígur vatnið í jörðu og berst til Urriðavatns og votlendisins.

Veðurmælingastöðin verður hluti af rannsóknarmiðstöð sem Háskóli Íslands heldur utan um. Ávinningurinn af uppbyggingu rannsóknarmiðstöðvarinnar felst meðal annars í þeim vísindalegu rannsóknum sem hægt verður að gera á virkni sjálfbærra regnvatnslausna. Tækifæri skapast einnig til langtímavöktunar á veðurfari sem innifelur þætti sem skipta sköpum í fráveituhönnun, t.d. regn, hiti, sólarorka og snjóalög. Þá gefur veðurmælingastöðin möguleika á miðlun veðurfarsgagna til rannsakenda sem áhuga hafa á nákvæmum veðurfarsgögnum af höfuðborgarsvæðinu.

Til að tryggja farsæla uppbyggingu blágrænna regnvatnslausna á Íslandi er þörf á meiri eftirfylgni og vöktun á veðurfari í íslensku þéttbýli samhliða því að byggja upp reynslu og þverfræðilega þekkingu á þessu sviði. Rannsóknarmiðstöðin í Urriðaholti er því mikilvægur vettvangur í því samhengi.

Samhliða þessum samningi var undirritaður þjónustusamningur milli Garðabæjar og Veðurstofu Íslands um rekstur á sjálfvirku veðurstöðinni. 

Hvers vegna í Urriðaholti?

Urriðaholt er fyrsta BREEAM umhverfisvottaða hverfið á Íslandi og fyrsta hverfið þar sem sjálfbærar (blágrænar) regnvatnslausnir voru innleiddar sem aðallausn á ofanvatni til verndar Urriðavatni. Það er einnig fyrsta hverfið á heimsvísu þar sem slíkar regnvatnslausnir hafa verið innleiddar á jafn norðlægri breiddargráðu og í jafn miklum landhalla. Hverfið þykir eftirbreytnivert alþjóðlegt dæmi um farsæla innleiðingu þeirra og hefur þegar vakið athygli vegna þessa. Því þótti kjörið að nýta Urriðaholtið sem rannsóknarvettvang fyrir vísindalegar rannsóknir á blágrænum regnvatnslausnum, og miðla niðurstöðum úr þeirri vinnu jafnt innan- sem utanlands.

10.04.2018

Urriðaholt og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Skipulag Urriðaholts hefur verið valið sem fordæmi um hvernig innleiða má heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbær samfélög. Er það í samræmi við áherslur alþjóðasamtakana um að sýna góð dæmi sem geta vísað veginn um hvernig vinna má að sjálfbærari þróun í heiminum. Dæmum sem þykja hæf til leiðsagnar er síðan safnað á heimasíðu  „One planet“ www.oneplanetnetwork.org. Í þessum  alþjóðlega upplýsingagrunni er nú að finna ítarlega lýsingu á hugmyndafræði skipulagsins í Urriðaholti og hvernig unnið hefur verið að því að ná þeim. Sjá hér.

Önnur íslensk verkefni sem er að finna á þessum vettvangi er Biophilia sem er tónlistarkennsluverkefni Bjarkar Guðmundsdóttur, flokkunarátak sorphirðu í Reykjavík, Norðursigling á Húsavík og Auðlindatorgið sem er á vegum Umhverfisstofnunar.

Árið 2015 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sjálfbær þróunarmarkmið til ársins 2030 og eru upplýsingarnar um einstök verkefni á vefsvæði One planet  þáttur í því að greiða leiða þeirra markmiða.

Markmiðin sem eru sautján að tölu ber ríkjum heims að ná fyrir árið 2030. Ellefta markmiðið um sjálfbæra þróun er að gera íbúðasvæði öllum mönnum auðnotuð, örugg, viðnámsþolin og sjálfbær.

Í skráningunni fyrir Urriðaholt er farið ítarlega í forsögu skipulagsins, aðstæðum lýst og aðgerðum til að stuðla að sjálfbærni hverfisins.

Urriðaholtið byggir á afar góðum skipulagsgrunni, sem nú þegar hefur fengið nokkrar alþjóðlegar viðurkenningar.  Hverfið er vottað samkvæmt Breeam Communities staðlinum, sem staðfestir að Urriðaholtið er í fararbroddi á þessu sviði og gefur afar góðar leiðbeiningar um að hverju á að huga við skipulag vistvænnar byggðar. Jafnframt hefur Urriðaholt staðið að Svansvottun einstakra bygginga í hverfinu og verið í fararbroddi við innleiðingu sjálfbærra ofanvatnslausna á Íslandi.

06.04.2018

Fjölmennur fundur um deiliskipulag austurhluta Urriðaholts - myndir

Almennur kynningarfundur um deiliskipulagstillögu fyrsta áfanga austurhluta Urriðaholts var haldinn þriðjudaginn 3. apríl síðastliðinn í Urriðaholtsskóla. Tæplega eitt hundrað manns komu á fundinn til að hlýða á kynningu tillögunnar, spyrja spurninga og gera athugasemdir. Fjölmenni var úr hópi íbúa í Urriðaholti, sem notuðu tækifærið í leiðinni til að skoða skólann, en leikskólahluti hans tók til starfa þennan sama dag..

Deiliskipulagið sem var til kynningar nær til 21,5 hektara svæðis í austurhluta Urriðaholts. Þar er gert ráð fyrir íbúðahverfi fyrir u.þ.b. 495 íbúðir í fjölbýli (2-5 hæðir), rað-, par- og einbýlishúsum (1-2 hæðir). Íbúðirnar eru af mismunandi stærð og geta hentað fyrir alla aldurshópa. Á skipulagssvæðinu er gert ráð fyrir almenningsgarði með íþróttaaðstöðu.

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá fundinum.

12.01.2018

Styttist í að Urriðaholtsskóli taki til starfa

Skólastjórinn fyrir framan Urriðaholtsskóla í byrjun janúar, verið að vinna utan- og innanhúss í leikskólaálmunni sem áformað er að taki til starfa í mars.

Þorgerður Anna Arnardóttir, nýráðin skólastjóri Urriðaholtsskóla, segir að stefnt sé að því að hefja leikskólastarfið í mars næstkomandi. Næsta haust er svo ráðgert skólastarf 1. til 4. bekkja. Skólastarf fyrir eldri bekki mun svo vaxa í framhaldinu.

„Skólastarfið verður fyrst um sinn í leikskólaálmunni, sem er 1.000 fermetrar og núna er verið að ganga frá öllu innanhúss í þeirri álmu. Við gerum ráð fyrir að alls verði 80-100 börn í skólanum næsta haust og við verðum því í litlu samfélagi til að byrja með. Útisvæði fyrir bæði leik- og grunnskólabörn er þegar tilbúið, en við sjáum svo til þegar nær dregur hvenær nákvæmlega verður hægt að fara að taka á móti börnunum í leikskólann,“ segir Þorgerður Anna.

Íbúafundur 17. janúar

Hægt verður að ræða um skólastarfið og önnur málefni Urriðaholts á íbúafundi sem verður 17. janúar næstkomandi kl. 17.30 í sal Toyota í Kauptúni. Bæjarstjóri ásamt sviðsstjórum frá Garðabæ verða þar til að veita upplýsingar og svara spurningum og mun Þorgerður Anna einnig sitja þennan fund.

Skólabókin stjórnar ekki lengur

Um starfshætti Urriðaholtsskóla segir hún að samkennsla verði ríkjandi. „Við verðum ekki með hefðbundna bekki. Kennsluhættir eru að breytast sem betur fer, skólabókin er hætt að vera þetta stýrandi afl. Markmið aðalnámskrár mun ráða för og staða hvers barns. Það þurfa ekki allir að vera á sama stað á sama tíma í náminu og þannig verður það allan skólann upp í 10. bekk.“

Uppbyggingarstefna

Þorgerður Anna er Garðbæingur og hóf kennaraferil sinn í Hofsstaðaskóla og tók síðan við stjórn skóla Hjallastefnunnar við Vífilsstaði. Undanfarið hefur hún verið aðstoðarskólastjóri Grunnskóla  Seltjarnarness. „Þar er starfað eftir uppbyggingarstefnunni uppeldi til ábyrgðar, það er margt líkt með henni og Hjallastefnunni og ég mun nýta mér þessa reynslu í Urriðaholtsskóla. Þessar stefnur snúast meðal annars um að efla sjálfstrú barnanna, gera þau ábyrg fyrir eigin hegðun, kenna þeim virðingu, samlíðan, efla áræðni þeirra og færni í að takast á við hið óþekkta og fjölbreyttar áskoranir.“

Metnaðarfullt skólasamfélag

Þorgerður Anna segir engan vafa leika á því að Garðabær sé, að öðrum ólöstuðum, það sveitarfélag sem stendur best að skólamálum. „Ég þekki þetta jafnt sem foreldri barna í grunnskólum Garðabæjar og kennari og skólastjórnandi. Það er engin vafi að ákvörðun bæjarins um frjálst val um skóla ýtti við fólki og hefur skilað sér í virkilega góðu fagstarfi. Foreldrar velja þann skóla sem þeir telja henta sínum börnum og fyrir vikið er skólasamfélagið á tánum og meðvitað um fyrir hvað það stendur. Skólarnir í bænum eru ólíkir og fara ólíkar leiðir en á hverjum stað er öflugur hópur fagfólks sem skilar frábærum árangri. Garðabær er mér vitanlega líka eina bæjarfélagið sem raunverulega stendur við þá stefnu að skólinn taki við þegar fæðingarorlofi sleppir því að hér eru börn eru tekin inn í leikskóla eins árs.“

Íþróttir og útikennsla

Íþróttaaðstaða er enn ekki fyrir hendi við Urriðaholtsskóla, „en við leysum það með öðrum hætti til að byrja með,“ segir Þorgerður Anna. „Aftur á móti er gert ráð fyrir möguleikum til útikennslu, bæði niðri við vatnið og meira að segja uppi á þaki skólans þegar byggingu hans verður lokið,“ segir hún. „Það eru forréttindi að vera með skólastarf í svona mikilli nálægð við náttúruna. Á Vífilsstöðum vorum við með útikennslu og það var algjör draumur. Ég sé einnig fyrir mér gott samstarf við Náttúrufræðistofnun Íslands hér í hverfinu.“

Þorgerður Anna Arnardóttir, nýráðin skólastjóri Urriðaholtsskóla, er Garðbæingur og hefur sinnt kennslu og skólastjórnun í grunnskólum og hjá Hjallastefnunni.

Uppbygging og starfsfólk

Að sögn Þorgerðar Önnu hefst innritun í grunnskólann í mars. „Urriðaholtið er í mikilli uppbyggingu og það má búast við að börn bætist í hópinn í hverjum mánuði. En svo eigum við líka eftir sjá hvernig verður með börn sem búa í hverfinu og eru byrjuð í öðrum grunnskólum Garðabæjar, hvort þau og foreldrar þeirra vilja sækja strax um að komast í Urriðaholtsskóla eða bíða kannski og sjá til. Í skólanum verður fullbúið móttökueldhús og er Garðabær með samning við Skólamat sem býður upp fjölbreyttan og hollan mat, mikið af fersku grænmeti og  í ávallt eru tveir réttir í boði í hádeginu.

En líkt og með alla aðra grunnskóla í Garðabæ, þá geta þeir sem ekki búa í Urriðaholti valið þennan skóla. Börnin í hverfinu hafa hins vegar forgang ef skólar fyllast. Ég geri ráð fyrir að við getum tekið við öllum sem sækja um leikskólavist.“

Að sögn Þorgerðar Önnu er verið að ráða starfsfólk um þessar mundir. Búið er að ráða Unu Guðrúnu Einarsdóttur sem aðstoðarskólastjóra yngri barna upp að miðstigi. Þá hafa borist yfir 20 umsóknir um störf við leikskólann og er þar jafnt um að ræða háskólamenntað fólk og ófaglært. Þar á meðal eru nokkrir sem búa í Urriðaholti.

14.11.2017

Fyrsta Svansvottaða húsið á Íslandi er í Urriðaholti

Einbýlishúsið að Brekkugötu 2 í Urriðaholti fékk þann 10. nóvember Svansvottun Umhverfisstofnunar. Þetta er fyrsta einbýlishúsið á Íslandi sem fær umhverfisvottun af þessu tagi.

Hjónin Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir og Finnur Sveinsson eru eigendur hússins og frumkvöðlar að byggingu þess. Þau veittu vottuninni viðtöku ásamt framkvæmda- og ráðgjafafyrirtækinu Mannverki sem hefur haft með höndum byggingarstjórn og ber ábyrgð á því að húsið uppfylli allar kröfur Svansins.

Markmið eigenda hússins og annarra sem að byggingunni koma var ekki síst að efla vitund um mikilvægi umhverfismála í byggingariðnaði á Íslandi. Staðsetning þess í Urriðaholti undirstrikar þessar áherslur, en Urriðaholt er fyrsta og eina hverfið á Íslandi til að fá vistvottun skipulags (BREEAM Communities).

Húsið er steypt, einangrað að utan með íslenskri steinull og klætt með álklæðningu og að hluta viðarklæðningu.

Ryður brautina fyrir byggingu fleiri vistvænna húsa

Finnur Sveinsson segir að fá upphafi hafi þau Þórdís Jóna mætt skilningi og veljvilja en umfram allt miklum áhuga á því að leita nýrri og umhverfisvænni leiða í íslenskum byggingariðnaði.

„Við lögðum á það áherslu að nýjungar í húsinu væru umtalsverðar og mikilvægar en þó ekki svo miklar að byggingariðnaðurinn treysti sér ekki til að stíga nauðsynleg skref við útfærsluna. Við erum ánægð með niðurstöðuna því okkur tókst að byggja umhverfisvottað hús án þess að það hefði einhvern aukakostnað í för með sér.  Vinnan var lærdómsrík fyrir alla og nú er svo komið að margir birgjar hafa byggt upp getu til bjóða vörur fyrir Svansvottuð hús. Fyrst við gátum byggt umhverfisvottað þá ætti það að vera leikur einn fyrir byggingarverktakana.“

Frá undirritun samkomulags um fyrsta umhverfisvottaða íbúðarhúsið á Íslandi í lok júlí 2016. Frá vinstri: Jón Pálmi Guðmundsson framkvæmdastjóri Urriðaholts ehf, Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir og Finnur Sveinsson.

Orkunotkun í lágmarki

Húsið að Brekkugötu 2 er 216 fermetrar á tveimur hæðum með innbyggðum bílskúr. Bygging þess hófst í september 2016 og hefur því aðeins staðið í rúmt ár. Í húsinu er meðal annars leitast við að halda orkunotkun í lágmarki og nota byggingarefni sem hefur ekki verið meðhöndlað með efnum sem eru flokkuð sem krabbameinsvaldandi,  valda stökkbreytingum eða hafa áhrif á frjósemi. Að lágmarki 70% hluti timburs sem notað er í húsinu kemur úr vottaðri skógrækt og allt timbur er rekjanlegt. Húsið er steypt og einangrað að utan með íslenskri steinull. Það er klætt með álklæðningu og að hluta viðarklæðningu.

Svansvottun sýnir umhverfislegan ávinning

Viðmið fyrir Svansvottaðar byggingar eru umfangsmikil og taka til margra ólíkra þátta sem eiga að stuðla að betri gæðum fyrir umhverfi og heilsu þeirra sem nota bygginguna. Það eru því strangar kröfur varðandi efnanotkun, val á byggingarefni og innivist. Á Norðurlöndunum hefur Svansvottun bygginga átt mikilli velgengni að fagna þar sem Svanurinn býður upp á skilvirkt vottunarkerfi sem sýnir fram á umhverfislegan ávinning. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum.

Urriðaholt er fyrsta vistvottaða hverfið á Íslandi

Skipulag Urriðaholts hefur hlotið staðfestingu frá vottunarsamtökunum Breeam Communities að Urriðaholt uppfylli skilyrði um framúrskarandi skipulag, sem unnið hefur verið frá grunni með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi.

Skipulag Urriðaholts er það fyrsta á Íslandi sem hlýtur þessa vistvottun. Breeam Communities er hluti af starfsemi Breeam umhverfisvottunarkerfisins, sem er eitt útbreiddasta vottunarkerfi heims fyrir visthæfi bygginga og byggðar.

25.08.2017

Flogið yfir Urriðaholt á góðviðrisdegi

Hér að neðan má sjá myndskeið af flugi yfir Urriðaholtið á góðvirðisdegi í júlí síðastliðnum. Ekki fer á milli mála að mikil uppbygging á sér stað í þessu nýjasta hverfi Garðabæjar, sem mun fullbyggt verða heimili allt að 5.000 íbúa og nokkurs fjölda fyrirtækja og stofnana.

