11.09.2018

Ábendingar varðandi skjólveggi og girðingar í Urriðaholti

Að gefnu tilefni vilja Garðabær og Urriðaholt ehf. ítreka ákvæði deiliskipulags um skjólveggi og girðingar í Urriðaholti og skýra þau sjónarmið sem þar liggja að baki. Nokkur dæmi hafa komið fram þar sem útfærsla er ekki í samræmi við deiliskipulag.

Um framkvæmdina

Vakin er athygli á að skjólveggir og girðingar skulu koma fram á aðaluppdráttum sem skilað hefur verið inn til byggingarfulltrúa, áður en hafist er handa við framkvæmdir. Þegar byggingarverktaki skilar húsum af sér skulu girðingar og skjólveggir vera skv. teikningum og er tilhögun þeirra staðfest í lokaúttekt byggingarfulltrúa. Ef íbúðareigendur/húsfélög reisa girðingu eða skjólveggi eftir þann tíma, sem ekki eru í samræmi við aðaluppdrætti þá þarf að sækja um leyfi fyrir því til Garðabæjar og leggja inn nýja aðaluppdrætti ásamt samþykki nágranna eftir því sem við á. Gott er að leita ráðgjafar hjá byggingaryfirvöldum strax við undirbúning framkvæmda. Við hvetjum fólk til að ráðfæra sig við hönnuð hússins og/eða skipulagshönnuði um mögulegar útfærslur til að skapa jákvæða lausn fyrir íbúa og umhverfið. Samspil við gróður, uppbrot veggja og efnisáferðir, heildaútlit húsa og litir eru mikilvægir þættir í heildar ásýnd hverfisins. Starfsmenn Garðabæjar geta veitt upplýsingar um hverjir hönnuðir húsa eru.

Við bendum ennfremur á að gefnir hafa verið út tveir Staðarvísar fyrir Urriðaholt sem eru leiðarljós í umhverfishönnun og eiga að nýtast bæði bæjarvöldum með frágang opinna svæða og lóðarhöfum um frágang lóða. Gögnin eru aðgengileg á heimasíðu Urriðaholts undir ítarefni. Hvetjum við alla til að kynna sér það sem þar kemur fram.

Deiliskipulag yfirlit skjólveggir
Helstu ákvæði og reglur varðandi gerð skjólveggja í Urriðaholti.


Hvers vegna eru sérstök ákvæði um skjólveggi og girðingar?

Alveg frá upphafi skipulagsvinnu í Urriðaholti hefur verið lögð áhersla á að skapa þar aðlaðandi götumynd og öruggt umhverfi í þeim tilgangi að stuðla að betri upplifun og vellíðan fólks í hverfinu. Þessar forsendur voru fyrst mótaðar í almennum orðum í rammaskipulaginu, m.a. í umfjöllun um staðaranda „placemaking“ og einkenni byggðar (sjá heimasíðu Urriðaholts, Rammaskipulag bls. 20-25) og hafa svo verið útfærðar nánar í deiliskipulagi. Þessi stefna helst svo í hendur við aðrar áherslur í hverfinu m.a. um uppbrot bygginga, dreifingu umferðar og að göturými eru umfangsminni og betur umlykjandi en almennt tíðkast.

Öll þekkjum við dæmi þar sem lóðir eru girtar af með litlum metnaði og neikvæðum áhrifum fyrir þá sem næst búa og þá sem eiga leið um.

Götumynd nei
Á þessari skýringarmynd má sjá hvernig skjólveggir geta haft neikvæð áhrif á ásýnd og búið til óáhugavert umhverfi.
Götumynd ja
Til að ýta undir aðlaðandi umhverfi og stuðla að öryggi vegfarenda ættu framhliðar húsa (ekki þó gluggalausir veggir, girðingar, skjólveggir eða bakhliðar bílskúra) að vera sýnilegar frá stærstum hluta götunnar fremur en faldar á bak við háar girðingar.
Ryggi
Með opnum svæðum með góðum sjónlínum tryggjum við öruggari svæði með gagnkvæmu aðhaldi og eftirliti. Á þessari mynd er m.a. bent á þá þætti sem skipta máli þegar kemur að öryggi vegfarenda.