Bygging Urriðaholtsskóla er komin vel á veg. Leikskóladeild tók til starfa í byrjun apríl 2018 og um haustið hefst kennsla í 1.–4. bekk. Fullbyggður verður Urriðaholtskóli með allt að 700 börn á grunnskólaaldri og sex deildir leiksóla með um 120 heilsdagsplássum. Skólinn verður því vel í stakk búinn að taka við nýjum íbúum í Urriðaholti.
Grunnskólinn ásamt tilheyrandi aðstöðu stendur á stórri lóð ofarlega í hverfinu, með góða útsýn til allra átta og góð tengsl við megin göngustíga hverfisins. Aðkoma akandi verður einnig greið. Fullbyggt verður skólahúsnæðið um 10-11 þúsund fermetrar með íþróttamannvirkjum og sundlaug.
Hannað fyrir fjölbreytta nýtingu
Við hönnun skólans var hugað að alhliða nýtingu hans fyrir skólastarf, tómstundir, íþróttaiðkun, námskeiðahald og félagslíf íbúa. Hægt verðurað nýta rými skólans með afar fjölbreyttum hætti frá morgni til kvölds og er hann ekkert síður hugsaður sem alhliða félagsmiðstöð íbúanna en menntastofnun barnanna.
Heimasvæði fyrir hvern árgang
Hönnun skólans byggir á „opnu“ skipulagi fyrir hvern árgang. Þannig eru engar hefðbubndnar bekkjarstofur fyrir staka bekki eins og tíðkast hefur. Þetta fyrir komulag hefur rutt sér til rúms hérlendis á liðnum árum og eru nokkur dæmi um slíka skóla á höfuðborgarsvæðinu. Hver árgangur hefur eitt svokallað heimsvæði sem skiptist í stórt sameiginlegt kennslusvæði og nokkur minni lokuð rýmið ásamt vinnuastöðu fyrir kennara árgangsins.
Lóðafrágangur við Urriðaholtsskóla sumarið 2017.
Urriðaholtsskóli er til hægri á þessari loftmynd sem var tekin í júní 2016.
Tónlist, sérgreinar og félagsstarf
Auk almennra kennslurýma verða sérgreinastofur í skólanum, s.s. heimilisfræði, smíði, myndmennt og textíl. Þær mynda sameiginlega eitt svæði í byggingunni með aðstöu fyrir sérgreinakennara. Þá verða auk tónmenntastofu einnig litlar kennslustofur fyrir tónlistarkennslu, eins konar útibú frá tónlistarskóla bæjarins. Félagsmiðstöð fyrir unglinga hverfisins verður jafnframt í byggingunni. Lagt er upp úr aðgengi að þessum sérrýmum eftir lokun skóla á köldin til afnota fyrir íbúa hverfisins og annarra bæjarbúa vegna námskeiða, sem og tengsl við félagsmiðstöð.
Hönnun íþróttamannvirkja skólans standa jafnframt yfir. Gert er ráð fyrir íþróttasal og sundlaug ásamt búningsherbergjum og eru mannvirkin jafnt ætluð fyrir skólastarf sem almenna notkun.
Metnaðarfull skólastefna Garðabæjar
Garðabær hefur kappkostað að reka góða skóla þar sem fram fer metnaðarfullt og framsækið skólastarf. Megináhersla er lögð á samfellu í námi barna og þjónustu við þau frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til átján ára aldri er náð. Það kallar á öflugt samstarf fagfólks þvert á skólastig, samvinnu við nemendur og forráðamenn, sveigjanleg skólaskil og einstaklingsmiðað nám. Mikið er lagt upp úr góðu samstarfi milli íbúa og stofnana bæjarins til að stuðla að farsælu skólasamfélagi.
Áhersluatriði skólasamfélagsins í Garðabæ:
- Þjónusta við börn frá því að fæðingarorlofi lýkur
- Eftirfylgni með börnum og ungmennum fram að 18 ára aldri
- Samfellt nám barna og ungmenna
- Einstaklingsmiðað nám og námshraði
- Virkt samstarf heimila og skóla
- Frjálst val um skóla
- Sjálfstæði skóla til að marka sér sérstöðu
- Fjölþætt ráðgjafa- og stoðþjónusta skóla
- Samræmt skóladagatal leikskóla og grunnskóla
- Heilsársopnun leikskóla
- Gott námsumhverfi
- Fjölbreyttum tækifæri nemenda til hreyfingar og útiveru
- Lýðræðislegir starfshættir skóla
- Jákvæður skólabragur
- Gott starfsumhverfi
- Virk símenntun starfsfólks
Áhersla á umhverfið er rauði þráðurinn
Línurnar fyrir uppbyggingu skólastarfs í Urriðaholti voru strax lagðar í rammaskipulagi Urriðaholts og umtalsverð undirbúningsvinna hefur farið fram á vegum fræðslu- og menningasviðs Garðabæjar í samstarfi við arkitekta og ráðgjafa.
Garðabær samþykkti sérstaka umhverfisstefnu fyrir skóla í Urriðaholti í samræmi við áherslur hverfisins í umhverfismálum. Þar er áhersla lögð á nýta umhverfið og kosti þess í daglegu skólastarfi, kennslu og leik. Markmiðið er að skólarnir verði í farabroddi í almennri þróun umhverfisvænna skóla og skapi sér skóla- og kennslustefnu sem samræmist nútíma áherslum á sviði umhverfismála. Ennfremur að skólarnir leggi sérstaka áherslu á vatnabúskap svæðisins með því greina umhverfisáhrif sjálfbærra ofanvatnslausna í Urriðaholti og að nemendur séu virkjaðir til þátttöku í vöktun Urriðavatns.
Unnið verður að því að skólinn fái hina alþjóðlegu BREEAM umhverfisvottun en hún tekur til þeirra þátta byggingarinnar sem lágmarka neikvæð umhverfisáhrif hennar og stuðla að sjálfbærni. Þess má geta að hús Náttúrufræðistofnunar Ísland í Urriðaholti var eitt af fyrstu húsum hér á landi til að fá BREEAM vottunina.