 Alls  613 íbúðir eru annaðhvort tilbúnar eða í byggingu í hverfinu. Því til viðbótar hafa verið jarðvegsframkvæmdir fyrir 368 íbúðir sem margar hverjar er byrjað að reisa. Því verða tæplega eitt þúsund íbúðir tilbúnar eða á framkvæmdastigi í hverfinu á þessu ári.

Garðabær og Urriðaholt hafa ákveðið að hefja undirbúning að næstu áföngum í uppbyggingu íbúðabyggðarinnar. Stefnt er að því að skipulagstillögur þar um geti legið fyrir í árslok og næstu lóðir geti orðið byggingarhæfar sumarið 2018. Gert er ráð fyrir að í fullbyggðu Urriðaholti verði 1.650 íbúðir.

17.03.2017

Mikil uppbygging í Urriðaholti

Mikil hraði er í uppbyggingu íbúðabyggðar í Urriðaholti um þessar mundir. Alls  613 íbúðir eru annaðhvort tilbúnar eða í byggingu í hverfinu. Því til viðbótar er nú verið að ljúka jarðvegsframkvæmdum fyrir 368 íbúðir sem byrjað verður að reisa í sumar. Því verða tæplega eitt þúsund íbúðir tilbúnar eða á framkvæmdastigi í hverfinu á þessu ári.

Fyrstu íbúarnir fluttu í einbýlishús í Urriðaholti í apríl 2010 og í nóvember 2014 fluttu fyrstu íbúarnir í fjölbýli í hverfinu. Síðustu þrjú árin hefur mikil uppbygging átt sér stað og eiga nú vel á þriðja hundrað manns heimili í Urriðaholti. 

Vegna mikillar eftirspurnar og skorts á nýbyggingum sem einkennt hefur fasteignamarkaðinn hafa Garðabær og Urriðaholt ákveðið að hefja undirbúning að næstu áföngum í uppbyggingu íbúðabyggðarinnar. Stefnt er að því að skipulagstillögur þar um geti legið fyrir í haust og næstu lóðir geti orðið byggingarhæfar sumarið 2018. Gert er ráð fyrir að í fullbyggðu Urriðaholti verði 1.650 íbúðir.

Uppbygging í Kauptúni

Vart hefur farið framhjá nokkrum að mikil gerjun á sér einnig stað í Kauptúni í Urriðaholti. Costco áformar að opna 14.000 fermetra verslun í lok maí og á svipuðum tíma opnar Vínbúðin við hliðina á Bónus. Verið er að stækka verslun Bónuss og sömuleiðis er verið að stækka húsið við hliðina á Costco. Þangað koma verslanir Rúmfatalagersins og Ilva að loknum framkvæmdum. Ekki má gleyma því að bensínstöð Costco tekur til starfa um leið og verslunin. Fyrir í Kauptúni eru IKEA,Toyota, Huyndai og gæludýrabúðin Fiskó þannig að íbúar í Urriðaholti eru að verða vel settir með úrval verslana og þjónustufyrirtækja í hverfinu.

Skólastarfið

Stefnt er að opnun leikskóladeildar Urriðaholtsskóla í lok ársins og grunnskólans haustið 2018. Framkvæmdum við uppsteypu fyrsta áfanga er lokið, en hann er 5.700 fermetrar. Í þessum fyrsta áfanga verður leikskóladeildin og 1.-4. bekkir grunnskóla.

Í október síðastliðnum voru tilboð í lokun skólans opnuð. Bæjarráð Garðabæjar tók ákvörðun um að hafna öllum tilboðunum þremur og bjóða þennan verkþátt út að nýju ásamt frágangi innanhúss. Það útboð er nú í lokafrágangi verður auglýst innan skamms. Útboð vegna lóðar er nú þegar frágengið og framkvæmdir hefjast í vor.

30.11.2016

Urriðaholt og Garðabær taka forskot í þróun og byggingu smáíbúða

Ákveðið hefur verið að í fjölbýlishúsinu að Urriðaholtsstræti 10-12 verði allt að 36 smáíbúðir frá 25 fermetrum að stærð. Um er að ræða til­rauna­verk­efni þar sem gert er ráð fyr­ir þessum litlu íbúðum í bland við stærri íbúðir. Með því að heimila byggingu íbúða af þessari stærð er Garðabær að leggja sitt af mörkum til að koma til móts við mikla eftirspurn á fasteignamarkaði eftir litlum íbúðum, sérstaklega á meðal ungs fólks. Einnig er horft til umhverfissjónarmiða og þess að breikka úrval íbúða í bænum.

Garðabær tek­ur með þessari skipulagsákvörðun for­skot í þróun og bygg­ingu smá­í­búða á Íslandi. Bær­inn hef­ur átt í sam­starfi við þró­un­araðila Urriðaholts um útfærslu skipulagsins. Áætlað er að bygg­ing­ar­fram­kvæmd­ir hefj­ist fljót­lega eft­ir ára­mót 2016-2017 og verða fyrstu íbúðir til­bún­ar vorið 2018 ef allt geng­ur eft­ir. Um er að ræða leigu­íbúðir og samkvæmt kröfu bæjarins verða þær allar í eigu sama aðila og eingöngu í lang­tíma­leigu.

Hvergi er slakað á kröf­um byggingareglugerðar, t.d. varðandi sal­erni og eld­un­araðstöðu í hverri íbúð, en megin­ávinn­ing­urinn felst í smæð íbúðanna.

Gunn­ar Ein­ars­son, bæj­ar­stjóri í Garðabæ, seg­ir ánægju­legt að bær­inn skuli taka for­ystu í verk­efni sem þessu sem leitt geti til auk­inn­ar sjálf­bærni og breiðara íbúðavals í bæn­um. „Þetta er þró­un­ar­verk­efni sem við gáf­um grænt ljós á og vilj­um sjá hvernig reyn­ist. Við erum að reyna að koma til móts við ungt fólk og það verður spenn­andi að sjá hvernig þetta lukk­ast,“ sagði Gunn­ar í viðtali við Morgunblaðið þegar verkefnið var kynnt.

16.08.2016

Skólinn bíður eftir börnunum

Byggingu Urriðaholtsskóla við Lindastræti efst í Urriðaholti miðar vel og er í takt við uppbyggingu hverfisins. Uppsteypu fyrsta áfanga skólans er lokið og styttist senn í að vinna hefjist við utanhússklæðningu, innréttingar og frágang. Stefnt er að því að hefja skólastarf í Urriðaholtsskóla þarnæsta haust, en um þessar mundir á mikil uppbygging sér stað í hverfinu og margir að flytja inn.

Vistvænar áherslur alla leið

Urriðaholtsskóli er leik- og grunnskóli og í fyrsta áfanga verður pláss fyrir 250 börn á grunnskólaaldri og 100 heilsdagspláss í leikskóla. Í fyrsta áfanganum verða leikskóli, almenn kennslurými, bókasafn og stjórnunarrými skólans.

Að sögn Margrétar Bjarkar Svavarsdóttur, forstöðumanns fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar, verður Urriðaholtsskóli umhverfisvænn og munu vistvæn sjónarmið og umhverfisvitund endurspeglast bæði í innra starfi og ytra umhverfi hans. Við byggingu skólans eru vistvæn efni nýtt til hins ítrasta og áhersla lögð á umhverfisvænan rekstur og samgöngur til og frá skólanum. Stefnt er að því að skólinn fái hina alþjóðlegu BREEAM umhverfisvottun, þá sömu og hús Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti fékk.

Nálægðin við náttúruna markar skólastefnuna

Margrét Björk segir að tengsl við náttúruna allt um kring í Urriðaholti verði ríkur þáttur í námi barnanna. „Þau verða virkir þátttakendur í vistvænum rekstri og lögð áhersla á að rækta með þeim vitund og virðingu fyrir umhverfinu. Vísindastöðvar verða einnig víðsvegar um skólann þar sem börnin fást við verkefni sem tengjast umhverfinu,“ segir hún. 

Margrét Björk segir að lagt sé upp með að  skólinn verðir skapandi og skemmtilegur. „Kennsluhættir taki mið af ólíkum námsþörfum nemenda og boðið verður upp á fjölbreyttar leiðir til náms.  Áhersla er lögð á að börnin þroski með sér sjálfstraust, ábyrgð, gagnrýna hugsun og víðsýni,“ bætir hún við.

Í stefnu skólans er áhersla á að samstarf einkenni alla starfshætti bæði nemenda og starfsmanna. Markviss þjálfun verður í samskiptahæfni og áhersla á virka þátttöku nemenda.

Tengsl við grenndarsamfélagið

Skólinn verður hjarta samfélagsins í Urriðaholti. Í fyrsta lagi er þar staðsett öll starfsemi sem tengist börnum og unglingum s.s. félagsstarf unglinga, tónlistarskóli og aðstaða til íþrótta. Í öðru lagi munu íbúar hverfisins hafa aðgang að skólahúsnæðinu og sækja þangað þjónustu  t.d. bókasafn, námskeið, tónleika o.fl.

Sóldögg er tákn skólans

Sóldögg er afar sjaldgæft blóm sem vex á okkrum stöðum á landinu, þar á meðal í Urriðaholti.   Hún  var því valin tákn skólans og undirstrikar þannig virðingu fyrir náttúrunni. Ekki síður táknar Sóldöggin hvernig allt starf skólans tengist órjúfanlega saman í eina heild þar sem leiðir ólíkra hópa skarast. 

Urriðaholt í júní 2016, Urriðaholtsskóli er til hægri á myndinni og horft er niður Holtsveg í átt að Kauptúni. Urriðavatn til vinstri.

Horft yfir Holtsveg í átt að Heiðmörk og golfvelli Odds. Skólabyggingin er efst fyrir miðri mynd.

Þessi mynd sem tekin var í maí sl. sýnir hversu vel hefur miðað við byggingu nýja skólans.

24.07.2016

Fyrsta umhverfisvottaða íbúðarhúsið á Íslandi byggt í Urriðaholti

Fyrsta umhverfisvottaða íbúðarhúsið hér á landi verður reist í Urriðaholti. Um er að ræða 216 fermetra einbýlishús að Brekkugötu 2 sem hjónin Finnur Sveinsson og Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir hafa ákveðið að byggja með umhverfisáherslur að leiðarljósi.  Miðað er við að húsið verði vottað með norræna umhverfismerkinu Svaninum.

Finnur segir að þó svo húsið verði umhverfisvottað, muni það í öllum meginatriðum vera eins og íbúðarhús eru almennt með nútíma þægindum. Ekki er lagt upp með flóknar sérlausnir til að ná fram markmiðum vottunarinnar, heldur skal byggt á þekktum lausnum í byggingariðnaði hér á landi og á Norðurlöndunum.

Í húsinu er meðal annars leitast við að halda orkunotkun í lágmarki og nota byggingarefni sem hefur ekki verið meðhöndlað með efnum sem eru flokkuð sem krabbameinsvaldandi,  valda stökkbreytingum eða hafa áhrif á frjósemi. Að lágmarki 70% hluti timburs sem notað er í húsinu þarf að koma úr vottaðri skógrækt og allt timbur verður að vera rekjanlegt. Þá þarf húsbyggjandinn að hafa gæða- og eftirlitskerfi sem tryggir að viðmiðum Svansvottunar sé náð.

Finnur segir að staðall Svansvottunarinnar sé byggður upp á annars vegar á 41 skilyrðum sem verður að uppfylla og hins vegar 14 stigaviðmiðum sem eru valkvæð. Lágmarks stigafjöldi fyrir einbýli er 16 stig af 42 mögulegum.  Hann og Þórdís stefna að því að fá amk. 23 stig fyrir hús sitt að Brekkugötu 2.

Markmiðið með því að byggja umhverfisvottað hús er að sögn Finns ekki síst að skapa þekkingu hér á landi um byggingu umhverfisvæns húsnæðis. Hann segir það stuðla að vistvænna samfélagi og byggja upp þekkingu hjá hagsmunaaðilum, þ.m.t. arkitektum, verkfræðingum, byggingarverktökum, birgjum byggingarefnis, ráðgjöfum, sveitarfélögum, skipulagsyfirvöldum og almenningi. Ekki síður felur verkefnið í sér tækifæri til að kynna umhverfisvænar lausnir í byggingariðnaði og skipulagi.

Á vefsíðunni visthus.is er að finna viðamiklar upplýsingar um verkefnið og segir Finnur að þar verði bætt við fróðleik eftir því sem byggingunni vindur áfram. Þau hjónin stefna að því að húsið verði tilbúið þann 1. júní á næsta ári.

Urriðaholt er fyrsta vistvottaða hverfið á Íslandi

Skipulag Urriðaholts hefur hlotið staðfestingu þess frá vottunarsamtökunum Breeam Communities að Urriðaholt uppfylli skilyrði um framúrskarandi skipulag, sem unnið hefur verið frá grunni með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi.

Skipulag Urriðaholts er það fyrsta á Íslandi sem hlýtur þessa vistvottun. Breeam Communities er hluti af starfsemi Breeam umhverfisvottunarkerfisins, sem er eitt útbreiddasta vottunarkerfi heims fyrir visthæfi bygginga og byggðar.

08.06.2016

Deiliskipulagstillaga norðurhluta 3. áfanga liggur fyrir

Skipulagsnefnd Garðabæjar samþykkti þann 26. maí síðastliðinn að auglýsa deiliskipulagstillögu fyrir norðurhluta 3 og háholt Urriðaholts. Deiliskipulagið nær til 9 hektara svæðis í norðanverðu Urriðaholti og á háholtinu. Skipulagið gerir ráð fyrir að hámarki 327 íbúðum í fjölbýli (3-5 hæða) og rað- og parhúsum (1-2 hæða), af mismundandi stærð í blandaðri byggð sem getur hentað fyrir alla aldurshópa. Við Urriðaholtsstræti verða fjölbýlishús með atvinnutengdri starfsemi á neðstu hæð sem snýr að götunni.

Tillagan er unnin af Alta ehf, Landslagi ehf og Arkís ehf á vegum landeigenda í samvinnu við Garðabæ. Tillagan er að öllu leyti samræmi við aðalskipulag og rammaskipulag. Forkynning á tillögunni fór fram frá 21.mars til 11.apríl síðastliðinn og jafnframt var haldinn kynningarfundur.Engar ábendingar bárust á meðan á forkynningu stóð.

Deiliskipulagstillagan verður auglýst innan tíðar í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

19.05.2016

Vistvottun Urriðaholts undirstrikar metnaðinn í skipulagi hverfisins

Á málþingi um vistvottun Urriðaholts var það samdóma álit frummælenda að Breeam vistvottun hverfisins undirstrikaði þann metnað sem felst í skipulagi og uppbyggingu hverfisins. Á málþinginu afhenti fulltrúi Breeam Communities Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra Garðabæjar, formlega staðfestingu á lokavottun hluta deiliskipulags Urriðaholts. Áður hafði rammaskipulag hverfisins hlotið vistvottun Breeam.

    Ítarleg umfjöllun um erindin á málþinginu ásamt vídeóupptökum.


Cary Buchanan, fulltrúi Breeam, sagði að með lokavottun deiliskipulags væri því fylgt eftir að unnið hafi verið að upprunalegu markmiðunum í rammaskipulaginu. Hún sagði að skipulag Urriðaholts endurspeglaði metnaðarfull markmið um sjálfbærni sem mun hafa jákvæð áhrif til langrar framtíðar.

Breeam gefur út vottunarstaðla fyrir byggingar og skipulag. Vottanirnar endurspegla ströngustu kröfur sem gerðar eru til vistvottunar og sjálfbærni, sagði Cary. Hún sagði að Breeam vottunarferlið væri byggt á stöðugum rannsóknum og bestu þekkingu sem til væri hverju sinni. Við leggjum líka mikið upp úr því þegar sótt er um vottun Breeam, að byggingar og skipulag gangi lengra en reglur og lágmarkskröfur segja til, sagði hún.

Sigríður Björk Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Vistbyggðarráðs, sagði á málþinginu að markmiðið með mælikvarða á borð við Breeam vottunina væri að styðjast við ákveðinn mælikvarða til að auka visthæfi hverfa og taka á þeim atriðum sem mestu máli skipta.

Ólöf Kristjánsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá verkfræðistofunni Mannviti, sá um að meta skipulag Urriðaholts samkvæmt umboði Breeam Communities. Hún sagði matskerfið mjög umfangsmikið, 40 kaflar sem spanna mjög vítt svið. Hún sagði að helsti styrkleiki skipulagsins í Urriðaholti væri sú mikla áhersla sem lögð hefur verið í verndun vatnasvæðis Urriðavatns. Það er gert með sjálfbærum ofanvatnslausnum sem eru einstakar á landsvísu að umfangi, ásamt verndun vistkerfisins sem umlykur vatnið, sagði Ólöf. Hún nefndi einnig sem styrkleika það öfluga samráð sem verið hefur um skipulag Urriðaholts allt frá upphafi fyrir 10 árum. Þessi mikla áhersla á samráðsferlið kemur sterkt inn í einkunnina sagði Ólöf, en þess má geta að einkunn lokavottunar deiliskipulagsins var „very good.“

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, sagði að forsvarsmenn skipulagsverkefna hefðu talsvert mikinn sveigjanleika um útfærslu. Vistvottunarkerfi eins og Breeam væri nýtt tæki á alþjóðvísu sem skipulagsfólki gefst kostur á að nýta í vinnu sinni, líkt og í Urriðaholti, sagði hún. Þarna eru komin ný tól henta mjög vel eins og í tilviki Urriðaholts, þar sem lagt er af stað með og haldið áfram af miklum metnaði og haldið áfram með skýra og afdráttarlausa sýn að hverju er stefnt.

Vottunin er staðfesting fyrir samfélagið - fyrir búsetu og atvinnurekstur - um að skipulagið hefur undirgengist og staðist kerfisbundið próf með tilliti til byggðagæða og vistvænna áherslna. Þeim árangri hafa Garðabær og Urriðaholt svo sannarlega náð. Þetta er mikilvægt skref og við færum aðstandendum verkefnisins innilegar hamingjuóskir með þennan áfanga, sagði Ásdís Hlökk að lokum.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, lagði áherslu á hversu miklu skipti að uppbygging Urriðaholts tækist vel. Það er pólitísk stefnumótun okkar að leggja þessa miklu áherslu á skipulagsmál, sagði Gunnar og bætti því við hann hann væri afar stoltur af því hvað mikinn metnaður hefði verið lagður í skipulag Urriðaholts. Gunnar sagði að þar væri ný hugsun að baki, áhersla á gæði byggðar sem ætti eftir að standa næstu 100 árin og því mikilvægt að vanda vel til verka. Hér býr mikill metnaður að baki og ég er stoltur af að hafa átt þátt í þessari uppbyggingu, sagði Gunnar ennfremur.

03.05.2016

Málþing um vistvottun skipulags Urriðaholts

Málþing um vistvottun skipulags Urriðaholts í Garðabæ verður haldið þriðjudaginn 10. maí næstkomandi. Málþingið verður haldið í húsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti og hefst kl. 15:30. Að málþinginu standa Garðabær, Urriðaholt ehf. og Vistbyggðarráð og er það öllum opið.

Fundarstjóri verður Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ.

Á málþinginu mun Cary Buchanan, fulltrúi Breeam Communities í Bretlandi, afhenda staðfestingu þess að Urriðaholt uppfylli skilyrði um framúrskarandi skipulag, sem unnið hefur verið frá grunni með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi.

Skipulag Urriðaholts er það fyrsta á Íslandi sem hlýtur þessa vistvottun. Breeam Communities er hluti af starfsemi Breeam umhverfisvottunarkerfisins, sem er eitt útbreiddasta vottunarkerfi heims fyrir visthæfi bygginga og byggðar.

Á málþinginu mun Cary Buchanan gera grein fyrir áherslum Breeam Communities og ávinningi vottunar fyrir íbúa hverfisins. Auk þess halda stutt erindi Ásdís Hlökk Theódórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar og Ólöf Kristjánsdóttir hjá Mannviti, sem er vottunaraðili Breeam Communities á Íslandi.

Í lok málþingsins kynna hjónin Finnur Sveinsson og Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir byggingu umhverfisvottaðs einbýlishúss í Urriðaholti, sem mun verða það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Málþingið verður haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti.

Hvaða máli skiptir vistvottun fyrir íbúða Urriðaholts?

Með Breeam vottunarferlinu eru tryggð ákveðin gæði í umhverfis- og skipulagsmálum. Vistvottunin tryggir íbúum í Urriðaholti að skipulag hverfisins búi yfir ákveðnum gæðum sem sýna sig með margvíslegum hætti. Þar á meðal má nefna:

 • Gönguleiðir í skóla og leikskóla eru stuttar og öruggar.
 • Gatnaskipulag gerir ráð fyrir öllum ferðamátum, dregur úr umferðarhraða og gerir götur því öruggari fyrir alla vegfarendur.
 • Fjölbreytt útivistarsvæði fyrir fólk á öllum aldri.
 • Nálægð og góðar tengingar við Urriðavatn og fjölbreytt lífríki þess.
 • Gangandi og hjólandi vegfarendur eru í forgangi fyrir bílum.
 • Stutt í verslun og aðra þjónustu.
 • Gott aðgengi að strætó.
 • Nálægð húsa við gönguleiðir stuðlar að öryggi fyrir vegfarendur – allir eru á vaktinni.
 • Barnvæn leiksvæði.
 • 5-víra kerfi rafmagns í öllu hverfinu til að draga úr rafmengun.
 • Stutt í náttúru og gott aðgengi með góðu stígakerfi.
 • Rými sólrík og skjólsæl.
 • Fjölbreytt framboð húsnæðis, fyrir allt æviskeiðið.
 • Þægileg lýsing utandyra, minni ljósmengun.
 • Fjölbreyttar íbúðastærðir sem stuðla að blandaðri íbúasamsetningu.
 • Blágrænar ofanvatnslausnir til að tryggja gróðurvænt umhverfi og verndun Urriðavatns.
 • Vel hugað að hönnun opinna svæða og val á gróðri með tilliti til vistkerfis svæðisins.

Gæði hverfisins byggjast á þeirri grunnhugsunað vanda vel alla skipulagsvinnu með öflugri greiningarvinnu, víðtæku samráðsferli og ítarlegum gátlistum. Þannig er lagður grunnur að áhugaverðu samfélagi, skipulagi sem er endingargott, öruggt og aðlaðandi til búsetu og býður uppá góða aðstöðu til útivistar.

23.03.2016

Kynningarfundur um deiliskipulagstillögu 3. áfanga Norðurhluta Urriðaholts

Kynningarfundur um tillögu að deiliskipulagi 3. áfanga Norðurhluta Urriðaholts verður haldinn miðvikudaginn 30. mars á bæjarskrifstofum Garðabæjar og hefst fundurinn kl. 16.

Deiliskipulagið nær til 9 hektara svæðis við Urriðaholtsstræti og hæsta hluta holtsins. Tillagan gerir ráð fyrir að hámarki 327 íbúðum í fjölbýli (3-5 hæðir) og rað- og parhúsum (1-2 hæðir), af mismundandi stærð í blandaðri byggð sem getur hentað fyrir alla aldurshópa. Við Urriðaholtsstræti verða fjölbýlishús með atvinnutengdri starfsemi á neðstu hæð sem snýr að götunni.

Forkynning á deiliskipulagstillögunni stendur til 11. apríl 2016. Meðan á forkynningu stendur er tillagan aðgengileg á heimasíðu Garðabæjar, www.gardabaer.is og á heimasíðu Urriðaholts. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á því að koma með ábendingar sem verða teknar til umfjöllunar við endanlega mótun tillögunnar. Skal þeim skilað skriflega til skipulagstjóra Garðabæjar fyrir 11. apríl.

Á kynningarfundinum verður tillagan kynnt, spurningum svarað og opnað fyrir umræður. Fundurinn fer fram á 3. hæð bæjarskrifstofanna.

11.03.2016

Ný fjölbýlishús við Holtsveg komin í sölu

Uppbyggingin við Holtsveg í Urriðaholti heldur áfram og íbúðir í fjölbýlishúsum við Holtsveg 37-39, 41 og 51 eru nú komnar í sölu. 

Holtsvegur 41

Stutt er í að smíði hússins ljúki og verða fyrstu íbúðir afhentar í apríl. Húsið er lyftuhús með stæðum í lokuðum bílakjallara. Arkitekt er Kristinn Ragnarsson.

Byggingarðili er Eignarhaldsfélagið Á.D. Fasteignasali er Remax Senter og veita fasteignasalar nánari upplýsingar, Gunnar Sverrrir í síma 862-2001, gunnar@remax.is og Ástþór Reynir í síma 899-6753, arg@remax.is.

Holtsvegur 37-39

Húsin eru á byggingarstigi en tilbúin er glæsileg sýningaríbúð í húsi númer 37. Um er að ræða lyftuhús ásamt stæði í lokuðum bílakjallara. Á efstu hæð eru penthouse-íbúðir. Áætlað er að íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar haustið 2016. Arkitekt er Sigurður Hallgrímsson hjá Arkþing.

Mannverk reisir húsin. Nánari upplýsingar veitir Kristjana Sigurðardóttir viðskiptastjóri Mannverks í síma 771-1115, netfang kristjana@mannverk.is.

Ýmsar fasteignasölur hafa íbúðir að Holtsvegi 37-39 til sölu.

Holtsvegur 51

Húsið er á byggingarstigi en sölumenn frá fasteignasölunni TORG sýna íbúðir og afhenda gögn, þ.m.t. skilalýsingu o.fl.

Nánari upplýsingar gefa Hafdís Rafnsdóttir, sölustjóri í síma 820-2222, hafdis@fstorg.is og Sigurður Gunnlaugsson, fasteignasali í síma 898-6106, sigurdur@fstorg.is

08.12.2015

Samgöngulega séð er Urriðaholt er mjög vel staðsett á höfuðborgarsvæðinu

Á vefsíðu Urriðaholts er að finna mælingar sem Ólafur Kr. Guðmundsson, tæknistjóri EuroRAP á Íslandi, gerði á tímanum sem fer til að ferðast að og frá Urriðaholti um höfuðborgarsvæðið.

„Tíminn sem fer í að aka milli staða skiptir í raun miklu meira máli en vegalengdin sjálf og að því leyti er Urriðaholt í mjög góðum málum,“ segir Ólafur í viðtalinu. EuroRAP er skammstöfun á European Road Assessment Programme, undir forystu FIA, samtaka evrópskra bifreiðaeigendafélaga. EuroRAP annast öryggisskoðun vegakerfisins út frá fjölmörgum breytum.

Ólafur tók að sér fyrir Urriðaholt ehf. að mæla aksturstíma milli Urriðaholts og nokkurra áfangastaða á höfuðborgarsvæðinu. Prófunarbíll EuroRAP á Íslandi er útbúinn nákvæmum búnaði til að mæla tíma og vegalengdir, svo og eldsneytiseyðslu. Aksturinn er jafnframt tekinn upp á myndband.

Helstu niðurstöður akstursmælinga Ólafs eru þær að mjög fljótlegt er að komast til og frá Urriðaholti um höfuðborgarsvæðið. Þar skiptir Reykjanesbrautin mestu, en hún er ein greiðfærasta gata landsins og liggur skammt frá Urriðaholti um mislæg gatnamót.

En hvað er það sem gerir Reykjanesbrautina svona fljótfarna?

„Frítt flæði bílanna er það sem skiptir öllu máli,“ segir Ólafur. „Reykjanesbrautin er afar vel hannað og vel heppnað umferðarmannvirki. Gatnamót eru mislæg, tvær akreinar í báðar áttir og engin umferðarljós og engar hraðahrindranir fyrr en eftir 7 kílómetra við Bústaðaveg og tæplega einn kílómetra við Kaplakrika. Umferðin líður því áfram á stöðugum og góðum hraða. Þarna verða nánast aldrei umferðarteppur þrátt fyrir býsna mikla umferð.“

Skapast þá ekki meiri slysahætta þegar hraðinn er orðinn meiri?

„Þvert á móti, umferðaróhöpp og slys á Reykjanesbrautinni á þessum kafla eru hreint og beint sjaldgæf samkvæmt slysaskráningu Samgöngustofu. Meira að segja gatnamót Reykjanesbrautar og Miklubrautar við Elliðaárvog, sem eru umferðarmestu gatnamót landsins, komast ekki á lista yfir 20 hættulegustu gatnamót höfuðborgarsvæðisins. Af þessum 20 hættulegustu gatnamótum eru 19 þeirra ljósastýrð. Þar verða alvarlegustu umferðaróhöppin.

Það skiptir líka máli þegar litið er á Reykjanesbrautina að umferð úr gagnstæðum áttum er aðskilin með vegriði. Líkurnar á alvarlegum árekstrum bíla sitt úr hvorri áttinni eru því hverfandi.“

Hvað með samgöngur úr Urriðaholti þegar Reykjanesbrautinni sleppir?

„Íbúar í Urriðaholti eru í mjög góðri stöðu með samgöngur í allar áttir. Samkvæmt mínum mælingum er tiltölulega fljótlegt að skjótast í miðbæ Garðabæjar úr Urriðaholti og litlu lengur að skreppa í miðbæ Kópavogs. Það sama má segja um miðbæjarkjarna Hafnarfjarðar, en auðvitað hefur áhrif á hvaða tíma dags fólk er á ferðinni. Það segir sig svo sjálft að þeir sem sækja vinnu í miðborg Reykjavíkur þurfa að sætta sig við hægfara umferð þangað á helstu annatímum, líkt og allir aðrir. En sá seinagangur byrjar ekki fyrr en komið er út af Reykjanesbrautinni.“

Nokkur önnur hverfi á höfuðborgarsvæðinu liggja nálægt greiðfærum stofnbrautum, t.d. Grafarholt og Grafarvogur að Vesturlandsvegi. Eru þessi hverfi sambærileg við Urriðaholt hvað greiðar samgöngur varðar?

„Ekki að öllu leyti. Það getur nefnilega tekið drjúgan tíma að komast úr þeim út á Vesturlandsveginn. Hringtorg, umferðarljós, hraðahindranir og löng aðkoma hefur þar mikið að segja. Úr Urriðaholti er hins vegar mjög fljótlegt að komast út á Reykjanesbrautina. Mínar mælingar sýndu að það tók eina til eina og hálfa mínútu að jafnaði að fara úr miðju hverfisins út á Reykjanesbraut.

Og svo skulum við heldur ekki gleyma því að Reykjanesbrautin liggur alla leið til Keflavíkurflugvallar. Það segir sitt hvað Urriðaholt er vel í sveit sett að það tekur ekki nema hálftíma að aka þarna á milli,“ segir Ólafur Kr. Guðmundsson.

17.11.2015

Urriðaholt vekur áhuga útfyrir landsteinana

Skipulagið í Urriðaholti hefur í gegnum tíðina vakið töluverða athygli, m.a. erlendis frá. Ekki síst vekja áhuga áherslur á lífsgæði, öruggt umhverfi, blandaða byggð og náttúrulegt viðhald Urriðavatns.

Sveitarstjórnarfólk frá Noregi og Póllandi hefur til að mynda komið gagngert til Íslands til að fræðast um Urriðaholt. Nýlega kom hópur frá frá Jaworzno, 100 þúsund íbúa bæ í Póllandi, til að leita góðra fordæma við uppbyggingu bæjarins. Í Urriðaholti vildi hópurinn fræðast um hvernig farið hefur verið að því að skipuleggja nútíma byggð eins og þessa, með heilbrigði og vellíðan íbúa í huga og virðingu við náttúruna í kring.

Um 50 starfsmenn frá Kristiansand Kommune í Noregi, sem starfa þar að skipulags- og veitumálum komu í heimsókn í Urriðaholtið til að fræðast um skipulagsvinnuna, ekki síst hvernig blágrænu ofanvatnslausnirnar virka í raun.

Í gegnum tíðina hafa erlendir háskólar, sérfræðingar og tæknimenn sveitarfélaga sótt Urriðaholtið heim til að heyra betur af skipulagsvinnunni og sjá hvernig hverfið byggist upp á þeim grunni. Hópur stúdenta frá Quebec háskóla í Montréal, sem kom gagngert til Íslands til að kynna sér umhverfismál, fékk kynningu um Urriðaholtið og umhverfisvænar áherslur í skipulagi þess.

Tækniháskólinn í Þrándheimi NTNU, heldur árlega endurmenntunarnámskeið fyrir norska tæknimenn hjá sveitarfélögum, mastersnema og ráðgjafa í ofanvatns- og fráveitumálum. Síðustu árin hefur Halldóra Hreggviðsdóttir, hjá ráðgjafarfyrirtækinu Alta, sem hélt utanum rammaskipulagsvinnuna, verið fengin til að halda þar fyrirlestur um skipulag og innleiðingu blágrænu ofanvatnslausnanna í Urriðaholti og reynsluna af þeim.

Ekki má svo gleyma því að skipulagið í Urriðholti hefur fengið tvenn virt alþjóðleg verðlaun, annars vegar frá International Awards for Livable Communities (LivCom) og hins vegar frá Boston Society of Architects. 

18.10.2015

Fjöldi fólks í opnu húsi í Urriðaholti

Yfir eitt þúsund manns mættu í opið hús í Urriðaholti laugardaginn 17. október. Fimmtíu nýjar íbúðir voru til sýnis í níu fjölbýlishúsum og skoðuðu flestir íbúðir í öllum húsunum. 

Byggingaraðilar og fasteignasalar stóðu að opna húsinu í samvinnu við Urriðaholt ehf. og var það einróma álit að dagurinn hafi verið mjög vel heppnaður. Það sama var að heyra á þeim sem komu til að skoða og höfðu margir orð á hversu gott væri að geta skoðað svona margar og fjölbreyttar íbúðir á sama tíma. 

Fyrstu fjölbýlishúsin í Urriðaholti eru ýmist fullkláruð eða að frágangur er á lokametrunum. Önnur eru tilbúin til innréttinga og nokkur hús eru fokheld. Mikil uppbygging á sér nú stað í Urriðaholti og bygging skóla er hafin. Íbúar eru fluttir inn í fjögur húsanna og fjöldi íbúða er þegar seldur. Hægt er að sjá yfirlit um íbúðir til sölu í Urriðaholti með því að smella á hlekkinn "Fasteignaleit" hér að ofan. 

Hér að neðan gefur að líta nokkrar myndir frá opna húsinu.

17.07.2015

Costco í Urriðaholt á næsta ári

Samningar voru undirritaðir í morgun um kaup verslunarkeðjunnar Costco á 14 þúsund fermetra verslunarhúsnæði að Kauptúni 3 í Urriðaholti. Verslun Costco mun taka til starfa á næsta ári. Verslunin bætist þar við flóru annarra fyrirtækja í Kauptúni, þar á meðal IKEA, Toyota, Bónus og Huyndai. Rúmfatalagerinn og ILVA hafa einnig keypt húsnæði í Urriðaholti, í Kauptúni 1.

Í frétt Morgunblaðsins um komu Costco í Urriðaholt kemur fram að Costco verði í sama húsi og Bónus og vörulager IKEA. Auk verslunarinnar áformar Costco að vera með sjálfsagreiðslustöð fyrir bifreiðaeldsneyti. Í Morgunblaðinu kemur fram að Costco sé ein stærsta smásölukeðja heims, með 670 verslanir, flestar í Bandaríkjunum. Í Costco er m.a. seld matvara, fatnaður og raftæki og áhersla lögð á að selja vörur í stórum magnpakkningum.

01.06.2015

Bygging Urriðaholtsskóla að hefjast

Garðabær hefur auglýst eftir tilboðum í uppsteypu fyrsta áfanga Urriðaholtsskóla og verða þau opnuð þann 19. júní næstkomandi. Framkvæmdum á að vera lokið um miðjan janúar á næsta ári og áformað er að skólinn taki til starfa þá um haustið. Þessi fyrsti áfangi skólans verður 5.300 fermetrar. Í honum verða um 100 heilsdagspláss fyrir börn á leikskólaaldri og rými fyrir um 250 börn á grunnskólaaldri upp í 10. bekk.

Fullbyggður verður Urriðaholtsskóli með allt að 700 börn á grunnskólaaldri og sex deildir leikskóla með um 120 heilsdagsplássum. Skólinn verður því vel í stakk búinn að taka við nýjum íbúum í Urriðaholti.

BREEAM umhverfisvottun fyrir skólann

Í samstarfssamningi Garðabæjar og Urriðaholts ehf. er ákvæði um áherslur í umhverfismálum og hefur Garðabær samþykkt sérstaka umhverfisstefnu fyrir skóla í Urriðaholti. Vegna þessara áhersluatriða í uppbyggingu Urriðaholts er unnið að því að skólinn fái hina alþjóðlegu BREEAM umhverfisvottun. Vottunin tekur til þeirra þátta byggingarinnar sem lágmarka neikvæð umhverfisáhrif hennar og stuðla að sjálfbærni. Þess má geta að hús Náttúrufræðistofnunar Ísland í Urriðaholti var eitt af fyrstu húsum hér á landi til að fá BREEAM vottunina. Jafnframt er nú unnið að því að Urriðaholt verði fyrsta hverfið á Íslandi til að hljóta vistvottun samkvæmt alþjóðlega vottunarkerfinu Breeam communities sem er leiðandi á þessu sviði í heiminum.

Vandað til við hönnunina

Garðabær auglýsti á sínum tíma eftir hönnunarhópi til að taka þátt í útboði á hönnun Urriðaholtsskóla. Samið var við hönnunarhóp í febrúar 2014, en í hópnum var m.a. að finna arkitekta, verkfræðinga, landslagsarkitekta og vottaða BREEAM ráðgjafa. Umsjón með hönnuninni hefur verið í höndum Úti og inni arkitekta undir stjórn Baldurs Ó. Svavarssonar arkitekts.

Töluverður undirbúningur hefur átt sér stað í uppbyggingu skólastarfs í Urriðaholti. Strax í upphafi voru lagðar ákveðnar línur í rammaskipulagi Urriðaholts og á árinu 2008 fór fram umtalsverð undirbúningsvinna á vegum fræðslu- og menningasviðs Garðabæjar í samstarfi við arkitekta og ráðgjafa.

Verkefnisstjórn hefur yfirumsjón með mótun og byggingu Urriðaholtsskóla. Í henni eru: Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Eysteinn Haraldsson bæjarverkfræðingur, Margrét Björk Svavarsdóttir, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs  og Jón Pálmi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Urriðaholts ehf.

04.02.2015

Hönnun Urriðaholtsskóla langt komin

Rætt við Baldur Ó. Svavarsson arkitekt, sem hefur yfirumsjón með hönnun skólans.

Hönnun grunnskóla og leikskóla í Urriðaholti miðar vel og samhliða hefur verið unnið að jarðvegsframkvæmdum. Grunnskólinn og leikskólinn verða sambyggðir og er gert ráð fyrir uppbyggingu í tveimur til þremur áföngum.

Arkitektastofan Úti og inni vann samkeppni um hönnun skólans, en stofan hefur mikla reynslu af sams konar verkefnum víða um land. 

Grunnskólinn ásamt tilheyrandi aðstöðu mun standa á skilgreindri lóð ofarlega í hverfinu með góða útsýn til allra átta og góð tengsl við megin göngustíga hverfisins.  Aðkoma akandi verður einnig greið.

Alls mun grunnskólinn rúma 640 nemendur og leikskólinn 120.  Skólinn verður byggður í a.m.k. tveimur áföngum.  Fullbyggð verður byggingin alls  um 10-11 þúsund fermetrar með íþróttamannvirkjum og sundlaug.  Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir fullbyggðum leikskóla ásamt stjórnunaraðstöðu skólans, svo og um 6 heimasvæðum.

Meginstefið er alhliða nýting húsnæðisins

Baldur Ó. Svavarsson arkitekt, annar eigandi Úti og inni, segir að við hönnun skólans sé hugað að alhliða nýtingu hans fyrir skólastarf, tómstundir, íþróttaiðkun, námskeiðahald og félagslíf íbúa. Ennfremur er kappkostað að endurspegla áherslur Urriðaholts í skipulags- og umhverfismálum.

„Það verður hægt að nýta rými skólans með afar fjölbreyttum hætti frá morgni til kvölds. Skólinn er ekkert síður hugsaður sem alhliða félagsmiðstöð íbúanna en menntastofnun barnanna,“ segir Baldur.

„Hönnun skólans er nokkuð flókin þar sem hann verður byggður og nýttur í áföngum. Rými sem verður notað í einum tilgangi í fyrri áfanganum verður svo kannski virkjað í skilgreint rými í fullbyggðum skólanum. Við þurfum að gæta að því að öll starfsemi komist fyrir á öllum byggingarstigum þannig að þetta er nokkuð púsl.“

Heimasvæði fyrir hvern árgang

Hönnun skólans byggir á „opnu“ skipulagi fyrir hvern árgang.  Þannig eru engar hefðbubndnar bekkjarstofur fyrir staka bekki eins og tíðkast hefur. Þetta fyrir komulag hefur rutt sér til rúms hérlendis á liðnum árum og eru nokkur dæmi um slíka skóla á höfuðborgarsvæðinu. Hönnun þessa skóla byggir á þessu fyrir komulagi, en þó er leitast við að hólfa svæðin betur niður.  Er þar m.a. horft til Sjálandsskóla með það í huga.  Hver árgangur hefur eitt  svokallað heimsvæði sem skiptist í stórt sameiginlegt kennslusvæði og nokkur minni lokuð rýmið ásamt vinnuastöðu fyrir kennara árgangsins.

Tónlist, sérgreinar og félagsstarf

Auk almennra kennslurýma verða sérgreinastofur í skólanum, s.s. heimilisfræði, smíði, myndmennt og textíl. Þær mynda sameiginlega eitt svæði í byggingunni með aðstöu fyrir sérgreinakennara.  Þá verða auk tónmenntastofu einnig litlar kennslustofur fyrir tónlistarkennslu, eins konar útibú frá tónlistarskóla bæjarins. Félagsmiðstöð fyrir unglinga hverfisins verður jafnframt í byggingunni. Lagt er upp úr aðgengi að þessum sérrýmum eftir lokun skóla á köldin til afnota fyrir íbúa hverfisins og annarra bæjarbúa vegna námskeiða, sem og tengsl við félagsmiðstöð.

Baldur segir að hönnun íþróttamannvirkja skólans standi nú yfir. „Það er gert ráð fyrir íþróttasal og sundlaug ásamt búningsherbergjum og þessi mannvirki eru ætluð jafnt fyrir skólastarf sem almenna notkun.“

Kennsla hefst á næsta ári

Áformað er að kennsla í Urriðaholtsskóla hefjist haustið 2016. Fram að því sækja börn sem búa í Urriðaholti einhvern hinna grunnskólanna í Garðabæ.  En almennt þá hafa  foreldrar í Garðabæ frjálst val um það hvern af skólum bæjarins þau velja að láta börn sín í.

Við hönnun skólans njóta arkitektarnir leiðsagnar rýnihóps þriggja skólastjórnenda í Garðabæ, ásamt starfsmönnum skólaskrifstofu bæjarins.  

„Þessi ráðgjöf er afar mikilvæg í öllu ferlinu,  því þarna fáum við leiðbeiningar og rýni frá þaulreyndum skólastjórnendum við að skapa ákjósanlegar aðstæður fyrir skólastarfið,“ segir Baldur að lokum.

29.01.2015

Staðarvísir Urriðaholts stuðlar að aðlaðandi umhverfi

Skipulagsráðgjafar, landslagshönnuðir, fulltrúar Garðabæjar og verktakar hittust á fjölmennum fundi þann 26. janúar til að ræða uppbyggingu Urriðaholts.  Ekki síst var rætt um hvernig best mætti tryggja að frágangur og ásýnd húsa og lóða í Urriðaholti verði í samræmi við skipulagsáherslur hverfisins.

Til að undirstrika þessar áherslur á staðarandann fékk Urriðaholt ráðgjafarfyrirtækið Alta til að taka saman Staðarvísi fyrir Urriðaholt. Staðarvísirinn er 50 blaðsíður og er einskonar leiðarvísir fyrir húsbyggjendur og hönnuði í umhverfishönnun hverfisins. Landslag ehf. og John Thompson & Partners (JTP) unnu með Alta að gerð Staðarvísisins. Staðarvísirinn er aðgengilegur hér á vef Urriðaholts.

Fegurðin liggur í smáatriðunum

Eric Holding, skipulagsráðgjafi hjá JTP í Bretlandi og landslagsarkitektarnir Heiða Aðalsteinsdóttir frá Alta og Þráinn Hauksson frá Landslagi sögðu á fundinum að mikilvægt væri að hugsa um smáatriðin til að ná tilætluðum árangri. Þau bentu á að fólk vildi vera í fallegu og skemmtilegu umhverfi og Urriðaholt væri hugsað þannig. Hins vegar þyrfti að fylgja því alla leið, með því að gleyma ekki fegurðinni í umhverfinu og þeim margvíslegu leiðum sem hægt er að fara til að ná þeim. Þar kemur Staðarvísirinn sterkur inn, því þar er að finna margvísleg dæmi og fyrirmyndir um skemmtilega hönnun og fallegan frágang.

Garðabær gengur í takt við framkvæmdir 

Gunnar Einarsson bæjarstjóri tók undir orð sérfræðinganna og sagði að Urriðaholt gæfi tóninn fyrir áherslur bæjarins í umhverfismálum. Urriðaholt væri mikilvæg fyrirmynd og engir afslættir yrðu gefnir á umhverfisáherslum í hverfinu. 
Eysteinn Haraldsson bæjarverkfræðingur í Garðabæ sagði að bærinn legði mikla áherslu á að sinna gatnagerð og öðrum opinberum framkvæmdum í takti við uppbygginguna. Hann sagði að gangstéttir og yfirborð á götum yrði klárað jafnóðum og því yrði við komið.

19.01.2015

702 íbúðir í uppbyggingu í Urriðaholti

Mikil uppbygging á sér nú stað í Urriðaholti. Framan af risu nokkur einbýlishús í hverfinu, en seinni hluta 2012 hófst bygging fjölbýlishúsa, fyrst við Holtsveg. Búið er að skipuleggja 404 íbúðir og eru 317 þeirra ýmist tilbúnar eða í byggingu. Um 15 verktakar eru þessa dagana að byggja fjölbýlishús í vesturhluta Urriðaholts og auk þess eru í gangi framkvæmdir við parhús, raðhús og einbýlishús.

Nú þegar eru fyrstu íbúarnir búnir að koma sér fyrir í fjölbýlishúsunum og gert er ráð fyrir að flutt verði inn í ca. helming þessara íbúða fyrir árslok.

Í skipulagsferli í Urriðaholti eru 298 íbúðir til viðbótar, við Mosagötu og norðurhluta 2. Hluti lóðanna verður byggingarhæfur í vor og hluti næsta haust.

Samtals gera þetta 702 íbúðir sem byrjað er að byggja eða verða byggðar í Urriðaholti næstu misseri.

01.11.2014

Fyrstu íbúðir í fjölbýli afhentar í Urriðaholti

Fyrstu íbúðirnar í fjölbýli í Urriðaholti voru afhentar eigendum síðastliðinn föstudag, 31. október. Um er að ræða þrjár tveggja og þriggja herbergja íbúðir að Holtsvegi 23-25, sem byggingafélagið Borgarhraun reisir. Hinir nýbökuðu íbúðareigendur eru öll ung að aldri og hæstánægð með að hafa valið Urriðaholtið til búsetu.

Lóa Fatou Einarsdóttir og Pétur Örn Svansson gerðu kauptilboð í júní síðastliðnum og ætla að flytja inn þegar búið er að leggja parket á íbúðina. Þau segjast strax hafa séð þá miklu möguleika sem Urriðaholtið býður upp á. 

„Staðsetningin er ótrúlega góð. Garðabær er skemmtilegt bæjarfélag, við erum nánast úti í náttúrunni en samt tekur ekki nema eina mínútu að komast út á stofnbraut sem tengist í allar áttir á höfuðborgarsvæðinu. Það eru sárafá ljós og engin hringtorg til að tefja aksturinn, þannig að maður er mjög fljótur í allar áttir. Við sjáum fram á að vilja kannski stækka við okkur eftir 5 ár og geta þá flutt innan hverfisins. Þess vegna finnst okkur í lagi þó að hverfið sé enn að byggjast upp, því að við vitum að við erum með góða eign í höndunum sem á bara eftir að verða verðmætari.“

Ísak Kristjánsson segist hafa skoðað ýmsa möguleika áður en hann ákvað að kaupa í Urriðaholtinu. Hann nefnir það sama og Lóa og Pétur, hvað samgöngur séu greiðar. „Ég starfa inni í Sundahöfn og leiðin þangað er mjög bein og fljótfarin, sem mér finnst mikill kostur. Svo er þetta auðvitað frábært útsýni hérna.“

Þórólfur Ólafsson og Sonja Sól Guðjónsdóttir flytja í íbúð sína ásamt fjögurra ára gamalli dóttur. Þau segja að bygging skóla og leikskóla smellpassi fyrir þau og nefna einnig hvað stutt sé í alla þjónustu, þar á meðal í Bónus og Ikea í Kauptúni. Þau Þórólfur og Sonja fá heilmikinn „aukabónus“ með íbúð sinni, því þau geta gengið beint úr henni út á þak bílastæðahússins, sem er töluvert stærra en sjálf íbúðin. Ekki amalegar svalir það.

Nýju íbúðareigendurnir eru öll á einu máli um hversu fallegt og gott útsýnið er yfir Urriðavatn og hrauntangann og alla leið út á sjó. 

Alls eru 19 íbúðir í þessu fyrsta fjölbýlishúsi sem er tilbúið til íbúðar í Urriðaholtinu, frá 75 til 182 fermetrar að stærð.

Íbúðareigendurnir sem tóku við fyrstu íbúðunum. Frá vinstri: Sonja Sól Guðjónsdóttir og Þórólfur Ólafsson, Ísak Kristjánsson, Lóa Fatou Einarsdóttir og Pétur Örn Svansson.

Nýju íbúðareigendurnir ásamt þeim Kristjáni Magnasyni og Huldu Sif Þorsteinsdóttur frá Borgarhrauni.

Foreldrar Ísaks, þau Ólöf Helgadóttir og Kristján Pálsson, samfögnuðu honum við afhendingu íbúðarinnar.

Sonja og Þórólfur ásamt föður Sonju, Guðjóni Gestssyni sem iðaði í skinninu eftir að hjálpa til.

Lóa Fatou Einarsdóttir og Pétur Örn Svansson í eldhúsinu á nýju íbúðinni - og það er erfingi á leiðinni.

Íbúðunum er skilað án gólfefna, en með eldavél og bakarofni.

15.10.2014

Deiliskipulag 2. áfanga Urriðaholts kynnt til sögunnar

Almennur kynningarfundur á drögum að deiliskipulagi 2. áfanga Urriðaholts var haldinn þriðjudaginn 14. október í Flataskóla. Skipulagsnefnd Garðabæjar stóð að kynningunni. Að auki voru kynntar tillögur að breytingum á deiliskipulagi vesturhluta Urriðaholts sem nær til Mosagötu. 

Um var að ræða forkynningu á deiliskipulagstillögunni. Hún gerir ráð fyrir 161-181 íbúðareiningum í blandaðri byggð. Þar af verða um 121 til 141 íbúð í fjölbýli, 24 í raðhúsum, 12 í parhúsum og 4 í einbýlishúsum. Leitast er við að skapa fjölbreytni í húsgerðum og lifandi tengsl bygginga og göturýma. Hæð og fyrirkomulag húsa leitast við að taka mið af skjólmyndum eftir því sem hægt er og að sólar og útsýnis njóti sem víðast.

Deiliskipulagssvæðið liggur í norðurhlíð Urriðaholts á milli Urriðaholtsstrætis í norðri og græns geira í suðri. Að vestanverðu afmarkast það af Holtsvegi og að austanverðu af Brekkugötu. Skipulagssvæðið er um 5 ha óbyggt svæði og þar er gert ráð fyrir blandaðri íbúðarbyggð með einbýli, parhúsum, raðhúsum og fjölbýlishúsum.

Tillögurnar eru aðgengilegar á heimasíðu Garðabæjar, gardabaer.is og á heimasíðu Urriðaholts, urridaholt.is. Hér að neðan eru krækjur á tillögurnar.

Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á því að koma með ábendingar sem verða teknar til umfjöllunar við endanlega mótun tillögunnar. Skal þeim skilað skriflega til skipulagstjóra Garðabæjar fyrir 29. október.

25.09.2014

Urriðaholt fyrst til að sækjast eftir vistvottun skipulags

Um þessar mundir er unnið að því að vistvotta skipulag Urriðaholts í Garðabæ. Þetta er í fyrsta sinn sem unnið er að vistvottun skipulags á Íslandi og er það gert samkvæmt alþjóðlega vottunarkerfinu Breeam Communities, sem er leiðandi á þessu sviði í heiminum.

Í tilefni af viku vistvænna bygginga bauð Vistbyggðarráð uppá  kynningarfund um þetta verkefni þann 23. september. Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ kynnti Urriðaholtið og skipulag þess, breskir ráðgjafar frá Breeam Communities sögðu frá vottunarkerfinu og Ólöf Kristjánsdóttir frá Mannviti fór yfir ferlið við vottunina.

Sigríður Björk Jónsdóttir, framkvæmdastýra Vistbyggðarráðs, stýrði fundinum sem haldinn var í húsi Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti. Hús NÍ hefur fengið hefur Breeam vottun og er annað af tveimur húsum hér á landi sem hefur þessa vottun.

Á kynningarfundinum var jafnframt kynntur nýútkomin bæklingur Vistbyggðarráðs um vistvænt skipulag.

18.09.2014

Kynningarfundur um vistvottun skipulags í Urriðaholti

Í tilefni af viku vistvænna bygginga 22.-27. september, býður Vistbyggðarráð upp á opinn kynningarfund um vistvottun skipulags skv. alþjóðlega vottunarkerfinu Breeam Communities. Unnið er eftir því við skipulag Urriðaholts í Garðabæ. Jafnframt verður kynntur nýútkomin bæklingur Vistbyggðaráðs um vistvænt skipulag.

Á síðustu árum hefur vitund almennings um umhverfismál vaxið mjög hratt og hafa skipulagsyfirvöld í auknum mæli lagt áherslu á umhverfis- og samfélagsmál í sinni skipulagsvinnu. Erlendis hafa orðið til alþjóðlegir staðlar sem veita leiðsögn og mæla frammistöðu. Í Evrópu hefur Breeam Communities staðallinn  verið leiðandi og nú er í fyrsta sinn á Íslandi unnið eftir þeim staðli við skipulagsvinnu Urriðholts í Garðabæ.

Fundurinn er öllum opinn og verður haldinn í húsnæði Náttúrfræðistofnunar Íslands við Urriðaholtsstræti 6-8, þriðjudaginn 23. sept kl. 16.30-18.00.

Dagskrá:

 • Garðabær - Urriðaholt. Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ.
 • Breeam Communities vottunarferlið. Cary Buchanan og Tom Hyde, ráðgjafar hjá Building Research Establishment (BRE).
 • Framkvæmd vottunar í Urriðaholti. Ólöf Kristjánsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá Mannviti og matsaðili Breeam Communities vottunar.
 • Vistvænt skipulag og Vistbyggðarráð. Sigríður Björk Jónsdóttir framkvæmdastýra Vistbyggðarráðs.
 • Fyrirspurnir og umræður 

26.05.2014

Mikill áhugi á nýjum íbúðum í Urriðaholti

Fjöldi fólks leit inn á kynningu á nýjum íbúðum í Urriðaholti hjá fasteignasölunum Torg og Borg um helgina. Kynningin var þáttur í „Karnivali í Kauptúni“ sem fyrirtækin í Kauptúni stóðu fyrir dagana 24. og 25. maí.

Íbúðir í tveimur fjölbýlishúsum í Urriðaholti eru komnar í sölu og kynntu fasteignasölurnar þær fyrir gestum og gangandi. Þrátt fyrir óhagstætt veðurfar um helgina var fjöldi manns á ferðinni og sýndu margir þessum nýja og spennandi valkosti í húsnæðismálum áhuga. Einnig var spurt um einbýlishúsa- og parhúsalóðir, en nokkrar slíkar eru enn til sölu í Urriðaholti.

Þó skammt sé síðan kynning og sala á íbúðum hófst, þá er þegar búið að ganga frá sölu á fyrstu íbúðinni í Urriðaholti, að Holtsvegi 31-33.

Nánari upplýsingar um íbúðir og lóðir til sölu er að fá hjá fasteignasölunni Torg, sími 520-9595 og fasteignasölunni Borg, sími 519-5500.

21.05.2014

Fyrsta reisugillið í fjölbýlishúsi í Urriðaholti

Fyrsta fjölbýlishúsið er risið í Urriðaholti í Garðabæ og var því fagnað með viðeigandi reisugilli. Borgarhraun ehf. byggir húsið, sem er að Holtsvegi 23-25, með 18 íbúðum frá 75 til 180 fermetrum að stærð.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar ávarpaði gesti í reisugillinu og sagði einstaklega ánægjulegt að sjá þann kraft sem kominn er í uppbyggingu Urriðaholts. Gunnar sagði að bæjarfélagið fagnaði nýjum íbúum og að bygging skóla í Urriðaholti væri í takt við framkvæmdir í hverfinu, en skólinn mun taka til starfa haustið 2016. 

Fleiri fjölbýlishús eru í byggingu í hverfinu og er sala íbúða hafin í tveimur þeirra, að Holtsvegi 23-25 og Holtsvegi 31-33.

01.05.2014

Sala fyrstu íbúða að hefjast í Urriðaholti

Sala fyrstu íbúða í fjölbýli er að hefjast í Urriðaholti. Um tímamót er að ræða í hverfinu og er gert ráð fyrir hraðri uppbyggingu þess á næstu árum. Meðal annars mun nýr skóli taka til starfa í Urriðaholti haustið 2016.

Fyrstu íbúarnir fluttu í Urriðaholt árið 2010 og framkvæmdir við fyrstu fjölbýlishúsin hófust í fyrra. Þær íbúðir sem nú koma í sölu eru að Holtsvegi 31-33, en þar er um að ræða 18 íbúðir frá 85 til 150 fermetrar að flatarmáli.

Þegar Urriðaholt verður fullbyggt er reiknað með að íbúar verði um 5 þúsund talsins og fjöldi íbúða um 1.500. Skipulag Urriðaholts tekur mið af nálægðinni við einstök og náttúrurík landgæði, en þar á meðal má nefna útsýni yfir Urriðavatn og afar fjölbreytta möguleika til útivistar. Leiðarljós skipulagsins er aðlaðandi  borgarumhverfi sem skapar umgjörð um lífsgæði og fjölbreytt mannlíf í samspili við einstaka náttúru svæðisins. Þess má geta að skipulagið hefur hlotið fjölmörg verðlaun, þar á meðal hin alþjóðlegu lífsgæðaverðlaun LivCom og skipulagsverðlaun Boston Society of Architects.

28.03.2014

Bjartsýnin smitar yfir á síður Morgunblaðsins

Á baksíðu Morgunblaðsins í dag er viðtal við Grím Halldórsson, einn af verktökum við byggingu nýrra fjölbýlishúsa í Urriðaholti. Þar er sagt frá uppbyggingunni sem nú á sér stað í Urriðaholtinu og segir Grímur ekki seinna vænna en að nýjar íbúðir komist á markaðinn til að mæta mikilli eftirspurn. Um leið hvetur Grímur stjórnvöld til að huga að úrræðum fyrir ungt fólk til að geta eignast þak yfir höfuðið, því að svigrúmið sé einfaldlega ekki nógu mikið.

Það er ljóst að bjartsýni er vaxandi um að uppbygging sé að komast í réttar skorður, samanber ummæli Gríms og sú bjartsýni smitast í gegn í umfjöllun Morgunblaðsins.

24.03.2014

Góður hugur í byggingaverktökum í Urriðaholti

Verktakar nýrra fjölbýlishúsa í Urriðaholti hittust í síðustu viku til að ræða stöðu mála við þá Gunnar Einarsson bæjarstjóra Garðabæjar og Jón Pálma Guðmundsson, framkvæmdastjóra Urriðaholts ehf. Góður hugur var í mannskapnum á fundinum, enda eru margar bygginganna langt komnar og styttist í að sala fyrstu íbúðanna fari að hefjast.

Verktakarnir eiga það sameiginlegt að vera að reisa lítil fjölbýli, yfirleitt þriggja hæða með bílageymslum og lyftum. Eitt húsanna er nánast uppsteypt. Íbúðir í húsunum eru frá 80 til 145 fermetrar.

Á fundinum ræddi Gunnar Einarsson bæjarstjóri sérstaklega um byggingu skóla í Urriðaholti, en hönnun hans er þegar hafin. Gunnar sagði að leikskóli og grunnskóli myndu taka til starfa haustið 2016, en í millitíðinni gætu foreldrar barna í Urriðaholti valið í hvaða skóla börn þeirra gengju. 

Fundarmenn voru sammála um að Urriðaholt byði upp á eftirsóknarverð gæði fyrir verðandi íbúa. Þar á meðal mætti nefna fallegt útsýni yfir Urriðavatn úr sólríkri hlíðinni, nálægð við útivistarperlur og golfvöll og miðlæga staðsetningu á höfuðborgarsvæðinu. 
Ekki spillti fyrir að vera í Garðabæ, þar sem ríkir metnaður fyrir velferð bæjarbúa.

Til viðbótar við þær rúmlega 100 íbúðir sem nú er verið að byggja í Urriðaholti hefur verið ákveðið að hefja framkvæmdir við byggingu annars eins fjölda íbúða í haust.

19.02.2014

Samið um hönnun Urriðaholtsskóla

Búið er að semja um hönnun á Urriðholtsskóla og var ráðgjafarsamingur um þess efnis undirritaður þann 14. febrúar.  Eftirtaldir aðilar mynda hönnunarhópinn: Landform, VEB - teiknistofa, Lagnatækni, Verkhönnun, VSÍ, öryggishönnun og ráðgjöf og Önn ehf.

Samkvæmt áætlun hönnunarhópsins skal fullnaðarhönnun fyrsta áfanga lokið 1. desember á þessu ári og útboð jarðvinnu skal fara fram 1. október næstkomandi.

Í útboðsgögnum kemur fram að miðað er við að byggingin fullbyggð rúmi sex deilda leikskóla með um 120 heilsdagspláss og grunnskóla fyrir allt að 700 börn á grunnskólaaldri. Áformað er að reisa skólabygginguna í áföngum þannig að í fyrsta áfanga verði um 100 heilsdagspláss fyrir  börn á leikskólaaldri og rými fyrir um 250 börn á grunnskólaaldri (1.-10. bekk).

Lagt er til að verkefnisstjórn sem vann að gerð útboðslýsingar starfi áfram og stýri verkefninu. Í henni eru:  Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Eysteinn Haraldsson bæjarverkfræðingur, Margrét Björk Svavarsdóttir, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs  og Jón Pálmi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Urriðaholts.

Einnig er lagt að bæjarráð skipi byggingarnefnd vegna framkvæmda við byggingu skólans.

10.02.2014

Verktakar blóta Þorra með bros á vör

Verktakar tóku sér nýlega stutta pásu frá byggingaframkvæmdum við fjölbýlishúsin í Urriðaholti til að blóta Þorra og ræða stöðu mála. Bygging ehf. og  Pétur og Kristinn ehf. buðu til þorrablótsins í vinnuskúr P&K við Hraungötu 1 og mættu þeir verktakar sem áttu heimangegnt.

Angan af súru slátri og vel kæstum hákarli lagði um vinnuskúrinn og það var létt yfir mönnum. Verktakarnir sögðust bjartsýnir á horfurnar og sögðu að bygging húsanna gengi mjög vel. Þau eru misjafnlega langt á veg komin, en ljóst að framkvæmdum við þau öll lýkur á þessu ári. Þá styttist ennfremur í að sala íbúða hefjist.

17.01.2014

Fjölbýlishúsin rísa hvert af öðru í Urriðaholti

Uppsteypa fyrstu fjölbýlishúsanna í Urriðaholti stendur yfir um þessar mundir. Búið er að steypa grunna sjö húsa með samtals rúmlega 100 íbúðum. Í einu húsanna er þegar búið að steypa þrjár hæðir og við önnur stendur mótasmíði sem hæst.

Nýju fjölbýlin einkennast af því að vera fremur lítil í sniðum, fáar íbúðir í hverjum stigagangi og að meginhluta eru þrjár íbúðarhæðir. Íbúðastærð er á bilinu 80-130 fermetrar.

Í sumar hefst svo næsta hrina bygginga fjölbýla í Urriðaholti. Um 100 íbúðir verða í þeim áfanga, sem rís í vestanverðu Urriðaholti með glæsilegu útsýni yfir Garðabæ og Faxaflóa.

Upplýsingar um staðsetningu fjölbýlishúsanna sem eru í byggingu má finna í flipa á forsíðu undir heitinu „Íbúðir til sölu.“ Upp kemur kort af Urriðaholti sem sýnir staðsetninguna og með því að smella á merki fyrir viðkomandi hús sjást nánari upplýsingar.

25.11.2013

Uppbygging skóla að hefjast í Urriðaholti

Garðabær hefur auglýst eftir áhugasömum ráðgjöfum til að taka þátt í útboði á hönnun vegna nýbyggingar skóla í Urriðaholti. Leitað er að hönnunarhópum þar sem m.a. er að finna arkitekta, verkfræðinga, landslagsarkitekta og vottaða BREEAM ráðgjafa.

Áformað er að ganga til samninga við hönnunarhóp í janúar 2014. Framkvæmdir verða boðnar út í ágúst 2014 og reiknað er með að byggingu fyrsta áfanga skólans verði lokið í apríl 2016.

Uppbygging kallar á skóla
Garðabær ákvað að ráðast í skólabygginguna í kjölfar þeirrar uppbyggingar sem á sér stað í Urriðaholti um þessar mundir. Nú þegar er hafin bygging rúmlega eitt hundrað íbúða í fjölbýli og á næsta ári er gert ráð fyrir 150 íbúðum í fjölbýli til viðbótar. Auk þess hafa einbýlis- og parhús risið eða eru í byggingu.

Leikskóli og grunnskóli fyrir allt að 820 börn
Miðað er við að fullbyggður rúmi skólinn í Urriðaholti sex deildir leikskóla með um 120 heilsdagsplássum og grunnskóla fyrir allt að 700 börn á grunnskólaaldri. Í fyrsta áfanga verða um 100 heilsdagspláss fyrir börn á leikskólaaldri og rými fyrir um 250 börn á grunnskólaaldri upp í 10. bekk.

Töluverður undirbúningur hefur átt stað í uppbyggingu skólastarfs í Urriðaholti. Strax í upphafi voru lagðar ákveðnar línur í rammaskipulagi Urriðaholts og á árinu 2008 fór fram umtalsverð undirbúningsvinna á vegum mennta og menningasviðs Garðabæjar í samstarfi við arkitekta og ráðgjafa. 

Samstarf um uppbygginguna
Garðabær og Urriðaholt ehf. hafa gert með sér samstarfssamning um uppbyggingu byggðar í Urriðaholti og er þar gert ráð fyrir að Urriðaholt verði virkur þátttakandi í undirbúningi skóla- og íþróttamannvirkja. Jafnframt er þar ákvæði um áherslur í umhverfismálum og hefur Garðabær samþykkt sérstaka umhverfisstefnu fyrir skóla í Urriðaholti. Vegna þessara áhersluatriða í uppbyggingu Urriðaholts áformar Garðabær að fá BREEAM vottun fyrir skólabygginguna.

16.07.2013

Bygging fjölbýlishúsa

Bygging 15 lítilla fjölbýlishúsa er hafin í Urriðaholti. Átta verktakafyrirtæki standa að byggingu húsanna og er jarðvegsframkvæmdum lokið.

Alls verða 103 íbúðir í fjölbýlishúsunum, en þær rísa við Holtsveg með útsýni yfir Urriðavatn, Hafnarfjörð og út á Reykjanes. Stærð íbúðanna er á bilinu 80 til 145 fermetrar og flestum þeirra fylgja stæði í bílageymslum. Byggingarnar liggja allar á sama svæðinu hlið við hlið og lögð er áhersla á að byggingar rísi allar samtímis til að samhliða verði hægt að ganga endanlega frá götum, gangstígum og opnum svæðum og að væntanlegir íbúar búi ekki við byggingaframkvæmdir sér við hlið í mörg ár.

Mikill áhugi verktaka á byggingu fjölbýlis gefur nú góð fyrirheit um hraða uppbyggingu í Urriðaholti. M.a. hefur Garðabær ákveðið að hefja byggingu skóla í Urriðaholti á næsta ári og stefnt er að skólastarf geti hafist haustið 2015.

31.10.2012

Framkvæmdir hafnar við fjögur lítil fjölbýlishús í Urriðaholti

Framkvæmdir eru hafnar á fjórum lóðum við Holtsveg en um er að ræða fyrstu framkvæmdir við fjölbýli í hverfinu.  Þar er áformað að reisa fjögur lítil fjölbýlishús, með 8 íbúðum hvert, samtals 32 íbúðir.

03.09.2012

Betri strætósamgöngur við Urriðaholt

Leiðakerfi Strætó er nú betur tengt við Urriðaholt en áður. Komin er bein tenging við Mjóddina  og skiptir mestu að  þaðan eru allir vegir færir.  

Leið 21 ekur nú alla daga vikunnar á hálftíma fresti nema sunnudaga og tekur ferðin einungis 9 mínútur.  Þetta er að sjálfsögðu veruleg samgöngubót fyrir hátt í þá 500 manns sem nú þegar starfa í Urriðaholti og ennfremur mun þetta skipta máli við uppbyggingu íbúðarbyggðar í hverfinu.

25.04.2012

Málþing um sjálfbært vatnafar í byggð

Málþing um sjálfbært vatnafar í byggð, eða svokallaðar blágrænar lausnir, var haldið í húsi Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti í Garðabæ þann 24. apríl 2012. Málþingið var vel sótt en það sátu um 80 manns.

Málþingið var haldið á vegum Garðabæjar, Norges teknisk-naturvitenskapelige universitet í Þrándheimi, Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands, Urriðaholts og Vatns- og fráveitufélags Íslands (VAFRÍ).

Blágrænu lausnirnar voru ræddar og innleiðing þeirra í borgum og bæjum. Þær gefa m.a. einstakt tækifæri til að nýta regnvatn „það bláa“ til að auka gróður „það græna“, þannig að byggða umhverfið verði samtvinnaðra því náttúrulega.  Blágrænar lausnir eru hluti þeirra innviða sem byggja þarf upp til að auka sjálfbærni í byggð. Slíkum lausnum var beitt við skipulag í Urriðaholti í Garðabæ og þar má nú þegar sjá framkvæmd þeirra.

Allar upplýsingar um fyrirlestra og annað efni málþingsins má nálgast hér

13.04.2012

Lífsgæði í blágrænu umhverfi í Urriðaholti

Urriðaholt tekur þátt í málþingi um blágrænar lausnir í meðhöndlun yfirborðsvatns sem haldið verður mánudaginn  23. apríl 2012 kl. 15:00 í húsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti. Þar mun m.a. Halldóra Hreggviðsdóttir kynna blágrænar lausnir í Urriðaholti. Skráning fer fram á gardabaer@gardabaer.is.

Sjá nánar (PDF)

30.12.2011

Fornleifar í Urriðaholti

Á aðalfundi Hins íslenzka fornleifafélags þann 8.  desember 2011 hélt Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur erindi um fornleifauppgröft í Urriðakoti. Fram kom að þar hafa fundist minjar sem tengjast seljabúskap á 10 og 11 öld og nokkra metra þar frá minjar frá miðöldum. Á eldra minjasvæðinu má greina skála og fjós, auk soðholu en á því nýrra eru baðstofa, búr, eldhús og skemma. Nokkrir munir hafa fundist við uppgröftinn, þ.á.m. snældusnúðar, brýni og bökunarhellur. Merkastur er þó e.t.v. silfurhringur frá víkingaöld en aðeins 5 aðrir svipaðir hringir hafa fundist hér á landi.

Vitað var um fornleifarnar þegar byggðin á Urriðaholti var skipulögð og gerir skipulagið ráð fyrir því að fornleifarnar varðveitist.

09.03.2011

Þúsundir komu í opið hús hjá Náttúrufræðistofnun

Þrátt fyrir ausandi rigningu og hvassviðri komu 5-6 þúsund manns í opið hús hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í Urriðaholti laugardaginn 5. mars. Húsið var þéttfullt af fólki allan daginn, ekki síst barnafjölskyldum. Mikill áhugi var fyrir hinum fjölbreyttu fræðastörfum sem fram fara hjá Náttúrufræðistofnun og höfðu starfsmenn vart undan að svara spurningum. Hér er hlekkur á myndband frá opna húsinu.

Náttúrufræðistofnun flutti inn í hin nýju heimkynni í Urriðaholti í lok síðasta árs. Húsið er fyrsti vísir að uppbyggingu skrifstofu- og þjónustustarfsemi í Urriðaholti. Það er sérstaklega sniðið utan um starfsemi stofnunarinnar, en hins vegar er þar lítil sem engin sýningaraðstaða.

Allir krókar og kimar voru nýttir í opna húsinu til að sýna náttúrugripi og kynna starfsemina. Í matsalnum sátu börn og lituðu, settu saman gogga með dýramyndum eða skreyttu sig með fuglagrímum. Sagt var frá spennandi verkefni sem nú stendur yfir hjá stofnuninni, að gera beinagrind af steypireyð, stærstu skepnu jarðar, tilbúna til sýningar. Hér er hlekkur á myndband um þetta verkefni.

Geirfuglinn, sem íslenska þjóðin keypti á uppboði í London fyrir 40 árum, vakti einnig mikla athygli eins og vænta mátti.

Arkitektar hússins, Björn Guðbrandsson og Egill Guðmundsson frá Arkís, sátu fyrir svörum um hönnun þess og hugmyndafræðina á bak við BREEAM umhverfisvottun hússins. Gestir höfðu mörg orð um hvað þeim fannst húsið vel heppnað og við hæfi starfseminnar. Ekki var minni áhugi fyrir kynningu Halldóru Hreggviðsdóttur frá ráðgjafarfyrirtækinu Alta á skipulagi Urriðaholts og þeim tækifærum sem hverfið býður upp á.

Hinn mikli áhugi á starfsemi Náttúrufræðistofnunar minnir að sjálfsögðu á þá óþægilegu staðreynd að engin sýningaraðstaða er fyrir hendi hér á landi fyrir náttúrugripi. Starfsemi Náttúruminjasafns liggur í láginni en margir hafa vakið máls á því að safninu væri best komið við hlið Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti.

Urriðaholt ehf. hefur látið teikna tillögu að sýningarhúsnæði fyrir Náttúruminjasafn. Ef áhugi reynist á því að fara þessa leið er hægt að hefja framkvæmdir með litlum fyrirvara, enda er lóðin tilbúin og skipulag frágengið.

Margt mælir með því að hafa sýningarhúsnæði fyrir náttúruminjar við hlið Náttúrufræðistofnunar, enda eru gripirnir allir varðveittir hjá stofnuninni. Umsýsla með gripina yrði því öll einfaldari en ef safnið yrði staðsett annars staðar og hægt að vera með afar fjölbreyttar sýningar hverju sinni.

Urriðaholt er miðsvæðis á suðvesturhorni landsins. Meirihluti gesta í náttúrugripasöfnum eru skipulagðir hópar skólafólks og ferðamanna sem koma með rútum, þannig að staðsetningin er síður en svo óhentug. Það virðist heldur ekki þvælast fyrir fólki að leggja leið sína í ýmsar af þeim vinsælu verslunum sem eru í Kauptúni, steinsnar frá.

19.12.2010

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur til starfa í Urriðaholti

Náttúrufræðistofnunar Íslands opnaði formlega í nýjum heimkynnum í Urriðaholti föstudaginn 17. desember. Nýja húsið er sérstaklega hannað fyrir starfsemi stofnunarinnar og er fyrsti vísir að uppbyggingu fjölbreyttrar skrifstofu- og þjónustustarfsemi í Urriðaholti.

Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, sagði við opnunina að hin nýju heimkynni í Urriðaholti væru mikið framfaraspor, ekki síst þegar kemur að öruggri varðveislu verðmætra náttúrusýna og aðgengi að þeim til rannsókna.

Með hliðsjón af eðli starfsemi Náttúrufræðistofnunar var mikil áhersla lögð á að hönnun hússins grundvallaðist á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Að frumkvæði Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra var ákveðið að fá húsið umhverfisvottað miðað við BREEAM, sem er evrópskt vottunarferli fyrir vistvænar byggingar.

Fjöldi gesta var við opnunina. Ávörp fluttu Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ, Eyþór Einarsson elsti starfsmaður Náttúrufræðistofnunar, Ólafur Helgi Ólafsson stjórnarformaður Náttúrufræðihúss ehf. og Jón Gunnar Ottósson forstjóri NÍ.

Áformað er að hafa opið hús hjá Náttúrufræðistofnun snemma á næsta ári.

Húsið

Bygging húss Náttúrufræðistofnunar hófst í október 2009. Arkís hannaði húsið og Ístak var aðalverktaki við bygginguna. Húsið er sérstaklega sniðið utan um starfsemi Náttúrufræðistofnunar. Það er 3.500 fermetrar að stærð og nýjustu tækni er beitt til að tryggja varðveislu náttúrugripa, sem margir eru mjög verðmætir og sjaldgæfir.

Glerhjúpur setur sterkan svip á bygginguna og er helsta einkenni hennar. Auk þess myndar hann veðurhlíf um bygginguna og tryggir betur virkni náttúrulegrar loftræstingar, jafnvel í verstu veðrum.

Tveir meginstigar á milli allra hæða eru í byggingunni. Þau rými mynda eins konar gjá með brúm á milli innri rýma og leggja einnig áherslu á þrískipt form hússins.

Gjörbreytt starfsumhverfi

„Hlutverk Náttúrufræðistofnunar í íslensku þjóðfélagi er mjög þýðingarmikið og fer vaxandi og nú er stofnunin enn betur í stakk búin til að sinna því hlutverki sem henni er ætlað,“ segir Jón Gunnar Ottósson forstjóri.

„Nýja húsnæðið í Urriðaholti gjörbreytir öllu starfsumhverfi stofnunarinnar og bætir mjög aðstöðu til rannsókna, fræðslu og varðveislu gripa. Helsta breytingin er sú að umfangsmikil og verðmæt gripasöfn stofnunarinnar komast loks í viðunandi húsnæði. Safnaskálar bjóða upp á fullkomnustu aðstöðu fyrir varðveislu gripa og uppfylla strangar öryggiskröfur þar sem brunavarnir eru fyrsta flokks ásamt nákvæmu eftirliti með loftræstingu, hita og raka.

Í fyrsta skipti verður hægt að veita vísindamönnum og nemendum aðgang að söfnum til rannsókna. Einnig er þetta í fyrsta skipti í rúmlega 120 ára sögu stofnunarinnar sem hún getur boðið starfsfólki sínu upp á frambærilegar rannsóknarstofur,“ segir Jón Gunnar einnig.

Vottun og viðurkenningar

Hús Náttúrufræðistofnunar er eitt af fyrstu húsum hér á landi til að fá alþjóðlegu BREEAM umhverfisvottunina. Vottunin tekur til þeirra þátta byggingarinnar sem lágmarka neikvæð umhverfisáhrif hennar og stuðla að sjálfbærni. Rammaskipulag Urriðaholts fékk árið 2007 verðlaun fyrir áherslu á lífsgæði í borgarskipulagi, frá Alþjóðasamtökunum LivCom, sem njóta stuðnings UNEP, Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Upplifun í anddyrinu

Í anddyri húss Náttúrufræðistofnunar geta gestir og gangandi notið vídeólistaverka sem tengjast íslenskri náttúru. Í gólf anddyrisins hefur verið fellt listaverkið Lægð, sem er spírall úr messing og táknmynd fyrir lægðakerfin sem móta náttúru landsins. Spírallinn skírskotar einnig almennt til tengsla náttúru og vísinda, enda er þetta form víða að finna í náttúrunni.

Skipulag í Urriðaholti

Skipulag í Urriðaholti í Garðabæ er blanda af verslunum og þjónustu í Kauptúni, íbúðabyggð í sunnanverðu holtinu og atvinnuhúsnæði að norðanverðu, auk menningar- og samfélagsþjónustu á háholtinu. Hús Náttúrufræðistofnunar er fyrsti vísir að uppbyggingu fjölbreyttrar skrifstofu- og þjónustustarfsemi í Urriðaholti.

Umhverfið í holtinu er einstakt. Mikil nálægð er við náttúruna, þar er fallegt útsýni, náttúruleg umgjörð, einstök staðsetning og gott aðgengi að meginumferðaræðum höfuðborgarsvæðisins.

Um Náttúrufræðistofnun Íslands

Náttúrufræðistofnun á rætur að rekja til ársins 1889, þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað. Á Náttúrufræðistofnun Íslands í Garðabæ og á Akureyri starfa rúmlega 50 manns við margvíslegar rannsóknir og vöktun á náttúru landsins. Þá sinnir stofnunin ráðgjöf um landnotkun og nýtingu náttúruauðlinda sem og fræðslu til skóla og almennings.

Vefsetur Náttúrufræðistofnunar www.ni.is

14.06.2010

Borað fyrir jarðskautum fyrir 5-víra rafkerfið

Borun er lokið fyrir sjö jarðskautum í Urriðaholti til að tryggja sem bestar jarðtengingar fyrir 5-víra dreifikerfi rafmagns í hverfinu. Borað hefur verið niður á allt að 80 metra dýpi til að ná sem bestum árangri.

Brynjólfur Snorrason hjá Orkulausnum hefur umsjón með verkefninu í samstarfi við Hitaveitu Suðurnesja. Brynjólfur hefur í gegnum tíðina verið mikill baráttumaður fyrir því að draga úr svokallaðri rafmengun, sem skapast oftast vegna lélegra jarðtenginga og ónógrar spennujöfnunar.

Það er jarðborunarfyrirtæki Árna Kópssonar sem hefur séð um að bora fyrir jarðskautunum. Brynjólfur hefur verið viðstaddur allar boranir, til að mæla árangurinn og taka ákvarðanir um framvinduna.

„Ég mæli viðnámið í holunum á nokkurra metra bili. Eftir því sem viðnámið mælist lægra, þess betri verður jarðtengingin,” segir Brynjólfur.

„Jarðlögin hafa mikil áhrif á það hversu djúpt þarf að bora til að fá bestu jarðtengingu. Í mýrlendum jarðvegi þarf ekki að fara djúpt, en hér í Urriðaholtinu er það yfirleitt ekki fyrr en á 80 metra dýpi sem viðnámið er nógu lágt til að gefa bestu mögulegu jarðtengingu.”

Að borun lokinni er jarðskautavír settur niður í borholuna og tengdur við nálægan tengiskáp Hitaveitu Suðurnesja. Jarðtengingin fer um sérstakan vír - fimmta vírinn - inn í hvert einasta hús í Urriðaholtinu.

Hefðbundin rafdreifikerfi hafa fjóra leiðara (eða víra) en í 5-víra rafdreifikerfi hefur fimmti vírinn bæst við og gegnir eingöngu hlutverki jarðtengingar.

“Markmiðið með 5-víra rafdreifikerfinu er að stuðla að spennujöfnun og bæta jarðbindingu. Þannig er dregið úr líkum á ójöfnu flæði rafmagns og svokallaðri yfirtíðnibjögun. Þetta er í einu orði kallað rafmengun, sem getur orsakað ójafnvægi í umhverfinu og haft neikvæð áhrif á heilsufar manna og dýra,” segir Brynjólfur.

„Þegar hús eru illa spennujöfnuð og illa jarðtengd, þá hreinlega líður fólki ekki nógu vel,” segir hann. „Stundum finnst þessi vanlíðan á ákveðnum stöðum innanhúss, þar sem spennujöfnun er áfátt eða yfirtíðnibjögun vegna skorts á jarðtengingum. Þetta sést til dæmis á því að ló og ryk safnast fyrir á ákveðnum stöðum, sprungur myndast í veggjum, móða á milli glerja, málning flagnar eða að tæki bila óeðlilega mikið. Fólk getur fundið fyrir þreytu og sleni eða hreinlega orðið veikt við slíkar aðstæður og dýr eru mjög næm fyrir þeim.”

13.04.2010

Fyrstu íbúarnir fluttir í Urriðaholtið

Fjölskylda Hafsteins Guðmundssonar og Steinunnar Bergmann er sú fyrsta sem flytur í Urriðaholtið, nánar tiltekið í einbýlishúsið að Keldugötu 7. Af því tilefni kom Jón Pálmi Guðmundsson framkvæmdastjóri Urriðaholts ehf. í heimsókn og færði fjölskyldunni glaðning um leið og hann óskaði þeim til hamingju með að vera fyrst til að flytja í þetta nýjasta hverfi Garðabæjar.

Óhætt er að segja að Keldugata 7 iði af lífi þessa dagana, því auk 6 manna fjölskyldunnar eru tveir hundar á heimilinu. Húsið er ekki fullbúið að innan, þannig að fjölskyldan hefur hreiðrað um sig á neðri hæðinni á meðan sú efri er tekin í gegn.

„Við ætluðum ekki að flytja svona fljótt inn, en samningur um leiguhúsnæðið sem við bjuggum í var útrunninn þannig að við létum slag standa,” segir Hafsteinn.

Fjölskyldan bjó áður í Krókamýri í Garðabæ en þurfti að stækka við sig húsnæði. Þar sem ekki kom til greina að fara úr Garðabænum var ráðist í að kaupa lóðina á Keldugötu og byrjað að byggja.

„Við seldum fyrra húsn&eelig;ði fyrir bankahrunið haustið 2008 og höfum búið í leiguíbúð á meðan á byggingaframkvæmdum hefur staðið,” segja þau Hafsteinn og Steinunn. Lóðina keyptu þau fyrir rúmum tveimur árum en framkvæmdir hófust í desember 2008.

Tenging þeirra hjóna við Urriðaholtið nær þó lengra aftur í tímann. „Við vorum stundum í gönguferðum hér í holtinu fyrir 20 árum og fannst umhverfið jafn fallegt þá og nú. Á þeim tíma voru einhverjar áætlanir hjá bæjaryfirvöldum í Garðabæ um að skipuleggja íbúðabyggð í Urriðaholti og við töluðum um hvað það gæti verið gaman að eiga hér heima,” segja þau.

Og nú er draumurinn orðinn að veruleika. „Þó að uppbygging hverfisins hafi orðið hægari en til stóð vegna bankahrunsins, þá líður okkur mjög vel hérna og erum mjög ánægð. Aðstæður í þjóðfélaginu hafa breyst mikið og það þýðir ekkert að æsa sig yfir því þótt ekki hafi allt orðið eins og ráð var fyrir gert.”

Ekki er víst að fjölskyldan að Keldugötu 7 verði lengi “ein í heiminum” því nokkur önnur hús eru í byggingu í Urriðaholti og áform eru um að hefja byggingu á fleiri húsum í Keldugötunni. „Við tökum að sjálfsögðu fagnandi á móti nýjum nágrönnum,” segir Hafsteinn.

Hönnuður hússins er Viðar Steinn Árnason byggingafræðingur. Það er 272 fermetrar með innbyggðum bílskúr og í stofu er mikil lofthæð. Útsýnið yfir Urriðavatn og hrauntunguna er óviðjafnanlegt og kyrrðin mikil þegar verkfærin þagna í lok dagsins.

Börn þeirra Steinunnar og Hafsteins eru þrjár stelpur, 11, 21 og 23 ára og strákur 13 ára. Yngstu börnin eru í Hofsstaðaskóla og Garðaskóla. Hafsteinn er bifvélavirkjameistari og Steinunn félagsráðgjafi.

24.02.2010

Gæði raforku í Urriðaholti tryggð með 5-víra kerfi

Hitaveita Suðurnesja og fyrirtækið Orkulausnir hafa undanfarin misseri unnið að því að tryggja það sem kalla má gæði raforkudreifingar í Urriðaholti. Aðgerðirnar draga úr líkum á svokallaðri rafmengun, sem getur valdið ýmsum vandkvæðum fyrir fólk og dýr, jafnt sem ótímabæru sliti og bilunum í raftækjum.

Rafmengun stafar oftast af ónógum jarðtengingum og/eða lélegri spennujöfnun. Til að tryggja sem bestar jarðtengingar í Urriðaholti hefur Hitaveita Suðurnesja borað fjölda jarðskauta allt að 80 metra niður í jörðina. Jarðskautin eru tengd götuskápum og spennistöðvum í Urriðaholti og frá þeim liggja sérstakir rafstrengir inn í hvert einasta hús til að tryggja góða jarðtengingu. Venjulega liggja fjórir vírar frá götuskápum inn í hús, en með þessari sérstöku jarðtengingu bætist fimmti vírinn við og þá er gjarnan talað um 5-víra dreifikerfi.

Brynjólfur Snorrason, eigandi Orkulausna, segir að framkvæmdirnar hafi gengið vel og samstarfið við Hitaveitu Suðurnesja, Garðabæ og Urriðaholt verið til mikillar fyrirmyndar.

“Markmiðið með 5-víra rafdreifikerfinu er að stuðla að spennujöfnun og bæta jarðbindingu. Þannig er dregið úr líkum á ójöfnu flæði rafmagns og svokallaðri yfirtíðnibjögun. Þetta er í einu orði kallað rafmengun, sem getur orsakað ójafnvægi í umhverfinu og haft neikvæð áhrif á heilsufar manna og dýra,” segir Brynjólfur.

„Þegar hús eru illa spennujöfnuð og illa jarðtengd, þá hreinlega líður fólki ekki nógu vel,“ segir Brynjólfur. „Stundum finnst þessi vanlíðan á ákveðnum stöðum innanhúss, þar sem spennujöfnun er áfátt eða yfirtíðnibjögun vegna skorts á jarðtengingum. Þetta sést til dæmis á því að ló og ryk safnast fyrir á ákveðnum stöðum, sprungur myndast í veggjum, móða á milli glerja, málning flagnar eða að tæki bila óeðlilega mikið. Fólk getur fundið fyrir þreytu og sleni eða hreinlega orðið veikt við slíkar aðstæður og dýr eru mjög næm fyrir þeim.“

Brynjólfur segir að húsbyggjendur, bæjaryfirvöld, verkfræðingar, rafmagnsveitur og aðrir sem koma að þessum málum hafi betur og betur áttað sig á nauðsyn þess að hafa tryggja jafnvægi í rafkerfum.

„Númer eitt er auðvitað að farið sé í einu og öllu eftir reglugerðum um gerð raforkuvirkja, þar á meðal um snertispennuvarnir, varnarleiðiskerfi og auðvitað um gerð jarðskauta og jarðskautstauga,“ segir Brynjólfur. „Því miður eru vanhöld á að þessum reglum sé fylgt og þá skapast hætta á rafmegnun.“ Hann segir að í Urriðaholti sé þessum reglum ekki aðeins fylgt út í æsar, heldur gengið lengra með því að bora fyrir jarðskautum djúpt í jörðu til að tryggja fullkomna jarðtengingu.

Brynjólfur bendir jafnframt á að í mörgum eldri hverfum, þar sem áður voru góðar jarðtengingar í gegnum vatnsleiðslur úr járnrörum, hafi leiðslurnar verið endurnýjaðar með plaströrum, sem ekki leiða rafmagn. Sjaldnast séu gerðar ráðstafanir til að jarðtengja með einhverjum öðrum hætti og þá skapist hætta á ójafnri spennu, sem ekki var áður fyrir hendi. Brynjólfur segir að víða sé pottur brotinn í þessum efnum, en þar sem rafmengunin er sjaldnast sjáanleg og vandasamt er að mæla hana, þá gerist það alltof oft að eigendur og forráðamenn húsbygginga bregðast ekki við vandanum.

„En sífellt fleiri eru að vakna til vitundar um mikilvægi þess að hafa „hreint“ streymi rafmagns í kringum sig, þannig að ég tel að þetta standi til bóta, segir Brynjólfur Snorrason.

28.09.2009

Nýr bæklingur um Urriðaholt og nágrenni

Nágrenni og náttúru Urriðaholts eru gerð ítarleg skil í nýjum bæklingi sem gefinn hefur verið út af Urriðaholti ehf. Í bæklingnum er kort af áhugaverðum stöðum í nágrenninu, svo og kort af Búrfellshrauni.

Ítarlega er sagt frá Urriðavatni og fjölbreyttu lífríki þess, Búrfellshrauni og sögu og minjum svæðisins. Einnig er kort yfir helstu örnefnin í kring um Urriðaholt og myndir af merkum áfangastöðum.

Kort af Urriðaholti og nágrenni sýnir mjög vel hversu stutt er í guðsgræna náttúruna allt í kring. Sýndar eru nokkrar áhugaverðar gönguleiðir innan og utan Urriðaholts, frá 2 til 7 km að lengd.Á kortinu kemur einnig fram hvers stutt er í verslun, þjónustu og góðar samgönguleiðir.

Hægt er að nálgast bæklinginn á bæjarskrifstofum Garðabæjar og á skrifstofu Urriðaholts ehf. að Laugavegi 182, en einnig er hægt að skoða hann hér á vefnum eða sem PDF skjal.

08.05.2009

Samið um uppbyggingu á “5-víra” rafkerfi í Urriðaholti

Fulltrúar Garðabæjar, Urriðaholts og Hitaveitu Suðurnesja undirrituðu í gær samkomulag um að svokallað “5-víra” rafkerfi verði lagt í vesturhluta Urriðaholts. Um er að ræða tilrauna- og þróunarverkefni sem Urriðaholt ehf. styrkir fjárhagslega, en Hitaveita Suðurnesja annast framkvæmdir.

Markmiðið með 5-víra rafdreifikerfinu er að bæta jarðsamband og draga þannig úr líkum á ójöfnu flæði rafmagns. Í því samhengi er oft talað um rafmengun, sem geti orsakað ójafnvægi í umhverfinu og haft neikvæð áhrif á heilsufar manna og dýra. Áralangar rannsóknir og úrbætur sem Brynjólfur Snorrason hjá Orkulausnum hefur staðið að til að auka jarðsamband gefa sterklega til kynna að það geti gefið góða raun – og alls ekki spillt fyrir. Í samræmi við áherslur Urriðaholts ehf. á gæði skipulagsins var ákveðið að stuðla að bættu jarðsambandi rafdreifikerfisins og leggja fjármuni til þess að gera slíkt að veruleika.

amkomulagið undirrituðu Gunnar Einarsson bæjarstjóri, fyrir hönd Garðabæjar, Jón Pálmi Guðmundsson framkvæmdastjóri fyrir hönd Urriðaholts ehf. og Albert Albertsson aðstoðarforstjóri fyrir hönd Hitaveitu Suðurnesja.

Framkvæmdin felur í sér að HS setur niður allt að 80 metra djúp jarðskaut víðsvegar um Urriðaholt. Sérstakur vír, eð leiðari, frá dreifikerfi rafmagns tengist jarðskautunum. Heðfbundin rafdreifikerfi hafa 4 leiðara, en hér bætist enn einn við og því er talað um 5-víra rafdreifikerfi.

Hitaveita Suðurnesja mun mæla árangur af 5-víra kerfinu. Hins vegar mun reynslan ein leiða í ljós hver áhrifin verða.

Framkvæmd þessi er í samræmi áður kynntar fyrirætlanir Urriðaholts á þessu sviði. Þrátt fyrir að lítil hreyfing sé í Urriðaholti um þessar mundir, þá er talið  mikilvægt að fylgja eftir öllum áformum skipulagsins, enda muni Urriðaholt standa sterkt að vígi til framtíðar.

Á næstu vikum munum við setja ítarefni á vefinn og senda lóðarhöfum tæknilegar upplýsingar.

04.09.2008

Kynning á teikningum skólabygginga í Urriðaholti

Við boðum þá sem tóku þátt í hugmyndavinnu vegna hönnunar skóla- og íþróttamannvirkja á Urriðaholti, skólastjórnendur í Garðabæ og aðra áhugasama til kynningar á teikningum Arkitema arkitektarstofnunnar á leik- og grunnskóla ásamt íþróttamannvirkjum á Urriðaholti.

Kynningin verður í Garðabergi miðvikudaginn 10. september kl.16.00 - 17.00. 

16.05.2008

Táknatréð sprettur upp

Listaverkið Táknatréð verður reist efst í Urriðaholti í þessari viku. Táknatréð er fyrsta mannvirkið sem rís í Urriðaholti, en það er samstarfsverkefni Gabríelu Friðriksdóttur og frönsku hönnuðanna/listamannanna Mathias Augustyniak og Michael Amzalag, einu nafni M/M.

Táknatréð er úr bronsi og verður rúmir fimm metrar á hæð. Tréð segir Gabríela að megi kalla minnisvarða um möguleikana, innblásið af gjafmildi góðs samstarfs ólíkra aðila og endurspegli þannig undirstöðu þeirrar byggðar sem rísa eigi í Urriðaholti.

Starfsmenn stærsta bronssteypufyrirtækis í Evrópu vinna nú að uppsetningu verksins í Urriðaholti ásamt listamönnunum. Áformað er að því verði lokið sunnudaginn 18. maí.

Hugmyndina að verkinu segir Gabríela að megi rekja til þess þegar M/M komu hingað til lands í tengslum við frönsku menningarhátíðina Pourqois Pas? snemma árs 2007. Þá hófst hugmyndavinna á bak við Tree of Signs og haldin var sýning á frumteikningum í Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ . Tréð byggist á sömu leturgerð M/M og notuð var fyrir umslagið á plötu Bjarkar, Medúllu, og sem notuð var sem grunnur undir allt prentað efni og þrívíða hluti sem þeir unnu í samstarfi við Gabríelu fyrir Tvíæringinn í Feneyjum. Í Táknatrénu verður leturgerðin hins vegar þrívíð og teikningar Gabríelu mótaðar í lágmyndir sem hanga munu í trénu eins og ávextir eða fræ. „Þegar samstarf við Urriðaholt kom til tals og við hófum að kynna okkur hugmyndafræði þess kom hún heim og saman við hugmyndir okkar. Auk þess hafði okkur alltaf langað að setja tréð upp á óbyggðu svæði,“ segir Gabríela.

„Við hjá Urriðaholti fréttum af M/M í gegnum menningarfulltrúa Garðabæjar og fórum stuttu síðar með þá Mathias og Michael í skoðunarferð upp undir Búrfellsgjána“, segir Sigurður Gísli Pálmason, sem situr í stjórn Urriðaholts ehf. „Það er sjaldgæft að menn komist í tæri við jafn ósnortið land svo skammt frá byggð, enda hrifust þeir af náttúrufegurðinni. Skömmu síðar var ákveðið að tréð yrði fyrsta mannvirkið til að rísa á Urriðaholti. Það er skemmtilega táknrænt og gefur áþreifanleg skilaboð um gróanda og vöxt í Urriðaholti“.

Gabríela segir það besta við Táknatréð að það sé svo að segja stallalaust, ólíkt flestum listaverkum í opinberu rými. „Í slíkum rýmum finnst mér vera unnið á móti listinni með því að búa til fyrirfram ákveðinn ramma utan um allt, en þannig nær verkið sjaldan að þróast eðlilega og samsvara sér umhverfinu,“ segir Gabríela. Hún segir þetta einnig speglast í því að leturgerðin sem notuð er í verkinu rammi ekki inn heldur skapi möguleika. „Hin formræna heimspeki og heimspekin á bak við Urriðaholt eiga vel saman. Það er að segja að vinna með möguleikum náttúrunnar og rekast ekki á hana, heldur að nota mjúk form sem mynda meira samspil”.

25.03.2008

Náttúrufræðihús á Jónasartorgi

Gengið hefur verið frá samkomulagi um að Náttúrufræðistofnun Íslands verði í nýju 3.500 fermetra húsi við aðkomuna, vestast í Urriðaholti. Þar með lýkur hálfrar aldrar bið náttúrufræðistofnunar eftir varanlegum heimkynnum, en stofnunin hefur verið í leiguhúsnæði við Hlemm í tæpa fimm áratugi. Hús Náttúrufræðistofnunar mun standa við Jónasartorg, en bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti í nóvember að gefa torginu þetta nafn í tílefni þess að 200 ár voru liðin frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar. Ekki aðeins er Jónas eitt ástælasta skáld þjóðarinnar, heldur hefur hann stundum verið kallaður fyrsti íslenski náttúrufræðingurinn.

19.03.2008

LivCom á Íslandi

Allt það sem við gerum heimavið til að bæta umhverfið og lífsgæðin skila sér á heimsvísu. Þetta segir Alan Smith, framkvæmdastjóri alþjóðasamtakanna Livable Communities.  Alan var hér á landi til að kynna áherslur samtakanna Livable communities – eða LivCom – fyrir íslensku sveitarstjórnarfólki. Hann hélt erindi í golfskálanum á Urriðavelli fyrir rúmlega 50 áhugasama starfsmenn sveitarfélaga og kjörna fulltrúa auk arkitekta og skipulagsfræðinga.  LivCom verðlaunin eru veitt ár hvert. Þar koma saman fulltrúar sveitafélaga alls staðar að úr heiminum og kynna verkefni sín fyrir dómnefnd og öðrum þátttakendum. Mörg dæmi eru um að sveitarfélög hafi tekið upp samstarf sín á milli til að vinna á sameiginlegum vandamálum í kjölarið. Segja má að þetta sé eini samráðsvettvangur sveitarfélaga á hnattrænum vettvangi. Skipulag Urriðaholts í Garðabæ var fyrsta íslenska verkefnið sem tók þátt í Livcom og hlaut það silfurverðlaun í sínum flokki í desember síðastliðnum.  LivCom leggur áherslu á að allar aðgerðir til að bæta líf og umhverfi í nærsamfélagi fólks hafi líka jákvæð áhrif fyrir heimsbyggðina. Fyrir vikið nýtur LivCom stuðnings UNEP, Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna.  Í erindi sínu sagði Alan Smith að með nánu samstarfi íbúa og sveitarfélaga mætti gera kraftaverk í umhverfismálum og auka þar með lífsgæðin heimavið. Hann sagði að lykilatriði væri að stuðla að sjálfbærni samfélagsins, þannig að auðlindir þess nýttust einnig næstu kynslóðum. Stuðla þyrfti að heilbrigðum lífsstíl, draga úr mengun, virða menningarsöguna og skapa fegurra umhverfi.  Sem dæmi bendir Alan á að sveitarfélag sem örvar fólk til að ganga eða hjóla með þar til gerðum stígum, ásamt því að styðja við almenningssamgöngur, leggur þung og mikilvæg lóð á vogarskálar velferðar heimsins. Þessar aðgerðir draga úr notkun á takmörkuðum auðlindum og minnka mengun. Um leið verður samfélagið lífvænlegra, hlýlegra og minna stressandi.

07.03.2008

Urriðaholt í undanúrslit hjá UDG

Skipulagssamtökin Urban Design Group hafa valið Urriðaholt í undanúrslit í nýrri verðlaunasamkeppni. Átta skipulagsverkefni urðu fyrir valinu og hafa þau verið kynnt undanfarin misseri í tímaritinu Urban Design, sem er gefið út í Bretlandi.  Urban Design Group eru samtök þeirra sem starfa við skipulagsmál í Bretlandi. Urban Design Group voru stofnuð fyrir þremur áratugum og eru öflugustu samtök sinnar tegundar. Starfsemi þeirra nær nú jafnframt til fagfólks í öðrum löndum.  Verkefnin átta eru kynnt fyrir félögum UDG í tímariti samtakanna, sem kemur út mánaðarlega. Fjallað var um Urriðaholt í tölublaðinu sem kom út eftir síðustu áramót. Þegar öll verkefnin hafa verið kynnt, verður efnt til atkvæðagreiðslu meðal félaga í Urban Design Group um það verkefni sem telst best heppnað.

28.02.2008

Fundur um uppbyggingu skóla í Urriðaholti

Vinnuhópur sem hefur unnið að þróun hugmynda um hönnun skóla- og íþróttamannvirkja í Urriðaholti hefur skilað umsögn sinni. Þar er lögð áhersla á að skólinn verði hjarta samfélagsins og skólastarfið hafi umhverfissjónarmið að leiðarljósi, sé skapandi og hafi rík tengsl við grenndarsamfélagið.

Síðastliðið haust var auglýst eftir áhugasömu fólki til að taka þátt í vinnu að undirbúningi hönnunar skóla- og íþróttamannvirkja í Urriðaholti. Um 15 manns tóku að jafnaði þátt í vinnuhópnum, auk þess sem leitað var álits utan frá. Dr. Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður kennarabrautar Kennaraháskóla Íslands og breski arkitektinn Mark Dudek, sem er sérfræðingur í hönnun skóla, héldu utan um starfið.

Garðabær hefur samið við Hallgrím Þór Sigurðsson, arkitekt hjá dönsku arkitekjastofunni Arkitema um hönnun á skóla- og íþróttamannvirkjum í Urriðaholti, en þeir hafa mikla reynslu af hönnun skólabygginga á Norðurlöndum og víðar. Við hönnunina mun hann hafa niðurstöður hópsins að leiðarljósi.
Gert er ráð fyrir að öll skólastig verði saman í skólanum, þ.e. jafnt leikskóli sem grunnskóli. Í Urriðaholti fullbyggðu er gert ráð fyrir allt að eitt þúsund börnum á leik- og grunnskólaaldri.

Sú áhersla á að skólarnir verða umhverfisvænir á að endurspeglast bæði í innra starfi og ytra umhverfi. Vistvæn sjónarmið eiga að birtast í byggingunni sjálfri, í tengslum við náttúruna m.a. með áherslu á útikennslu og í umhverfisvænum samgöngum til og frá skóla.

Vinnuhópurinn telur að markmið um skapandi skólastarf og einstaklingsmiðað nám náist með því að hafa skólastarfið skemmtilegt og að það taki mið af ólíkum námsþörfum barna. Sérstök áhersla er lögð á að efla með börnunum sjálfstraust, gagnrýna hugsun og víðsýni. Samstarf mun einkenna starfshætti skólans m.a. með sveigjanlegum skilum á milli skólastiga og árganga.

Þá er rík áhersla lögð á tengsl við grenndarsamfélagið. Vinnuhópurinn sér skólana fyrir sér sem hjarta samfélagsins. Þar mun öll starfsemi sem tengist börnum og unglingum verða staðsett, svo sem félagsstarf unglinga, tónlistarskóli og aðstaða til íþrótta. Fólkið í hverfinu mun einnig sækja þjónustu í skólana t.d. bókasafni, námskeið, tónleika o.fl.  Einnig er gert ráð fyrir að börnin fari úr skólanum út í fyrirtæki og stofnanir í hverfinu og er þar sérstaklega horft til Náttúrufræðistofnunar sem verður staðsett í holtinu.

Gert er ráð fyrir að skólinn verði tilbúinn haustið 2010.

14.02.2008

Aukið jarðsamband í Urriðaholti

Dreifikerfi rafmagns í Urriðaholti verður svokallað 5-víra kerfi, í stað hefðbundins 4-víra kerfis. Tilgangurinn er að auka jarðsamband í dreifikerfinu og draga þannig úr líkum á ójöfnu flæði rafmagns.

„Umræða um svokallaða rafmengun vakti áhuga okkar og leiddi til þess að við tókum upp viðræður við Hitaveitu Suðurnesja um að efla jarðsamband í dreifikerfi rafmagns í Urriðaholti,“ segir Sigurður Gísli Pálmason, sem á sæti í stjórn Urriðaholts ehf. Hann segir að Brynjólfur Snorrason hjá Orkulausnum hafi verið óþreytandi að benda á að lélegt jarðsamband geti leitt til truflana á flæði rafmagns, eða það sem hann kallar rafmengun. „Að mati Brynjólfs getur þessi rafmengun orsakað ójafnvægi í umhverfinu og haft neikvæð áhrif á heilsufar manna og dýra. Sú lausn sem verður notuð í Urriðaholti mun vafalítið draga úr slíkri rafmengun,“ segir Sigurður Gísli.

Í hefðbundnu 4-víra rafdreifikerfi fer flutningur á jarðstraum og núllstraum um sama leiðara en 5-víra kerfi miðar að því að aðgreina þessa strauma.

28.11.2007

Urriðaholt fær verðlaun á LivCom

Rammaskipulag fyrir Urriðaholt í Garðabæ fékk í vikunni verðlaun fyrir áherslu á lífsgæði í borgarskipulagi, frá alþjóðlegu samtökunum Livcom. Þetta er mikill heiður fyrir það starf sem unnið hefur verið í tengslum við skipulagsvinnu í Urriðaholtinu og þær áherslur sem þar hafa verið lagðar í skipulagi.

Livcom samtökin njóta stuðnings umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og eru virt samtök á þessu sviði (www.livcomawards.com). Samtökin hafa það að markmiði að auka lífsgæði íbúa í borgarsamfélögum, með því að byggja upp lífvæn samfélög (e. liveable communities). Á hverju ári veita samtökin verðlaun þeim sveitarfélögum og verkefnum á sviði skipulags- og samfélagsmála, sem þykja skara framúr á þessum sviðum og eru þetta einu samtökin sem veita verðlaun á þessu sviði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á því sem vel hefur heppnast og getur verið öðrum fordæmi.
Urriðaholt fær verðlaun í flokknum “The Environmentally Sustainable Project Awards” en markmið þeirra er að hvetja þróunaraðila til að leggja sömu áherslu á umhverfis og samfélagsuppbyggingu og sveitarfélög gera í sinni vinnu.

Urriðaholtið fær verðlaunin vegna áherslna á lífsgæði með fjölbreytni í byggð og byggðablöndun, áherslu á samfélagsumgjörð og samspils byggðar við verndun umhverfis.
Verðlaunin eru ennfremur veitt vegna tengsla byggðar og náttúru, aðlaðandi bæjarbrags og umgjarðar um blandaða byggð, þar sem hið byggða umhverfi og náttúra eru tengd saman sem órjúfanleg heild. Markmiðið að skapa áhugavert samfélag, sem öruggt og aðlaðandi er að búa í og býður uppá góða aðstöðu til útivistar. Á myndinni til hægri má sjá aðstandendur Urriðaholts eftir að hafa tekið við verðlaununum. Frá vinstri: Eric Holding hjá John Tompson and Partners, London, Halldóra Hreggviðsdóttir, Alta, Guðmundur Eiríksson, stjórnarmaður í Urriðaholti, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Sigurður Gísli Pálmason, stjórnarmaður í Urriðholti, Jón Pálmi Guðmundsson, framkvæmdarstjóri Urriðaholts og Arinbjörn Vilhjálmsson, skipulagsstjóri Garðabæjar.
Sjá frekari upplýsingar í ítarefni.

31.10.2007

Umhverfisstefna samþykkt fyrir skólana

Fræðslu- og menningarsvið Garðabæjar hefur samþykkt sérstaka umhverfisstefnu fyrir skólahald í Urriðaholti. Kjarni hennar er að umhverfi og samfélag endurspeglist í starfsemi og mannvirkjum í Urriðaholti. Lykiláherslur umhverfisstefnunnar eru þessar:

 • Í Urriðaholti verði umhverfisvænar áherslur skólastarfsins í fararbroddi.
 • Nemendur verði þátttakendur í vöktun Urriðavatns, vatnabúskap þess og lífríkisins við og í vatninu.
 • Útikennslustofa verði við Urriðavatn.
 • Vistvænar skólabyggingar sem valda lágmarks álagi á umhverfi og heilsu fólks.
 • Unnið með sólar- og vindorku svo og garðræktun.
 • Markvisst verði unnið að því að gera nemendur meðvitaða um umhverfismál, nærumhverfið verði nýtt til að skilja umhverfið og náttúruna í stærra samhengi.

31.10.2007

Opin hugmyndavinna um skólastarfið

Garðabær og Urriðaholt ehf. auglýstu nýlega eftir áhugasömu fólki til að taka þátt í hugmyndavinnu vegna undirbúnings hönnunar á skólabyggingum, íþróttaaðstöðu og fleiru í Urriðaholti. Gert er ráð fyrir að vinnuhópurinn hittist fimm sinnum og skili að því loknu tillögum sínum. Fyrsti fundur vinnuhópsins var um miðjan október.

31.08.2007

Urriðaholt í lokaúrslit LivCom

Skipulag Urriðaholts í Garðabæ hefur verið valið í lokaúrslit LivCom verðlaunanna, en það eru alþjóðleg umhverfisverðlaun sem eru veitt með stuðningi Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

LivCom verðlaunin eru veitt fyrir uppbyggingu sem hefur sjálfbærni og umhverfisvitund að leiðarljósi. Heiti verðlaunanna er stytting á “livable communities” eða lífvænleg samfélög. Þau hafa verið veitt árlega frá 1997 og eru einu verðlaun sinnar tegundar í heiminum. Markmið þeirra er að hafa jákvæð áhrif á umhverfismótun og vera um leið vettvangur fyrir miðlun hugmynda og upplýsinga á þessu sviði. Rúmlega 50 lönd taka að jafnaði þátt í samkeppni um LivCom verðlaunin. Verkefnin sem komist hafa í lokaúrslit að þessu sinni verða kynnt dómnefnd í nóvember næstkomandi í Westminster í London.

Skipulag Urriðaholts fékk fyrr á þessu ári verðlaun frá Boston Society of Architects. Þau voru veitt fyrir framúrskarandi skipulag, þar sem unnið hefur verið frá grunni með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi.

Skipulag Urriðaholts nýtur einnig viðurkenningar á norrænum vettvangi. Nordregio, sem er norræn rannsóknarstofnun í skipulags- og byggðamálum, gaf nýlega út skýrslu um aðstæður sem geta haft ráðandi áhrif á samkeppnishæfni og sjálfbærni borgarsvæða á Norðurlöndum. Urriðaholt var framlag Íslands í þessari skýrslu, sem dæmi um árangursríkt skipulagsverkefni.

15.05.2007

Skipulagið verðlaunað

Rammaskipulag fyrir Urriðaholt, þar sem sleginn er nýr tónn í skipulagi byggðar á Íslandi, hefur fengið verðlaun frá Boston Society of Architects (BSA). Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi skipulag, sem unnið hefur verið frá grunni með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi. Byggðin er lágreist og nokkuð þétt, með áherslu á að skapa tilfinningu fyrir rótgróinni byggð. Verðlaunin eru einnig veitt fyrir gott gönguumhverfi, meðferð ofanvatns til að vernda Urriðavatn, tengingum við útivist og síðast en ekki síst því hvernig leitast er við að mynda skjól og fanga sólarljós.

Auk þessa hefur rammaskipulag Urriða-holts verið valið sem íslenskt framlag í norrænt rannsóknarverkefni norrænna skipulagsyfirvalda og Nordregio, norrænu rannsóknarstofnunarinnar í skipulags- og byggðamálum sem stofnuð var af Norrænu ráðherranefndinni. Markmið verkefnisins var að leita góðra fordæma og skilgreina þær aðstæður sem geta haft ráðandi áhrif á samkeppnishæfni og sjálfbærni borgarsvæða á Norðurlöndum.